01.11.1934
Neðri deild: 25. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1992 í B-deild Alþingistíðinda. (2658)

104. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Pétur Halldórsson [óyfirl.]:

Ég verð að segja það, að ég undraðist stórlega að sjá þetta frv., sem hér liggur fyrir, en með því sýnist vera sá tilgangur, að banna það, að reistar séu nýjar síldarbræðslustöðvar, eða að stækka þær, sem fyrir eru. Síldveiði, og síldarbræðsla sérstaklega, virðast vera einn af þeim atvinnuvegum í okkar landi, sem hefir verið sæmileg afkoma á, af því að fyrir þessa vöru hefir verið sæmilegur markaður. Það vita líka allir, að þörfin er nóg, bæði hjá verkafólki fyrir vinnu við þennan atvinnuveg, og hjá landsmönnum yfirleitt, til þess að hagnýta sér til hins ýtrasta þá möguleika, sem þessi atvinnuvegur gefur.

Það virðist vera svo ástatt í augnablikinu, eftir því sem talið er, að hægt sé að taka meiri síld til bræðslu en boðin er fram. En mér virðist það ákaflega undarlegt, að formaður sjútvn. þessarar hv. d. skuli láta sér detta í hug þá lausn á þessu máli, að ætla að takmarka sem mest, að þeir möguleikar verði notaðir, sem hér eru fyrir hendi, bæði hvað vinnu snertir og eins markað fyrir síldina. Það ætti að vera öllum augljóst, ef svo stendur á, að líkur eru til, að bræðslustöðvarnar geti afkastað meiru en líkindi eru til, að til þeirra muni berast, a. m. k. ef ekki verða fleiri ísl. skip, sem stunda síldveiðar, en verið hefir undanfarið, þá er lausnin á því máli vitanlega sú, að finna einhverja leið til þess að auka veiðina, en ekki sú, að takmarka framleiðslumöguleikana. Ég hefði getað trúað því, að þessi formaður sjútvn., sem um leið er, að hann telur og hans flokksbræður, forsvari verkafólksins í landinu, hefði látið sér detta eitthvað annað í hug en að takmarka veiðina, úr því að til eru skilyrði til síldarbræðslu og markaður fyrir þessar afurðir. Mér finnst það frekar vera verkefni hv. sjútvn. og þá vitanlega formanns hennar líka, að finna út, með hverjum hætti er hægt að auka framleiðsluna, svo að verksmiðjurnar fái svo mikla síld, sem þær geta tekið að sér að bræða, og fólkið fái meiri vinnu næsta sumar en verið hefir, heldur en að takmarka annaðhvort síldarframboð eða verksmiðjubyggingar. Meðan við höfum svo góðan markað fyrir þessa vöru, að vert er að stunda þessa atvinnugrein, þá virðist augljóst, að stefna ber að því að auka framleiðsluna, og ef ekki er til nægur ísl. skipastóll til að stunda síldveiðar, þá á að rannsaka, hvort ekki er hægt að skapa ísl. mönnum atvinnu á þann hátt, að fleiri skipum en ísl. sé gert mögulegt að taka þátt í þessum veiðum og selja síld til verksmiðjanna.

Ég vildi biðja hv. sjútvn. að athuga það sérstaklega, hvort ekki er mögulegt, að við getum hagað okkar löggjöf á þann veg, ef hún er því til fyrirstöðu, að hægt sé að nota erlend skip í þessu skyni þessa 2 mánuði ársins, sem síldveiðar eru stundaðar, að opnuð verði leið í þessum efnum. Hitt er alveg ófært, að ætla að draga úr þeim atvinnumöguleikum, sem fyrir hendi eru, með því að takmarka framleiðsluna, þegar nóg er af síldinni í sjónum og nóg verkafólk til þess að vinna að útgerðinni, og ennfremur er til góður markaður fyrir þessar afurðir.