01.11.1934
Neðri deild: 25. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1988 í B-deild Alþingistíðinda. (2655)

104. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Með frv. þessu er bannað að reisa síldarverksmiðjur hér á landi eða stækka þær, sem fyrir eru, nema leyfi atvmrh. komi til, og í 2. gr. frv. þessa er ríkissjóði áskilinn forkaupsréttur, að öðru jöfnu, að þeim verksmiðjum, sem nú eru fyrir og síðar kunna að verða reistar, ef eigendurnir vilja selja þær. Mér þykir rétt að láta falla nokkrar almennar aths. í sambandi við þetta nú þegar við 1. umr. Ég vil í því sambandi minna á það, að þegar fyrst var borið fram á Alþ. frv. um það, að ríkið legði fram fé til þess að reisa eða starfrækja síldarverksmiðju, þá voru færð fram fyrir því þau rök, að þörf sjómanna í þessu efni kallaði á ráðstafanir frá hendi ríkisvaldsins. Þetta var rétt. Það var viðurkennt af öllum flokkum þingsins, að aflamöguleikar ísl. útvegs á þessu sviði væru meiri en söluskilyrði fyrir síld til bræðslu. En þótt allir væru sammála um þessa þörf, reis þá þegar allmikill ágreiningur um það, á hvern hátt bæri að fullnægja henni. Sjálfstæðismenn töldu, að langeðlilegast væri, að útgerðarmenn gerðu þetta sjálfir, en viðurkenndu þó, að eins og þá væri komið högum útvegsins, væru þeir ekki einfærir um það. Þess vegna lögðu sjálfstæðismenn til, að ríkið hefði afskipti af þessu máli, en þau ein afskipti, að aðstoða útvegsmenn til fjáröflunar til þess að hrinda málinu í framkvæmd. þetta náði ekki fram að ganga, heldur varð hitt ofan á, að ríkið skyldi sjálft reisa slíka verksmiðju og að einhverju leyti reka hana, en hinsvegar var svo fyrir mælt í l., að ef útgerðarmenn óskuðu að kaupa verksmiðjuna, þá gætu þeir það með vissum skilyrðum. þetta ákvæði var þó að engu gert þá þegar, eins og nú er í þessum l. líka, með því að segja, að slíkt mætti ekki ske nema að fengnu samþ. Alþ. Það þýðir, að Alþ. er eftir sem áður heimilt að setja slík l., ef það óskar þess, og sú heimild, sem felst í frumlögunum og tekin er upp í þetta frv., er út af fyrir sig einskis virði. Síðan þetta gerðist hefir viðhorfið breytzt mikið, og er nú komið svo, að horfur eru á, að næsta sumar verði skilyrði fyrir hendi til meiri vinnslu en líkindi eru til, að þörfin krefjist. Ég hygg, að þegar búið er að reisa þær verksmiðjur, sem nú er verið að undirbúa, þá muni hægt að afkasta 1 millj. síldarmála í bræðslu árlega, og jafnvel 1 millj. og 100 þús. málum. En á síðastl. sumri, eða ef miðað er við meðalveiði þeirra skipa, sem stunduðu veiði síðastl. sumar, og þar við bætt þeirri eðlilegu fjölgun veiðiskipa, sem leiðir af nýstofnun þeirra verksmiðja, sem nú er verið að reisa, þá eru af kunnugum mönnum taldar líkur til þess, að aflinn nemi 60—70% af vinnslumöguleikunum. Þetta viðhorf, sem er nú bundið við næsta ár, hefir orðið til þess að gefa flm. þessa frv. hvatningu til þess að binda þennan atvinnurekstur alveg viðjum einokunarinnar, svo að mönnum sé nú ekki lengur heimilt að reka þessa atvinnu nema með alveg sérstöku leyfi atvmrh. á hverjum tíma. Mér finnst ástæða til að mótmæla þessu, og mér finnst ástæða til, þegar því er mótmælt, að rakin sé saga málsins, sem ég nú hér hefi gert, og á það minnzt, af hvaða orsökum lagt var út á þessa braut í upphafi. Ég sé enga nauðsyn fyrir slíka lagasetningu og tel hana óviðeigandi. Það er allt að því hlægilegt, að ríkissjóður, eða umboðsmenn hans, sem í öndverðu hangandi hendi lögðu út á þessa braut vegna þarfa útgerðarmannanna, skuli nú vilja hefta einstaklingsframtakið og þar með taka skyldur framtíðarinnar um viðhald þessa atvinnurekstrar yfir á ríkissjóðinn, af því að horfur eru á því, að á einu einasta ári berist að verksmiðjunum minni afli en þær hafa skilyrði til þess að vinna úr. Það er mikill munur á þessu annarsvegar, að ríkissjóður í öndverðu leysti þessa þörf með viðurkenningu þess, að hún ekki yrði leyst að öðrum kosti, og svo hinu, að leggja stein í götu þeirra manna, sem sjálfir kynnu að vilja létta þessum bagga af ríkissjóði. Grundvallarhugsunin í löggjöfinni frá Alþ. 1928 er ekki sú, að ríkið hafi þennan rekstur yfirleitt með höndum, heldur aðeins þangað til útgerðarmenn geti yfirtekið hann. — Þessar almennu aths. vildi ég láta fylgja frv. til n. En ég vil ekki á þessu stigi málsins tefja framgang þess með því að ræða einstök fyrirkomulagsatriði, sem ég tel þó ábótavant í frv. eins og það nú er, en finnst eðlilegt, að það verði rætt og athugað í sjútvn., en þangað mun því verða vísað.