11.12.1934
Efri deild: 58. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1971 í B-deild Alþingistíðinda. (2606)

124. mál, hlutafjárframlag fyrir h/f Skallagrím í Borgarnesi

Frsm. (Páll Hermannsson):

Það hefir komizt til orða að lána þeim Vestfirðingum vitaskipið Hermóð, og það hefir líka verið minnzt á það í samgmn. Forstjóri Skipaútgerðarinnar hefir komið til tals um þetta við samgmn. og hefir átt tal um þetta við þær. Ég hefi hér hjá mér ætlun, sem hann hefir gert um kostnað af þessum tveimur bátum, nýjum 60 tonna bát eins og hv. þm. N.-Ísf. gerir ráð fyrir, og hinsvegar vitabátnum Hermóði. Telur hann þar, að rekstrarkostnaður þessa nýja báts muni vera um 76000 kr. á ári, og eru þá ekki frátaldar þær tekjur, sem hann hefir. En rekstrarkostnaður Hermóðs er gert ráð fyrir, að sé 68 þús. kr., eða 8000 kr. minni. Þar verður þó því við að bæta, að þar er ekki gert ráð fyrir, að nein leiga sé goldin eftir Hermóð, og ekki heldur viðhald, nema þá að litlu leyti.

Nú sýnist mér, að ef ríkisstj. getur lánað Hermóð til þessara ferða, þá mundi ekki vera frágangssök að nota hann, ef þessi áætlun er rétt, því að Hermóður er nálægt 100 tonn og að ýmsu leyti betur útbúinn en þessi nýi bátur mundi verða. Hann hefir t. d. sjálfvirkan dýptarmæli, sem er dýrt áhald og hentugt í svona ferðum. Það hefir einnig verið upplýst, að Hermóður og þessi nýi 60 tonna bátur rista jafndjúpt, svo að því leyti kemur það í sama stað niður. Þegar þessi áætlun var lögð fyrir samgmn., var hv. þm. N.-Ísf. þar viðstaddur, og þá efaðist hann ekki um, að þessar áætlanir væru nærri lagi. Mér skilst því, að með þessari aðferð megi bæta úr mjög brýnni þörf án þess að byggja nýjan bát, en ef það væri svo, þá mundu það teljast kostur að þurfa ekki að byggja nýjan bát, vegna þess að margt liggur nú fyrir, sem gera þarf.

Ég get þess vegna ekki séð annað en að bæta megi úr samgönguörðugleikum Vestfjarða, og það án þess að byggja nýjan bát, ef hægt verður að fá Hermóð til þessara ferða. Nú hefir hæstv. atvmrh. tekið til máls hér og lýst því yfir, að um þetta hefði ekki verið tekin ákvörðun í stj., og ég veit, að það muni vera alveg rétt. En ég hefi hinsvegar leyfi til að geta þess f. h. þess flokks, sem ég er í, og þá sjálfsagt líka f. h. þeirra ráðh., sem eru í flokknum, að það er blátt áfram meining Framsfl., að Hermóður verði lánaður til þessara ferða leigulaust og án þess að greiða viðhald, a. m. k. að fullu. Og ef það skyldi vera rétt, að rekstrarkostnaður Hermóðs væri um 8000 kr. minni en á þessum nýja bát, þá sýnist mér, að þar sé ekki alveg gengið framhjá þessari þörf Vestfirðinga. Hv. þm. N.-Ísf. segir, að það sé meira en lítið gerræði, ef Vestfirðingum yrði nú neitað um þá hjálp, sem felst í brtt. hans. Ég tel, að það væri gerræði við þá, ef þeim væri neitað um alla hjálp. Ég er honum sammála um það, að þar sem svo hagar til sem þar, þá er ekki að ræða um samgöngur á landi. Þær verða allar að fara fram á sjó, og þá er skylt að hjálpa þeim til við samgöngubætur á sjó. En ég tel það ekkert gerræði að leggja á móti till. hans, ef Ísfirðingar geta fengið Hermóð til þessara ferða. Ég get líka lýst því yfir, að mér þykir mjög líklegt, að hvort sem Hermóður verður hafður til þessara ferða eða nýr bátur smíðaður, þá muni það reynast hæpið, að sami styrkur sem að undanförnu, eða nálægð 20000 kr., nægi til þess, að ferðirnar beri sig. En mér skilst, að það verði a. m. k. hægt að komast af með eins lágan styrk til Hermóðs og til þessa nýja báts.

Þá vil ég drepa nokkuð á brtt. hv. 4. þm. Reykv., að það skuli ekki vera leyfilegt að greiða hluthöfum arð af því fé, sem þeir leggja í Skallagrím. Ég vil nú í fyrsta lagi benda á það, að þetta skip á að kosta því sem næst 300000 kr. og verður um 300 brúttó tonn að stærð. Það á að rúma um 250 farþega og getur tekið á dekk 10 bíla og er yfirleitt á allan hátt vel útbúið skip. Nú er það svo, að það er ætlazt til þess, nú helmingur af byggingarkostnaði, eða nálægt 150 þús., verði lagt fram sem hlutafé. Þar af er gert ráð fyrir, að ríkið leggi fram 50000, en einstakir menn og sveitarfélög verða þá að leggja fram allt að 100000 kr. En mér finnst varla von, að einstakir menn vilji leggja fram svo mikið fé í þetta fyrirtæki, ef þeir hafa enga von um að fá neinn arð, hversu vel sem gengur. Ég veit, að það getur alltaf orðið álitamál, hversu mikinn arð skuli greiða, getur vel verið, að 5% sé of hátt. (ÞÞ: Það er líka hámarkið). Já, það er rétt, en þar sem um svo mikil fjárframlög er að ræða, þá er ósanngjarnt og óráðlegt að taka fyrirfram alla von af mönnum um það, að fá nokkurn arð af því fé. Svo má líka taka það með í reikninginn, að ef arður væri greiddur af hlutafénu, þá fær ríkið að sjálfsögðu einnig arð af sínu hlutafé.

Hæstv. atvmrh. tók það fram sem sína skoðun, að ríkið ætti helzt ekki að leggja fram hlutafé í flóabáta. En það er kunnugt, að þetta fyrirtæki hefir sérstöðu, eins og ég hefi áður tekið fram, sem sé að þetta er þýðingarmikill liður í almennum samgöngum, því að það er gert ráð fyrir, að þetta skip hafi tíðar ferðir milli Rvíkur og Borgarness, og þeir, sem vita, hve mikill ferðamannastraumur er á leiðinni frá Rvík og bæði norður og vestur um land, hljóta að skilja, hversu mikið er varið í að fá þarna örugga og fljóta ferð í staðinn fyrir að verða að fara hina ógreiðu og löngu leið inn fyrir Hvalfjörð, sem er oft ill yfirferðar eða jafnvel ófær.

Það er því óþarft fyrir hæstv. ráðh. að telja það varhugavert að leggja fram þennan styrk. Hér er um undantekningu að ræða frá venjulegum flóabátum.

1) Niðurlag ræðunnar vantar af hendi skrifara. S. Á. Ó.