11.12.1934
Efri deild: 58. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1978 í B-deild Alþingistíðinda. (2611)

124. mál, hlutafjárframlag fyrir h/f Skallagrím í Borgarnesi

Magnús Guðmundsson:

Ég vildi aðeins svara hv. 4. þm. Reykv. nokkrum orðum. Hann færði ekki fram nein rök fyrir því, að einstaklingar ættu fremur að kosta flóabáta heldur en strandferðir yfirleitt. Flóabátum er haldið út vegna þess, að strandferðaskipin geta ekki annað því að halda uppi nauðsynlegum samgöngum á ferðasvæðum þeirra. Ég sé ekki annað en að Norður- og Vestur-Ísafjarðarsýsla og Borgarfjörður eigi sömu kröfu til samgöngubóta eins og aðrir landshlutar. Þar af leiðir, að ríkið má þakka fyrir, ef einstakir menn leggja fram fé í þessum tilgangi, þó að það sé ekki jafnframt fyrirbyggt, að þeir fái vexti af sínum framlögum. Það er mjög óheppilegt, óhyggilegt og meira að segja óviðeigandi að reyna að fyrirbyggja það, að þessir menn geti fengið vexti af þessu fé, sem svaraði eitthvað í áttina til sparisjóðsvaxta, enda hefir nú jafnvel hæstv. atvmrh. ekki getað tekið undir þessa till. hv. flokksbróður síns. Ég vil einnig benda á, að ef greiddur er þessi arður yfirleitt, þá fær ríkissjóður líka einn þriðja part arðsins, þar sem hann á einn þriðja part skipsins.

Ég álít það hyggilega gert af hv. þm. N.-Ísf. að taka aftur till. sína til 3. umr., til þess þangað til að reyna að fá vissu fyrir því, að Hermóður verði hafður í förum þarna vestra með þeim kjörum, sem hv. þm. N.-Ísf. getur sætt sig við. En ég tel, að héraðsbúar þar geti ekki sætt sig við að nota Hermóð til flutninga hjá sér, ef hann verður miklu dýrari í rekstri en hinn fyrirhugaði bátur.

Þegar hv. frsm. bar saman rekstrarkostnað Hermóðs og rekstrarkostnað nýs 60 tonna báts, þá tók hann ekki tillit til þess, að í rekstrarkostnaði hins síðarnefnda er talin afborgun 7 þús. kr. og vextir og fyrning 8 þús. kr., sem ekki er tilfært á rekstraráætlun Hermóðs, hvorki í afborgun, vexti né fyrningu. Þess vegna verður minnst 8 þús. kr. munur á útgerðarkostnaði Hermóðs og 60 tonna báts, sem Hermóður verður dýrari í rekstri, jafnvel þótt ekkert sé reiknað fyrir fyrningu og vöxtum. (SÁÓ: Olían er of lágt áætluð í áætluninni fyrir mótorbátinn). Ég veit ekkert um það. En Pálmi Loftsson, forstjóri skipaútgerðar ríkisins, hefir áætlað þetta, og ég geri ráð fyrir, að hann kunni ekki lakara skil á þessu heldur en hv. 4. þm. Reykv. og að hann hafi fengið góðar upplýsingar um þetta áður en hann gerði áætlunina.