24.11.1934
Efri deild: 47. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1834 í B-deild Alþingistíðinda. (2630)

83. mál, útvarpsrekstur ríkisins

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Ég hefi enga löngun til þess að fjölyrða um þetta mál nú, mér hvílir heldur ekki nein skylda frsm. að tala um málið, því að n. hefir ekki haldið fund um það frá því að það var til 2. umr., og hefir því ekki tekið afstöðu til brtt. þeirra, sem hér liggja fyrir. Auk þess tók hæstv. atvmrh. áðan fram ýmislegt af því, sem ég myndi annars hafa sagt.

Eftir athugun þessa máls í menntmn. lagði meiri hl. hennar til, að frv. yrði samþ. óbreytt eins og það var lagt fyrir n., og höfðu þau atriði þó komið til umr. og athugunar á fundum hennar, sem hér koma fram í brtt. Ég verð því að líta svo á, að meiri hl. haldi enn við þessa skoðun sína og leggi til, að brtt. verði allar felldar, og frv. samþ. óbreytt.

Hvað snertir 1. brtt. á þskj. 568, frá hv. 1. þm. Reykv., þá virðist mér, að hún hafi ekki beinlínis praktiska þýðingu. Ég skil hana þannig, að laun útvarpsstjórans eigi að vera þau sömu og ákveðin eru í frv., þar til þeim kunni að verða breytt með launalögum. Mér virðist, að breyta megi laununum með launalögum, hvort sem frv. verður samþ. óbreytt eða ekki. Hitt er annað mál, að það sé ekki hægt að breyta þeim meðan núv. útvarpsstjóri gegnir starfinu, en að launabreytingin komi til framkvæmda, þegar mannaskipti verða. Brtt. þessi getur því ekki haft neina praktiska þýðingu. Annars er það rit af fyrir sig rétt, að laun útvarpsstjóra hefðu í fyrstu átt að ákveðast meira en gert hefir verið með hliðsjón af launum annara embættismanna.

Þá er 2. brtt. á þessu þskj. Hæstv. atvmrh. hefir minnzt á hana, og er ég honum sammála í öllum aðalatriðum hvað hana snertir. Hv. flm. sagðist ekki hafa heyrt nema eina ástæðu færða fyrir því, að heppilegt væri, að Alþingi kysi í útvarpsráð, að það væri eðlilegt, að ríkisvaldið hefði þar sinn fulltrúa. Við 2. umr. nefndi ég þó aðra ástæðu, og skal ég gjarnan endurtaka hana. Ég tók það fram, að þar sem ekki væri hægt að búast við því, að í útvarpsráðið veldust pólitískt litlausir menn, hvernig sem að væri farið, og gæti því alltaf komið fram grunur um hlutdrægni, þá væri það beinlínis tryggingarráðstöfun, að þingflokkarnir hefðu þar sína fulltrúa, t. d. minnihlutaflokkur, svo að hans hlutur yrði þar ekki fyrir borð borinn. Eigi aftur að láta einstakar stofnanir skipa útvarpsráð, þá væri eðlilegt, að fleiri stofnanir komi til greina en háskólaráðið, fræðslumálanefndin og kirkjuráðið. Það gæti alveg eins komið til greina að hafa þar fulltrúa fyrir landbúnaðinn og sjávarútveginn. Ég skal ekki segja, hvort það yrði svo óheppilegt að hafa fjölmennara útvarpsráð en hér er gert ráð fyrir, sem komi aðeins sjaldan saman, til þess að ákveða dagskrána í stórum dráttum, og hefði svo fulltrúa til að annast hin daglegu störf. En að taka þessar þrjár stofnanir út úr og láta þær skipa útvarpsráð, hefir við engin rök að styðjast.

Ég sé enga ástæðu til þess að fara að ræða við hv. 1. þm. Reykv. um einkasölu á útvarpstækjum. Það er rétt, sem tekið hefir verið fram, að sú verzlun hefir gefið góðan árangur, a. m. k. enn sem komið er.

Þá er 4. brtt. á þskj. 568, að ákvæðið til bráðabirgða falli niður, sem þýðir það, að þau ákvæði frv., sem snerta kosningu útvarpsráðsins, komi ekki til framkvæmda fyrr en kjörtími núv. útvarpsráðs sé á enda. Hvað þetta atriði snertir, þá finnst mér ekki nema eðlilegt, að þegar ný skipun þessara mála er lögboðin, þá komi hún strax til framkvæmda. Hv. þm. var eitthvað að tala um, að það væri eins og hér lægi einhver ósköp á, og varð það helzt dregið af orðum hans, að það lægi bak við þessa breyt. á kosningu útvarpsráðsins, að koma ætti núv. útvarpsráði frá. En ég fæ ekki séð, að það sé á nokkurn hátt útilokað, að allir þeir sömu menn, sem nú skipa þetta ráð, geti orðið kyrrir, eða að þeir, sem að frv. þessu standa, geti útilokað það.

Um brtt. á þskj. 577, frá hv. þm. Dal., mun ég ekki fjölyrða, því að mér skildist svo, að hann myndi taka hana aftur, ef önnur brtt. yrði samþ., sem búast má við að verði. En mér fannst það óviðkunnanlegt hjá hv. þm., að fara að tala um það hér, þó að kona útvarpsstjórans ynni við útvarpið. Vinni hún verk sitt eins og aðrir, þá virðist mér það ekki koma þessu máli við.

Þá beindi hann þeirri fyrirspurn til mín, hvort menntmn. líti svo á, að útvarpsstjórinn ætti framvegis að fá sérstök laun fyrir að hafa eftirlit með viðtækjaverzluninni. Um þetta þýðir lítið að spyrja mig. Hv. þm. hefði frekar átt að beina þessari fyrirspurn sinni til hæstv. stj. Ég get þó fyrir mitt leyti sagt honum það, að verði frv. þetta að lögum, þá skilst mér, að útvarpsstjórinn eigi ekki að hafa önnur laun en þau, sem honum eru ætluð þar. En vitanlega hefir mitt álit hvað þetta snertir ekki meira gildi en álit hv. þm. Dal. og hvers annars þm. Ætti hv. þm. því að snúa sér til stj. með þetta atriði.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara öllu fleiri orðum um þetta mál nú. Við atkvgr. vil ég halda mig við það, sem ég hefi skrifað undir í nál., og greiða atkv. gegn brtt. Mér finnst þær óheppilegar, og sú þeirra sem helzt gæti komið til mála, finnst mér ekki hafa praktíska þýðingu.