29.11.1934
Sameinað þing: 16. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 199 í B-deild Alþingistíðinda. (266)

1. mál, fjárlög 1935

Frsm. meiri hl. (Jónas Guðmundsson):

Ég þarf ekki að hafa langan formála fyrir framsögu minni. Ég tel víst, að hv. þm. hafi kynnt sér brtt. þær, sem fram hafa komið, bæði frá fjvn. og einstökum þm., svo að ekki þurfi að skýra hvern lið.

Ég vil þó þegar taka það fram, að sú stefna virtist ríkjandi meðal allrar n. áður en nefndin klofnaði, að sjálfsagt væri að taka í fjárlög öll gjöld og tekjur ríkissjóðs með slíkri nákvæmni, sem frekast væri unnt. Þessi stefna hefir leitt til hækkunar á ýmsum liðum, og þá einkum gjaldaliðum, sem áður hafa farið fram úr áætlun. Ég vil vænta þess, að þingið geti þó fallizt á þessa stefnu, því að hitt er auðvitað ekkert nema sjálfsblekking, að fela þannig útgjöld ríkissjóðs.

Um vinnubrögð n. get ég sagt það í fáum orðum, að henni hefir borizt mikil mergð erinda, alls á 6. hundrað, og er sumt af því stórar bækur. Alls hefir n. haldið milli 40—50 fundi.

Ýmsir póstar hafa verið látnir bíða til 3. umr., svo sem skipting á símafé, vitafé og strandferðastyrkjum. Er það gert til þess að sjá, hvað nýtt kemur fram í þessum efnum til þess tíma.

N. hefir í till. sínum ekki tekið tillit til nýrra tekjuauka, með því að enn er ekki séð, hvernig tekjuaukafrv. þeim, sem fyrir þinginu liggja, kann að reiða af, né hvaða áhrif þær breytingar kunna að hafa.

Sama er að segja um auknar tekjur af áfengisverzluninni, sem vænta má, að breytt áfengislöggjöf hafi í för með sér. N. hefir að þessu sinni ekki gert neina áætlun um þann tekjuauka, en mun athuga þann lið fyrir 3. umr.

Vil ég þá víkja að einstökum brtt. fjvn. og gefa skýringar á nokkrum þeirra. Er þá fyrst að geta um hækkanir á tekjuhliðinni, sem gerðar eru til samræmis við tekjurnar eins og þær hafa reynzt undanfarið. Vitagjaldið var í fyrra 485 þús. og útlit fyrir, að það verði svipað nú. Það var áætlað í fjárlfrv. 440 þús. N. hefir hækkað þennan lið upp í 470 þús.

Áfengistollurinn var 588 þús. 1933, en er áætlaður í fjárlfrv. 500 þús. N. hefir hækkað þann lið upp í 570 þús.

Hagnaður á rekstri póstsjóðs var 132 þús. árið 1933, en er í fjárlfrv. áætlaður rúmlega 36 þús. kr. Að vísu er það rétt, að gróði póstsjóðs það ár stafaði að töluverðu leyti af gengisbreytingu dönsku krónunnar. En tekjur póstsjóðs aukast jafnt og þétt með ári hverju, og þótti því rétt að hækka þennan lið upp í 50 þús. kr.

Sama er að segja um rekstrarhagnað áfengisverzlunarinnar. Það virðist ekki ástæða til að ætla hann minni en verið hefir. Og um útvarpið gilda sömu ástæður.

Þessar hækkanir tekjumegin nema samtals um 244 þús. kr.

Um brtt. við 5.—8. gr. er það að segja, að þær fela aðeins í sér breytingar á niðurstöðutölum. En ég vil geta þess í þessu sambandi, að tilmæli hafa komið um það frá póstmálastjórninni og atvmrh., að veittar verði 2000 kr. af tekjum póstsjóðs til þess að útvega póstþjónum einkennisbúninga. Þetta tíðkast hvarvetna annarsstaðar og má heita orðið nauðsynlegt hér í Rvík. Mætti líka skoða þetta sem nokkra uppbót á hin lágu laun póstmanna. Enginn ágreiningur var í n. um að verða við þessum tilmælum, og væntir n. þess, að þingið fallizt á þetta.

Þá hefir n. lækkað dagskrárkostnað útvarpsins um 20 þús. kr. Þetta var gert eftir orðsendingu frá Ríkisútvarpinu, sem enginn vildi reyndar kannast við síðar. N. telur þó, að hægt ætti að vera að afla útvarpinu sæmilegs útvarpsefnis fyrir 80 þús. kr.

