14.11.1934
Neðri deild: 36. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1843 í B-deild Alþingistíðinda. (2688)

119. mál, tollundanþága fyrir tunnuefni og hamp

Frsm. (Guðbrandur Ísberg):

Iðnn. hefir haft þetta mál til meðferðar, og leggur hún til, að frv. verði samþ. að efni til með þeirri breyt., að það nái einnig til efnis til veiðarfæragerðar. Hvað snertir síldartunnurnar sérstaklega, þá notum vér um 200 þús. stykki af þeim árlega, og ef vér flytjum þær allar tilbúnar frá útlöndum, greiðum vér sem næst ½ millj. kr. fyrir smiði þeirra. Veiðarfæri höfum vér flutt inn fyrir upp undir eina millj. kr. árlega, og það mun einnig óhætt að segja, að vinnan við að framleiða þau úr þeim hráefnum, sem við þurfum að flytja inn, muni nema um ½ millj. kr. Þarna greiðum vér því samtals eina millj. kr. út úr landinu, sem vér gætum hæglega komizt hjá að greiða. Ég geng út frá því sem gefnu, að enginn hv. þdm. neiti því, að að því beri að stefna að koma þessari framleiðslu á inniendar hendur. Hinsvegar má deila um leiðirnar að því marki. Það hafa ýmsir, einkum þeir, sem að iðnaðinum standa, orðað tolla á erlendu vörunni. En meðan svo lítið er hægt að framleiða innanlands sem nú er, með þeim tækjum sem fyrir hendi eru, getur n. ekki fallizt á þá leið, en leggur hinsvegar einróma til, að farin sé sú leið, sem hér er bent á.

Á þskj. 425 er brtt. frá n., sem stafar af því, að þegar n. afgreiddi málið, var henni ekki fyllilega ljóst, að tollundanþágan fyrir efni til veiðarfæragerðar þurfti einnig að ná til hampgarns. Til færa- og netjagerðar er nefnilega ekki fluttur inn óunninn hampur, heldur hampgarn. Það var meining n. að hafa þetta efni með, þó það kæmi ekki nægilega skýrt fram í frv., og má því skoða þessa brtt. sem orðabreytingu.

Þá hefir komið hér fram brtt. frá hv. þm. Ísaf., á þskj. 396. Ég skal taka það strax fram, að þessi till. fer í sjálfu sér í rétta átt. Það er ekki nema eðlilegt og sjálfsagt, að bæjar- eða hafnarsjóðir, sem hlut eiga að máli, gangi það skref á móti tilhliðrun ríkisins, að fella þessi gjöld niður. Hinsvegar þótti n. ekki fært að ganga inn á að lögbjóða þetta, en gerir ráð fyrir, að bæirnir taki það upp hjá sjálfum sér og styðji þannig þennan iðnað, sem kemur þeim að mestum notum sjálfum. Sú leið er eðlilegri og skemmtilegri, ef hægt er að fara hana. Það er dálítið erfitt að gera slíka breyt. á hafnarreglugerðum og gjaldskrám, sem bæjarstjórnir setja samkv. þeim og stjórnarráðið staðfestir. Ég hefi borið þetta undir skrifstofustjórann í atvmrn., og leggur hann mjög á móti því, að þessi leið sé farin, ef unnt sé að komast hjá því.

Þetta gjald af efni til tunnugerðar er tiltölulega litið, og missa því hafnarsjóðir ekki mikils, þótt það falli niður.

2. brtt. á þskj. 387 miðar að því að breyta orðalagi á fyrirsögn frv. og að bæta inn í hana, að undanskilinn innflutningstollum skuli jafnframt óunninn hampur til veiðarfæragerðar.

Hirði ég svo ekki að fjölyrða um málið, en vænti þess, að hv. þm. taki frv. vel. Að síðustu vil ég geta þess, að iðnn. hefir í öðru sambandi bent á leið til að afla ríkissjóðstekna, er svari til þess tolls, sem ríkið missir, ef frv. þetta verður samþ.