01.11.1934
Neðri deild: 25. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1995 í B-deild Alþingistíðinda. (2660)

104. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Bergur Jónsson [óyfirl.]:

Vegna þess, að ég er meðflutningsmaður að þessu frv., þá vil ég í tilefni af þeim andmælum, sem frv. hefir fengið, segja nokkur orð.

Eftir ræðum þessara hv. þm. að dæma, þá virðist það aðallega vera ákvæði 1. gr. frv., sem þeir hafa ástæðu til þess að gera aths. við. Og ég hefi aðallega fundið ástæðu til þess að taka þessar ræður til athugunar, af því að mér virðast báðir þessir hv. þm. leggja allt annan skilning í 1. gr. frv. heldur en heimilt er. Það kemur fram í ræðum þeirra hvað eftir annað, en þó einkanlega í ræðum hv. þm. G.-K., að hér sé um að ræða eitthvert bann gegn því, að reisa síldarverksmiðjur eða stækka. En það nær vitanlega ekki nokkurri átt, að svo sé, eða að sá sé tilgangurinn með frv.

Eins og kunnugt er, á ríkið nú stórar síldarbræðsluverksmiðjur, sem geta unnið úr mikilli síld og það er vel hugsanlegt, að til þess komi einhverntíma, að ekki fáist nóg síld til vinnslu í þessar verksmiðjur. En ef svo yrði, þá er ósköp eðlilegt, að ríkisstj. vilji hafa heimild til þess að hindra það, að verksmiðjur hennar séu gerðar óstarfhæfar, eða að á þeim verði greiðsluhalli, vegna þess, að annarsstaðar á landinu eru ónauðsynlegar verksmiðjur. Þetta er sú hugsun, sem liggur til grundvallar fyrir 1. gr. frv., en hún er alls ekki sú, að bannað verði yfirleitt að reisa eða stækka síldarverksmiðjur. Hv. þm. G.-K. sagðist vera hræddur um, að e. t. v. mundi einhverntíma verða hér svo óvíðsýnn atvmrh., að hann sæi ekki nauðsynina til þess að leyfa það, að reistar yrðu nýjar verksmiðjur eða þær stækkaðar, sem fyrir væru, þó að hún væri fyrir hendi, og hann mundi því banna þetta. Það er mín trú, að hér mundi aldrei sitja að völdum sá atvmrh., sem neitaði slíkri aukningu, ef nauðsyn væri á henni, og jafnvel þó að ekki væri um nema nokkra nauðsyn að ræða.

Hv. þm. G.-K. segir ennfremur, að með þessu sé verið að hefta eðlilega þróun síldarútgerðarinnar, en í sömu ræðu segir hann svo, að það muni vera fullkomlega nóg af verksmiðjum til, til þess að vinna úr síld á næstunni, en eftir því virðist ekki ástæða til þess að óttast þetta ákvæði frv., a. m. k. ekki fyrst um sinn. Það getur verið, að það sé rétt, að fella megi burt úr 1. gr. frv. ákvæðið um, að leyfi þurfi til þess að stækka síldarverksmiðjur, en ég mun þó ekki ganga inn á það vegna þess, að ef það verður gert, þá verður hægt að fara í kringum þessi l. og kalla það aðeins stækkun síldarverksmiðju, sem í raun og veru væri stofnun nýrrar verksmiðju. Ég álít þess vegna, að þó að þetta ákvæði sé í l. gr. frv., sem mér finnst alveg sjálfsagt, að sé þar, til þess að koma í veg fyrir ónauðsynlega aukningu síldarverksmiðja, þá geti ekki komið til mála, að það geti orðið til hindrunar sjávarútveginum á nokkurn hátt.

Hv. 5. þm. Reykv. var að tala um, að ekki væri ástæða til að takmarka eða draga úr þeim möguleikum sem væru fyrir hendi til þess að vinna síld. Þetta er vitaskuld alveg rétt, enda er það alls ekki tilgangurinn með þessu frv. Mér þykir það leiðinlegt, að þessir hv. þm. skuli, annaðhvort vísvitandi eða óafvitandi, vera að leggja allt aðra meiningu í ákvæði frv. en réttlátt er og frv. gefur tilefni til.