29.11.1934
Sameinað þing: 16. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í B-deild Alþingistíðinda. (268)

1. mál, fjárlög 1935

Jón Auðunn Jónsson:

Ég á hér nokkrar brtt. á þskj. 602. Fyrst eru tvær till. um að áætla hærra en gert hefir verið tekjur af áfengistolli og víneinkasölu. Ég er ekki í vafa um, að þessar tekjur verða mun meiri jafnvel heldur en ég legg til, að þær séu áætlaðar, ef skynsamlega er hagað álagningu á vínin. Því með skynsamlegri álagningu á hið löglega áfengi er víst, að smyglun hverfur og bruggun innanlands minnkar stórkostlega. En ef aftur verður lagt óhæfilega mikið á vínin, svo smyglið og bruggið haldi áfram, þá má svo fara, að tekjurnar í ríkissjóð verði minni heldur en menn annars búast við. En ég vil vona í lengstu lög, að þeir, sem ráða í þessu efni, verði svo skynsamir að beita þessu bezta ráði, sem til er gegn smygli og bruggun, hæfilegri álagningu á vínin, og þá mun vel fara. Ég heyrði af ræðu hv. frsm. meiri hl., að n. ætlar að taka þessa liði til athugunar fyrir 3. umr., og úr því svo er, að n. hefir ekki endanlega gengið frá sínum till. um þessa tvo liði, þá get ég tekið mínar till. til hækkunar á þeim aftur til 3. umr., og geri það hér með.

Þá er 3. till., um hækkun styrksins til læknisbústaða og sjúkraskýla. Ég sé, að n. hefir ekki tekið til greina erindi hreppsnefndar Ögurhrepps um hækkun styrksins til læknisbústaðarins í Ögurlæknishéraði. Nú er það svo, eins og lýst er í þessu erindi, að gert var ráð fyrir, að þessi læknisbústaður mundi kosta 24. þús. kr. En á teikningum þeim og áætlunum, sem lagðar voru til grundvallar, voru gerðar, samkv. ráði viðkomandi læknis og landlæknis, allverulegar breytingar, m. a. var fjölgað sjúkraherbergjum sjúkraskýlisins, svo allur kostnaðurinn nam 28961,57 kr. Nú hefir læknishéraðið fengið einn þriðja af áætlunarupphæðinni sem styrk frá ríkinu, en vantar rétt að segja 3000 kr. til þess að greiddur verði sá einn þriðji kostnaðar, sem lög heimila, að ríkissjóður leggi til byggingar læknisbústaða og sjúkraskýla, eða kr. 2960,20. Um þennan læknisbústað er þess að geta, að í héraðinu voru miklar deilur um, hvar hann skyldi vera. Tókst eigi að leysa þá deilu innan héraðsins, en núv. landlæknir bar fram á þingi 1932 frv. um skipun læknishéraða, og þar var ákveðið, að þessi læknisbústaður skyldi vera að Ögri. Þegar nú þetta var fyrirskipað með lögum, risu hinir hreppirnir fjórir upp og neituðu að taka nokkurn þátt í byggingu læknisbústaðarins, og varð ekki við það ráðið. Tveir af þeim vildu hafa hann annarsstaðar, einn vildi losna úr læknishéraðinu, og sá fjórði, sem að vísu hafði fallizt á að hafa læknisbústaðinn að Ögri, neitaði einnig að borga þegar hinir skoruðust undan að taka þátt í kostnaðinum. Svo það er aðeins einn hreppur, sem stendur undir þessari byggingu og hefir komið henni upp. Nú munu vera fordæmi fyrir því, að þegar svona hefir staðið á, að ekki hefir náðst samkomulag innan læknishéraðs um byggingu læknisbústaðar, þá hafi ríkissjóður greitt meira en einn þriðja kostnaðar, og hreppsnefnd Ögurhrepps hefir farið fram á miklu meira, en til vara, að ríkissjóður greiði nú það, sem vantar til þess að hann leggi fram einn þriðja kostnaðar, og það er satt að segja það minnsta, sem hægt er að fara fram á, eins og á stendur í þessu tilfelli.

Þá er V. brtt. á sama þskj. Hún er um, að lagt verði til Langadalsvegar og Bolungavíkurvegar sínar 6000 kr. til hvors þeirra, og til vara 3000 til hvors. Um fyrri liðinn er það að segja, að vegamálastjóri hafði lagt til, að til Langadalsvegar yrðu veittar, ég man ekki hvort heldur 3 eða 4 þús. kr. Svo stendur á, að unnið hefir verið dálítið við þennan veg, en það, sem komið er, kemur ekki að notum fyrir þá Langdælinga, nema framlenging fáist. Fyrir 3000 kr. mætti koma veginum það áleiðis, að flestir bæir í dalnum kæmust í akvegarsamband við Arngerðareyri, og þó menn komist þangað, eiga menn samt eftir dýrar ferðir með póstbátnum til Ísafjarðar, þangað sem menn verða að sækja nauðsynjar sínar.

Annars er það svo, að eini þjóðvegurinn, sem liggur í Ísafjarðarsýslu, liggur um Strandasýslu yfir til Arngerðareyrar. Nú er bílvegarsamband komið alla leið til Hólmavíkur, svo Strandamenn fara að verða sæmilega settir hvað snertir akvegasamband, en það vantar veg frá Hólmavík yfir til Arngerðareyrar. Meiri hl. af þeirri leið er Steingrímsfjarðarheiðin, sem er svo greið yfirferðar, að fara mætti hana á bílum yfir sumarið án nokkurs tilkostnaðar. Það er Langadalur og Staðardalur, sem þarf að leggja veg um. Staðardalsvegurinn verður sennilega nokkuð dýr, í Langadalnum eru aftur ágæt vegarstæði, viðast melar, og aðeins ein á, sem þarf að brúa. Álítur vegamálastjóri, að 3000 kr. mundu duga til þess að koma veginum fram yfir þessa á.