Þá er sú brtt., að draga prentunarkostnað landsreikninganna frá alþingiskostnaðinum og telja hann með kostnaði við fjármálaráðuneytið. Þetta er aðeins tilfærsla, sem virðist sjálfsögð.

Þá er lagt til að lækka kostnaðinn við ríkisféhirðisembættið um 5000 kr. Þarna eru margir starfsmenn, og virðist ástæða til að ætla, að eitthvað mætti spara þar. Árið 1933 var kostnaðurinn við embættið 33 þús., en er nú áætlaður í fjárlfrv. 35 þús. kr. Þess má geta, að nú eru hjá ríkisféhirði tveir fulltrúar, sem báðir hafa hærri laun en hann sjálfur.

10. brtt. er um hækkun á kostnaði við fjármálaráðuneytið vegna prentunar landsreikninganna.

11. brtt. er um hækkun vegna sambandslaganefndar. N. heldur fund sinn í Kaupmannahöfn í sumar, og er því auðsætt, að allt of lítið er veitt í þessu skyni í fjárlfrv.

12. brtt. snertir hæstarétt. Er „annar kostnaður“ áætlaður 10 þús. kr., þar af 3 þús. kr. til ritara. Þetta fé fer mest til prentunar á hæstaréttardómum. Við höfum áætlað, að 5 þús. kr. myndu duga til útgáfu á dómunum, þótt útgáfukostnaður sé vitanlega nokkuð misjafn frá ári til árs. N. vill ennfremur sleppa „klásúlunni“ um 3000 kr. til ritara, þar sem núv. ritari hefir nú full laun í stjórnarráðinu, en gegnir þar ekki störfum.

Þá kemur stærsta sparnaðartill. meiri hl., en hún er sú, að lækka kostnaðinn við landhelgisgæzluna úr 500 þús. kr. í 350 þús. Eftir núgildandi fjárl. leggur ríkið fram 500 þús. kr. og landhelgissjóður 150 þús. En í fjvn. var rætt um að gera breytingar á landhelgisgæzlunni til sparnaðar, og var það gert í samráði við forstjóra Skipaútgerðar ríkisins. Var komizt að þeirri niðurstöðu, að hægt myndi og heppilegt að haga landhelgisgæzlunni þannig framvegis, að eitt skipið, Ægir, annaðist landhelgisgæzluna að mestu, og væri jafnan að gæzlu. Þór væri hafður til gæzlu við Vestmannaeyjar, en annaðist jafnframt flutninga til vitanna. Auk þess væru varðbátar hafðir á vissum stöðum. Einu varðskipinu, Óðni, yrði hinsvegar lagt upp og selt, ef hægt væri. Með þessari tilhögun reiknaðist n. til, að spara mætti ríkissjóði 150 þús. kr. á kostnaði við landhelgisgæzluna.

Þá er í 14. brtt. aths. eða fyrirmæli viðvíkjandi því, að heimilt sé að láta fangana á Litla-Hrauni vinna á Reykjatorfunni, þegar ekki er vinna heima fyrir. Hér er ekki um útgjöld að ræða á neinn hátt. Einnig skal ég láta þess getið, að þessi heimild er bundin því skilyrði, að sú vinna, sem þarna yrði framkvæmd, væri ekki tekin frá öðrum, þannig að hún skerði á nokkurn hátt almenna atvinnu.

15. brtt. er um smávægilega hækkun, 300 kr., á læknisvitjanastyrk.

Með 16. brtt. leggur n. til, að niður verði fellt framlag til fjörefnarannsókna, 3000 kr. Þessi styrkur var upphaflega veittur í þeim tilgangi, að rannsóknarstofa háskólans eignaðist tæki til þessara rannsókna. Nú hefir háskólinn eða rannsóknarstofan eignazt þessi tæki, og virðist því, að þessar rannsóknir geti farið fram án þess að til þeirra sé lögð sérstök fjárhæð.

Þá er í þessum lið tekin upp jafnhá upphæð, 3000 kr., til þess að styrkja utanfarir lækna. Því verður ekki mótmælt, að fáum stéttum mun meiri þörf á slíkum styrk, og hefir n. fallizt á að taka þessa upphæð inn í sínar till., eftir beiðni frá landlækni.

Í 17. brtt. er lagt til, að veitt verði nokkur upphæð til þess að styrkja geðveikralæknaefni til náms erlendis. Við höfum fáa geðveikralækna, og full þörf virðist á fleirum. (ÓTh: Við höfum nóg af vitlausum mönnum). Já, það virðist a. m. k. stundum vera svo.

