14.11.1934
Neðri deild: 36. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1844 í B-deild Alþingistíðinda. (2689)

119. mál, tollundanþága fyrir tunnuefni og hamp

Finnur Jónsson:

Ég mæli eindregið með frv., en ég mælist jafnframt til þess, að hv. d. samþ. brtt. mína. Það er í fyllsta máta óréttlátt, að bæirnir séu að tolla iðnaðarvörur, sem ríkið leysir undan tolli. Og þó að hér sé ekki um háan toll að ræða, 5 aura á tunnuna, þá myndi það þó eflaust verða til að draga þennan iðnað niður.

Hv. þm. Ak. taldi það óviðkunnanlegt að skylda bæina með l. til að gefa eftir nokkuð af tekjum sínum, enda þótt ríkið gerði það. Ég get ekki fundið, að þetta sé á nokkurn hátt óviðkunnanlegt.

Um fyrirsögn frv. er það að segja, að hún er bæði löng og leiðinleg, og fer nokkuð af brtt. minni til að laga hana. Fyrirsögnin hljóðar svo: „Frv. til l. um, að efni í tunnur, sem ætlaðar eru til umbúða um innlenda framleiðslu, skuli undanþegið innflutningstollum“. Mætti halda, að frv. þyrfti ekki að vera meira en þessi fyrirsögn. Hún inniheldur allt efni frv. Með brtt. minni er fyrirsögnin viðkunnanlegri. Í öðru lagi miðar brtt. að því að létta undir með þeim, sem leggja í það að reka tunnugerð.