Um veginn milli Bolungavíkur og Ísafjarðar er það að segja, að ég býst ekki við, að mikið fé verði lagt til hans fyrst um sinn, nema það, sem hér er farið fram á. En til þessa framlags ber brýna nauðsyn af tveimur ástæðum. Fyrst og fremst vegna þess, að þessi vegur liggur í gegnum sandgræðslusvæði Bolungavíkur, en það er stórt uppblásið foksandssvæði, sem verið er að rækta upp, og hefir það sýnt sig, að auðvelt er að koma því í góða rækt, ef nægilegur áburður er þangað fluttur. Árin 1928—1930 var talsvert af fiskúrgangi ekið á þetta svæði, og þar sem hann var settur, er nú sæmilegur gróður vaxinn upp. Hefir því landi verið úthlutað til Verkalýðsfélags Bolungavíkur og einstakra manna til ræktunar, og gefur það góðan arð eftir atvikum. En það, sem þarna vantar til þess að hægt sé að halda áfram að rækta og binda foksandinn, er meiri áburður, og honum er því aðeins hægt að koma þangað, að vegur verði lagður gegnum sandgræðslusvæðið. Hin ástæðan er sú, að þarna stendur til, vonandi bráðlega, að virkja fallvötn fyrir Ísafjörð og Bolungavík, sem ég hygg, að verði í samvinnu um virkjunina, því það verður áreiðanlega bezt og ódýrast. Nú eru enn skiptar skoðanir um, hvort byrja eigi að virkja í Bolungavík eða í landi Ísafjarðarkaupstaðar, en sjálfsagt er að byrja þar, sem ódýrast er og nægileg vatnsorka til fyrstu virkjunarinnar. Nú hafa Bolvíkingar lagt fram 20 þús. kr. af sinni hálfu, og verði horfið að því að byrja virkjunina hjá þeim, er nauðsynlegt, að vegurinn komist upp að virkjunarstaðnum áður en verkið er hafið. Til þess mun þurfa 8 þús. kr., en þó þetta sé talinn þjóðvegur, þá þykir mér líklegt, að Bolvíkingar myndu leggja fram ókeypis vinnu að einhverju leyti til þessarar vegagerðar.

Þá flyt ég XIII. brtt. á sama þskj., um að veita 20 þús. kr. sem lokastyrk til bryggjugerðar í Hnífsdal. Til þessarar bryggjugerðar er búið að verja 80 þús. kr. Bryggjan hefir þegar komið að góðu gagni, en verður þó ekki nema að hálfum notum fyrr en hún hefir verið lengd fram eins og upphaflega var ætlazt til. Áætlað var, að bryggjugerðin öll kostaði 145 þús. kr., en til þess, sem nú liggur fyrir, níundi þurfa 60 þús. kr. Það, sem þegar hefir verið unnið, hefir ekki farið fram úr áætlun, og eftir því, sem kunnugir menn segja, er óhætt að treysta því, að 60 þús. kr. alls til viðbótar yrðu nægilegar til að fullgera verkið algerlega.

Þá hefir hreppsnefnd Súðavíkurhrepps farið fram á að fá styrk til bryggjugerðar þar. Það er svipað um þennan stað að ræða, þar hafa verið mestu vandræði að lenda fiskinum og koma öðrum vörum á land og af landi, vegna bryggjuleysis. Áætlað er, að bryggjugerðin kosti 19 þús. kr., svo það er einn þriðji kostnaðar, sem hér er farið fram á. Ég heyrði á ræðu hv. frsm. meiri hl. fjvn., að ekki er ennþá ákveðið, hvernig styrknum til bryggjugerða og lendingarbóta verður skipt niður eftir till. n., en þar sem sú fjárhæð, sem n. hefir þó hækkað allverulega, er ekki á nokkurn hátt nægileg til þess að fullnægja þeim óskum, sem fram hafa komið — þær nema um 300 þús. kr., en lagt er til, að veittar séu 35 þús. kr. —, þá finnst mér ástæða til að láta ganga atkv. nú við þessa umr. um þessar till.

Í sambandi við þetta vil ég minna hv. Alþ. á það, að ennþá hafa ekki komið fram neinar till. um greiðslu úr ríkissjóði til endurbóta á brimbrjótnum í Bolungavík, sem skemmdist allverulega í ofviðrinu 26.—27. okt. Vitamálastjóri hefir nýlega fengið lýsingu á skemmdunum, en hann var ekki tilbúinn með áætlanir um, hvað viðgerðin mundi kosta. En það er víst, að nauðsynlegt er að veita fé í þessu skyni, og till. um það ásamt áætlunum um kostnað og fyrirkomulag viðgerðarinnar munu koma fyrir fjvn. fyrir 3. umr. Ég vildi aðeins minnast á þetta nú, svo n. og Alþ. vissi, að von er á slíkum till. Því verði ekkert að gert og öldubrjóturinn látinn eyðileggjast, eins og hann fyrirsjáanlega gerir, ef aðgerð er ekki framkvæmd þegar á næsta sumri, þá er um leið þessi elzta veiðistöð landsins eyðilögð að fullu. Því um leið og öldubrjóturinn eyðileggst verður lendingin ónothæf, og þá er þetta gamla og fræga sjávarþorp óbyggilegt, svo fólkið yrði að flytja burtu. Ég veit, að Alþ., sem jafnan hefir séð þörfina á að halda við og endurbæta þetta mikla mannvirki, tekur vel í þær till., sem vitamálastjóri gerir nú til endurbóta á því.