11.12.1934
Efri deild: 58. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1975 í B-deild Alþingistíðinda. (2609)

124. mál, hlutafjárframlag fyrir h/f Skallagrím í Borgarnesi

Jón Auðunn Jónsson:

Út af því, sem hv. form. fjvn. sagði, vil ég benda á, að fyrst og fremst er málið í engri hættu, þó að brtt. mín verði samþ., vegna þess, að mér er kunnugt um, að fyrir utan Sjálfstfl., sem mun standa með frv. í Nd., munu báðir Bændaflokksmennirnir í Nd. verða með því og einnig hv. þm. V.-Ísf., sem er þessari till. mjög meðmæltur vegna síns héraðs. Það er aðeins fyrirsláttur að segja, að málið sé í hættu, ef þessar till. mínar verða samþ.

En þar sem hv. þm. minntist á Hermóð, þá gerði hann það af sömu ástæðu og aðrir hér, sem vilja þvo hendur sínar, af því að þeir vilja drepa þessa till. Það er enginn hér, sem getur sagt, hvernig Hermóður eigi að annast þessar ferðir. Þessu er bara slegið fram, án þess að reynt sé að sanna, með hverjum hætti þetta megi verða, því að menn vita vel, að það er óframbærilegt að setja Norður-Ísafjarðarsýslu hjá í þessu máli. Ég veit ekki til, að hv. fjvn., sem snemma á þessu þingi fékk erindi um þetta frá sýslun. Norður-Ísafjarðarsýslu og þeim öðrum, sem um þessar samgöngur fjalla fyrir hönd sýslubúa, hafi samþykkt neina till. um þetta ennþá. Sé svo, að hv. n. hafi ekki gert þetta, get ég ekki talið það annað en fyrirslátt nú, að tala um Hermóð í þessu sambandi, til þess að reyna að drepa till. mína. Þar að auki er mjög mikill meiningamunur hjá þeim, sem standa að þessari till. Hv. frsm. samgmn. heldur því fram, að það sé betra fyrir Norður-Ísafjarðarsýslu að fá Hermóð heldur en að byggja nýjan bát, og telur hann ekki of stóran til þess að annast þessar ferðir. Hæstv. atvmrh. vildi helzt hafa einn 20 tonna bát fyrir Djúpið og þá sennilega annan fyrir norðurhreppana, nema hann ætli þeim að vera án allra samgangna. Á meðan svo togast á álit manna um þetta mál, og sérstaklega þegar tekið er tillit til afstöðu hæstv. atvmrh. til málsins, þá er það meir en á huldu nú, hvort nokkrum ferðum verður haldið uppi í Norður-Ísafjarðarsýslu á næsta ári.

Hæstv. atvmrh. vill nota litla báta til þessara ferða og leigja svo stóran bát, þegar sérstaklega mikil þörf er á flutningum. Hann virðist halda, að hvenær sem menn vilja grípa til, sé hægt að fá slíkan bát leigðan. En þetta er mikill misskilningur. Hæstv. ráðh. gætir þess ekki, að þarna eru engir slíkir bátar, nema fiskibátar. Nema svo sé kannske, að hæstv. ríkisstj. ætli að hafa einn bát þarna liggjandi, til þess að annast meiri háttar flutninga þarna vestur frá. Annars fara uppástungur hæstv. ráðh. algerlega í bága við allar uppástungur þeirra manna, sem vilja vel samgöngumálum í Norður-Ísafjarðarsýslu. Krafa þeirra manna hefir verið og er eindregin sú, að fá bát, sem sé um 60 rúmlestir, til póstferða, manna- og vöruflutninga í héraðinu. En þeir vantreysta því, að stærri bát en þetta sé hægt að gera út til þessara flutninga, nema með stórum hærri styrk, og þess vegna vilja þeir ekki fara lengra.

Hæstv. ráðh. sagðist vera þessu máli ókunnugur. Mig undrar það stórlega, þar sem hann hefir lengst af dvalið í héraðinu og auk þess fengið bréf frá sýslun., sem skrifað er, að ég held, fyrstu dagana í október síðastl. og samrit af öðru bréfi frá 22. okt., sem skrifað er til fjvn. Virðist hæstv. atvmrh. ekki hafa lagt mikla rækt við að kynna sér þetta mál þegar hann þykist vera ókunnugur því eftir að hafa fengið þessi tvö bréf.

Hv. frsm. kom með þau skilaboð frá Framsfl., að mér skilst, að hann vildi láta Hermóð annast þessa flutninga á næsta ári án þess að leiga yrði greidd eftir skipið til ríkissjóðs, og gaf undir fótinn með, að ríkissjóður yrði látinn greiða rekstrarhallann. Þetta er vitanlega bráðabirgðalausn, sem væri mun betri en engar aðgerðir. En framtíðarlausn á málinu er þetta ekki. Ég er sannfærður um, að Hermóður verður svo dýr í ferðum og tapið svo mikið á útgerð hans, að hann muni ekki verða notaður til þessara flutninga til frambúðar. Skipið er að mörgu leyti gott, en það er óhentugt til þessara ferða, þar sem aðeins 10—12 menn geta setið niðri í skipinu, með þrengslum þó, en oft er það 30—40 manns, sem þurfa að ferðast með bátnum, og langar leiðir flestir af þeim. (Forseti: Þetta var aðeins aths.). Ég vænti, að hæstv. forseti verði mér hliðhollur, þar sem ég notaði mína fyrstu ræðu sem fyrirspurn til ráðh.

Út af rekstraráætlun þeirri fyrir hinn fyrirhugaða nýja bát, sem hv. frsm. minntist á, að rekstur og afskrift bátsins og vextir og afborganir af lánum vegna hans yrðu alls 16 þús. kr., vil ég segja það, að vitaskuld þarf að greiða öll þessi gjöld eins þótt um Hermóð sé að ræða. Munurinn er bara sá, að rekstrarkostnaðurinn við Hermóð yrði 8 þús. kr. hærri heldur en ef um nýjan 60 tonna bát væri að ræða, og undrar það engan, þótt 100 tonna gufuskip sé dýrara í rekstri heldur en 60 tonna mótorbátur. Bátur, sem hafður er til þessara flutninga, verður að halda áfram daglega. Ef hann hefir gufuvél, þá er varla nokkurn tíma hægt að slökkva undir vélinni. Verður því eyðslan að þessu leyti miklu meiri með því að nota gufuskip heldur en með því að nota mótorbát, þar sem stöðva má mótorvélina strax og báturinn leggst við bryggju.

Mér virðist, af því, sem hér er fram komið, að það sé engan veginn víst, hvernig þessu verði fyrir komið. Og þar sem hæstv. ráðh. hefir enn engin svör gefið um það, að hann vilji láta Hermóð annast þessar ferðir, þá verð ég að segja, að það er langt frá því, að ég hafi neina von um það, að úr þessum vandræðum sýslubúa verði bætt. Til þess að fá frekari svör frá hæstv. ráðh. og hv. fjvn., get ég tekið þessar till. mínar aftur til 3. umr. Lengur get ég ekki frestað þessu, nema ég fái einhverja vissu um, hvernig á að koma þessu fyrir.