13.12.1934
Efri deild: 60. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1986 í B-deild Alþingistíðinda. (2647)

124. mál, hlutafjárframlag fyrir h/f Skallagrím í Borgarnesi

Magnús Guðmundsson:

Ég held, að hæstv. ráðh. hafi misskilið mig, ef hann heldur, að ég hafi farið fram á, að hann gæfi loforð um að greiða allan halla, sem af því kynni að leiða að halda þessu skipi úti. Það var aldrei mín meining. En ég vildi benda á, að það er stj. að leysa þetta mál, og hún verður að sjá um, að bátsferðum sé haldið uppi þarna, og mér skilst, að hún geti það vel á þennan hátt, sem hér er farið fram á. Mér skilst, að hún geti það með því að segja aðeins, að hún sé fús til þess að taka málið til athugunar, þegar það sýni sig, hve mikill rekstrarhallinn verður, og sýnt um leið íbúum þessarar sýslu sanngirni. Ef ég hefi skilið hv. þm. N.-Ísf. rétt, þá er það ekki annað en þetta, sem á milli ber, og það er sannarlega ekki til mikils mælzt, þó að þessi beiðni sé borin fram. (Atvmrh.: Ég er búinn að bjóða, að það verði tekið til athugunar). Hæstv. ráðh. vill ekkert ákveðið um þetta segja. M. ö. o., héraðið á að eiga það undir velvilja samgmn. á þinginu 1935, hvort styrkurinn verður hækkaður, ef það skyldi sýna sig, að rekstrarhalli yrði mikill. Þetta get ég ekki séð, að sé nein sanngirni af hæstv. ráðh. Ég sé ekki annað en að hæstv. atvmrh. geti sagt, að hann skuli athuga þetta mál með sanngirni þegar séð verði, hver þessi rekstrarhalli verður.