18., 19. og 20. brtt. snerta allar Nýja-Klepp, og er með þeim gert ráð fyrir nokkrum sparnaði á þessu hæli, á starfslaunum 5000 kr., á lyfjum og sáraumbúðum 3000 kr., og á áhöldum og viðhaldi 5000 kr. Þessi sparnaður nemur til samans 13000 kr. Ef þessi kostnaður á Nýja-Kleppi síðastl. ár er borinn saman við það, sem gerist á öðrum spítölum, þá er hann miklu meiri en á sambærilegum stöðum öðrum, og meiri en á öllum öðrum sjúkrahúsum nema landsspítalanum. N. vill benda á, að sérstök þörf sé á að athuga þetta. Hún hefir spurt landlækni um málið, en hann hefir leitt hjá sér að svara ákveðið og segir, að þetta mál hafi ekki fyrr verið undir sig borið, og geti hann því ekki gefið neinar upplýsingar. Slíkt sem þetta ætti náttúrlega ekki að koma fyrir, að landlæknir sé ekki hafður með í ráðum, þegar samin er áætlun fyrir jafnstórt sjúkrahús og Nýja-Klepp, og væntir n. þess, að framvegis verði landlæknir hafður með í ráðum um þessi útgjöld, eins á þessu sjúkrahúsi sem öðrum. Ég skal geta þess, að n. hefir gert till. um sparnað á nokkrum öðrum stöðum en Nýja-Kleppi, en það er á útvarpinu, hæstarétti og hjá ríkisféhirði. Þess er tæplega að vænta, að till. þessar beri fullan árangur, en n. vildi krefjast þess, að ríkisstofnanir þessar gættu fullkomins sparnaðar á ríkisfé. En það er nú svo, ef einhverstaðar á að hreyfa sparnaði við ríkisstofnanirnar, þá rísa viðkomandi forstjórar gegn því og segja, að óframkvæmanlegt sé að spara meira en gert er. En n. vill sjá, hvernig Alþingi lítur á þetta mál, og hefir því flutt þessar till.

Með 21. till. hefir n. aukið um helming styrk til læknabústaða, með því skilyrði, að af því verði greidd lokafjárveiting til læknisbústaðar í Búðardal. Þetta er gamalt ágreiningsmál, sem beðið hefir ójafnað, en n. telur réttmætt, að gert verði á þennan hátt, að öðru leyti á að ráðstafa þessum styrk eftir reglum frá landlækni.

22. till. er um greiðslu vaxta af læknabústöðum. Það er nú komið svo, að þrír hreppar, sem byggt hafa læknisbústaði, geta ekki staðið straum af þeim lánum, sem á húsunum hvíla, og er hér lagt til, að veittar verði á næsta ári 1200 kr. til hvers hrepps. Það hefir víða farið svo, að fátæk sveitarfélög, sem ráðizt hafa í slíkar byggingar, eiga erfitt með þær, og er alveg spursmál, hvort ekki væri réttara, að ríkið legði meira til læknisbústaðanna í fyrstu, heldur en þurfa að taka við húsunum eftir að búið er að byggja þau.

23. brtt. er nýr liður, 3500 kr. styrkur til Rauðakross Íslands, til að byggja sjúkraskýli fyrir sjómenn í Sandgerði. N. var öll á einu máli um það, að hér væri svo mikil styrksþörf, að ekki væri hægt að neita. Í Sandgerði safnast saman á vertíðinni fleiri hundruð sjómanna, og húsakynni, sem þeir hafa þar, eru ekki nema lélegar verbúðir, þar sem sjúklingum getur verið bráður bani búinn, fáist ekki viðundandi aðhlynning.

24. till. er einnig nýr liður, þar sem lagt er til, að Páli Sigurðssyni fyrrv. héraðslækni séu veitt lág biðlaun. Þessi maður veiktist af mjög slæmum sjúkdómi þegar hann var í embættiserindum, og vildi n. leggja til, að hann fengi þessi lágu laun a. m. k. eitt ár, meðan verið væri að sjá, hvort hann fengi heilsuna aftur og gæti tekið við sínu starfi.

