13.12.1934
Efri deild: 60. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1981 í B-deild Alþingistíðinda. (2616)

124. mál, hlutafjárframlag fyrir h/f Skallagrím í Borgarnesi

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Milli umr. hefir mér borizt bréf frá hv. þm. N.-Ísf., og ennfremur hefi ég fengið að sjá fundargerð beggja samgmn. d. Í bréfi hv. þm. N-Ísf. er endurnýjuð og nokkuð fyllri fyrirspurn, sem hann beindi til mín við 2. umr. þessa máls. Hann spyrst fyrir um það, hvort sú lausn fáist til bráðabirgða á samgönguþörfum Norður-Ísafjarðarsýslu, að ríkissjóður lánaði Norður-Ísfirðingum vitaskipið Hermóð til póst-, fólks- og vöruflutninga innan Norður-Ísafjarðarsýslu árið 1933, leigulaust og án þess að leigjendur greiddu annað viðhald skipsins en nauðsynlegt daglegt viðhald, ennfremur að styrkur til samgangna þessara miðaðist við rekstrarkostnað að frádregnum tekjum þeim, sem skipið fengi af póst-, vöru- og mannflutningum. — Þetta er fyrirspurnin. Ég hefi athugað þetta mál nokkuð síðan og ennfremur séð fundargerð samgmn., eins og ég gat um áðan, þar sem gerð er ályktun um að leggja til, að vitaskipið Hermóður verði lánað leigulaust til þess að annast ferðir Djúpbátsins.

Ég get lýst því yfir, að ég tel, að unnt verði að lána Hermóð næsta ár til þessara ferða leigulaust, eða án þess að heimtaður sé annar leigu kostnaður af leigjendum skipsins en að skipinu sé skilað nokkurn veginn í sama ástandi og það er í, þegar það er lánað. Aftur á móti um það, að styrkurinn miðist við rekstrarhalla bátsins, get ég ekkert loforð gefið um. Samgmn. hefir gert það að till. sinni, að styrkurinn til Djúpbátsins yrði hækkaður úr 19 og upp í 20 þús. kr., og ég get því ekki gefið nein loforð um það, að leggja fram meira fé en þessu nemur. Eftir þeirri áætlun, sem fyrir liggur frá Pálma Loftssyni, forstjóra Skipaútgerðarinnar, þá lítur út fyrir, að hann telji, að með sömu fólksflutningum og sömu áætlun og gerð er fyrir 60 tonna mótorbát, þá verði rekstrarkostnaður Hermóðs hér um bil 6500 kr. lægri, ef ekki er reiknuð leiga af honum, heldur en rekstrarkostnaðurinn yrði, ef notaður væri mótorbátur. Ég hygg því, að í sjálfu sér sé ekki ástæða til þess að gera ráð fyrir, að frekari styrk mundi þurfa, ef skipið verður lánað án leigu, heldur en til væntanlegs djúpbáts.

Ég vil taka það fram, að ég tel, að á þessu máli sé aðeins fengin bráðabirgðalausn, og ég get ekki hugsað mér að segja neitt ákveðið um það, hvernig þetta verði framvegis, fyrr en reynslan er fengin um það, hvernig þetta gefst.