13.12.1934
Efri deild: 60. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1985 í B-deild Alþingistíðinda. (2640)

124. mál, hlutafjárframlag fyrir h/f Skallagrím í Borgarnesi

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ég veit ekki, hvernig hv. 1. þm. Skagf. lítur á hlutverk stj. í þessu efni. Honum er kunnugt um það, að það hefir ekki verið með mínu samþykki, að þessi fríðindi voru veitt Borgarnesbátnum. Hvað það snertir, að það eigi að þvinga Ísfirðinga til þess að nota Hermóð til þess að halda uppi ferðum á Djúpinu, þá vil ég taka það fram, að ég hefi ekkert um það sagt annað en það, að þeim hefir verið gefinn kostur á að fá hann til þess leigulaust. Ef þeir geta fengið annað skip hentugra, sem þeir treysta sér til þess að gera út með þeim styrk, sem veittur er í þessu skyni í fjárl., þá er ekkert á móti því.

Að sjálfsögðu verður ríkisstj. að sjá um, að þarna fari a. m. k. fram póstflutningar, ef hlutaðeigandi sýslun. tekur ekki málið í sínar hendur. En ég sé ekki annað en að hér sé um mjög sæmilegt boð að ræða, þar sem Hermóður verður lánaður leigulaust. En að ég sem atvmrh. gefi bindandi loforð um það, að ríkissjóður greiði rekstrarhalla, sem kynni að verða, ef ferðunum yrði haldið uppi með því að nota Hermóð, fram yfir það, sem þingið samþ. í þessu efni, er vitanlega alveg meiningarlaust. Það væri þá eins gott að hækka bara styrkinn strax.