Þá kem ég nú loks að 13. gr. í fjárlfrv., og er meiri hl. dálítið skiptur um þennan útgjaldakafla fjárl., sem er um framlög til einstakra vega og bryggjugerða. Ég þarf ekki að minnast á einstaka liði í þessum brtt. n., ég geri ráð fyrir, að hv. þm. tali um þær. En ég vildi bara segja það, að n. hefir viljað haga styrkveitingunum þannig, að sem mest kæmi á þá staði, þar sem flestir hefðu not af vinnunni og umbótunum, og síðan skipta afganginum sem jafnast milli sýslufélaganna til einskonar atvinnubóta. Þessi tvö aðalsjónarmið hafa vakað fyrir n. um ákvörðun vegafjárins. Með því að benda á nokkrar tölur vona ég að geta sannfært hv. þm. um þennan tilgang n.

Til Sogsvegarins eru ætlaðar 50 þús. kr. Fjöldi manna nýtur hagsmuna af því, að vel greiðist úr um það mál. Þá eru 15000 og 20000 kr. hækkanir til vegar yfir Siglufjarðarskarð og Norðfjarðarvegar. Þessir vegir eiga að koma tveimur stórum kaupstöðum í akvegasamband, sem ekki hafa verið í því áður, og hafa þá allir kaupstaðir á landinu, að undanteknum Vestmannaeyjakaupstað, fengið akvegasamband við aðra landshluta. Þá er lagt til, að aukið verði framlag til Holtavörðuheiðarvegar með því að flytja þangað það, sem ætlað var til vegarins yfir Vatnsskarð. Þykir meiri nauðsyn á því, að flýta fyrir Holtavörðuheiðarveginum, en aftur á móti hafi svo lítið framlag til Vatnsskarðsvegar, sem í frv. er ákveðið, ekki mikla þýðingu.

Þá er lagt til, að veitt verði til Hrunamannahreppsvegar 10000 kr. Er það gert til þess, að íbúar þessa hrepps komist í akfært vegasamband við það mjólkurbú, er þeir skipta við.

Þær 9 fjárveitingaupphæðir, sem ég hefi þá ekki enn sérstaklega minnzt á, skiptast milli 8 sýslufélaga, og er svipuð upphæð í hvert þeirra. N. hefir lagt til, að hækkað verði tillag til fjallvega úr 25000 kr. í 30000 kr., og er ætlazt til, að hækkunin komi til vega í Barðastrandarsýslu, en þangað er ekkert annað vegafé veitt eftir till. n.

Þá vil ég minnast á eitt atriði, en það er, að í 38. brtt. n. er lagt til, að niður falli fjárveiting til malbikunar þjóðvega utan kaupstaða. Í nál. er í þessu sambandi ekki vísað í rétt lög, en það er leiðrétt með brtt. frá þm. í Ed. Hér er um það að ræða, hvort taka eigi það fé, sem ætlað er til malbikunar á þjóðvegum, og verja því í nýja vegi. Auðvitað má um það deila, hvort þetta sé rétt, en þegar verið er að tala um vegaféð sem atvinnubót, þá er þetta vafalaust rétt. Það hefir verið á það bent, að ef Sogið verður virkjað á næsta sumri, þá verði mikil vinna hér í grennd við Rvík, og það með mesta móti. Hinsvegar mundi malbikunin fara fram á þjóðvegunum hér við Rvík, annaðhvort á veginum inn að Elliðaám eða veginum milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. Ég býst við, að þeir, sem hér eiga hlut að máli, kunni að líta svo á, að þetta hefði ekki átt niður að falla, en þetta var nú sjónarmið n.

Þá er það styrkurinn til Eimskipafélags Íslands. Hann var í frv. lækkaður um 100000 kr., en n. hefir lagt til, að hann hækki um 50000 kr. frá því og verði 200000 kr., í stað 250000 kr.

Við 9. gr.

— 10. —

ráðuneytið .......

— — 5000

hækkun kr. 6000

— 11. —

dómgæzla o. fl.

— — 155000

— 12. —

heilbrigðismál ....

— — 16000

— — 25200

— 13. —

A. Vegamál ......

— — 90000

— — 143500

— 13. —

B. Eimskip .......

..........

— — 50000

— 13. —

C. Hafnargerðir ..

........

— — 50000

Samtals lækkanir kr. 271000.

hækkanir kr. 274700

Hækkanir umfram lækkanir eru samtals kr. 3700. Eru þá rúmlega 240000 kr. af tekjuhækkunartill. til að mæta útgjaldatill. í þeim greinum, sem eftir eru.

Viðvíkjandi brtt. hv. minni hl. fjvn. skal ég taka fram, að ég mun ekki tala um þær, fyrr en mælt hefir verið fyrir þeim. Sama hefi ég að segja um brtt. einstakra hv. þm. Ég mun ekki heldur gera þær að umræðuefni fyrr en flm. þeirra hafa átt kost á því að tala fyrir þeim.