27.11.1934
Neðri deild: 46. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1998 í B-deild Alþingistíðinda. (2695)

104. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Frsm. minni hl. (Sigurður Kristjánsson):

Það er eins og hv. frsm. meiri hl. sagði, að n. hefir ekki orðið sammála um þetta frv. Minni hl. vill að sönnu ekki láta fella þetta mál, sökum þess, að það er ekki hægt að neita því, að það er þörf á að draga saman þau ákvæði, sem eru um síldarverksmiðjur a. m. k. í tvennum l. Hinsvegar er í þessu frv. stefnt í svo öfuga átt að hyggju okkar minnihl.manna, að við getum ekki gengið inn á að fylgja því eins og það er.

1. gr. frv. miðar að því, að banna öllum að reisa verksmiðju til síldarbræðslu, nema að fengnu leyfi atvmrh. Mér er næst að halda, að þessi till. sé sprottin af því, að hv. flm. hafi ekki gert sér nægilega grein fyrir því, að hverju beri að stefna í þessum málum, en það er vissulega það, að hægt sé að hagnýta til bræðslu alla þá síld, sem öll þau ísl. skip geta aflað, sem hæf eru til síldveiða og ekki eru til annars notuð. En þó að nú séu til allmargar verksmiðjur og standi til að byggja fleiri á næsta ári, þá er það víst, að mikið skortir á, að hægt væri að taka til bræðslu alla þá síld, sem afla má á öll þau ísl. skip, er geta stundað síldveiði.

En til þess að skipin geti stundað síldveiði, þarf auðvitað að gera aflann það verðmætan, að hann geti staðið undir útgerðarkostnaðinum. En reynslan hefir sýnt það, að ríkisverksmiðjurnar, sem nú eru, hafa ekki getað greitt það verð fyrir síldina, að unnt hafi verið að gera út skip eingöngu til að veiða bræðslusíld. Verðið á bræðslusíld hefir verið svo miklu lægra en á þeirri síld, sem var söltuð eða sérverkuð, að skipin hafa yfirleitt bjargazt á því, að geta selt nokkuð af afla sínum til söltunar.

Ég skal skjóta því inn í þetta mál, þó að það eigi frekar heima annarsstaðar, að það er nokkuð einkennilegt, að einmitt hér á þessu þingi hefir verið samþ. að færa niður toll á saltsíld, en fellt að færa niður þann toll, sem er á bræðslusíld. M. ö. o., að það er ennþá ríkjandi hér á hinu háa Alþ. svo mikill misskilningur á síldveiðimálum, að þingið hefir samþ., að gjalda skuli allt að 7% toll af bræðslusíld, sem er þó miklu óarðvænlegra að afla, en jafnframt samþ. að lækka tollinn á hinni verðmætari síld. Ég segi þetta af því, að mér finnst þörf á, að hv. þm. færu að gera sér grein fyrir því, að taka verður eitthvert tillit til þeirra manna, sem hafa fengizt við síldarútgerð og verzlað með síld í mörg ár, en þetta hefir einmitt gengið öfugt til hér á þingi. Þegar verið var að setja á einkasölu á síld, þá voru það einmitt afdalamennirnir, sem réðu úrslitum um hvert atriði. Þeir, sem mesta reynslu og þekkingu höfðu á þessum málum, fengu engu að ráða. Nú skilst mér, að þessi hörmulegi misskilningur eigi að halda áfram, og þetta frv. stefnir áreiðanlega í þá átt. Er það þó undarlegt, vegna þess, að annar af flm. frv. hefir þó fengið nokkra reynslu á þessum hlutum. En það er vafalaust, að úr þeirri þörf, sem er á því, að hægt sé að taka til bræðslu alla þá síld, sem ísl. skip geta aflað í því skyni, verður að bæta með einkarekstri, en ekki ríkisrekstri.

Nú geri ég ráð fyrir því, að eftirleiðis verði það eins og hingað til, að útgerðarmenn sjálfir reyni að koma sér upp bræðslustöðvum, og ef þeir ekki geta hagnýtt afla sinn þannig, að hann svari útgerðarkostnaði, þá er það alveg víst, að það verður ekki hægt með ríkisrekstri. Það var aldrei tilætlunin með ríkisverksmiðjurnar þegar þær voru settar á stofn, að leggja með því stein í götu þessa atvinnurekstrar, heldur var tilgangurinn sá, að bæta úr þörf útgerðarmanna þá í bili. En nú er komið inn á þá braut, að sökum þess að ríkið á verksmiðjur, á að fara að banna öðrum að reisa verksmiðjur, til þess að vernda þetta sem atvinnurekstur fyrir ríkið, m. ö. o., á kostnað atvinnurekstrarins sjálfs á að vernda afkomu þessara verksmiðja, sem upphaflega voru settar á stofn sem hjálp fyrir útgerðina. Svona hefir skilningurinn á þessum málum snúizt í hring í höfði þeirra manna, sem flytja þetta bannfrv.

Í umr. um þetta mál hefir það líka komið fram, sem mun vera nokkurt atriði í málinu, frá sjónarmiði hv. flm., að það sé verið að auka við útlendar verksmiðjur á síðustu árum að talsverðum mun. En það er einkennilegt, að það skuli geta haft áhrif og valdið flutningi þessa frv., því að vitanlega var sú aukning á móti l., og það var stj. að banna þá aukningu. En ég get ekki hugsað mér, að það mundi frekar vekja stj. til að grípa í taumana, þegar útlendir atvinnurekendur ætla að brjóta landslögin hér, þótt til væru tvenn lög um þetta efni í stað þeirra einu laga, sem brotin hafa verið. Það er því misskilningur, að þessu verði bjargað við með nýrri lagasetningu, því að um það eru skýlaus ákvæði til í l.

Þá skal ég koma að brtt. minni hl. sjútvn. Hann hefir auðvitað lagt til, að 1. gr. frv. skuli falla niður, af því að hún leggur bann við því, að nokkur megi reisa síldarverksmiðju nema með leyfi stj.

Um 2. gr. er það að segja, að hún áskilur ríkinu forkaupsrétt í verksmiðjum. Þetta er einnig byggt á misskilningi, því að ríkið getur alltaf, ef það vill, tekið verksmiðjur, sem aðrir eiga, eignarnámi, ef það þykir horfa til almenningsheilla. Við leggjum því einnig til, að sú gr. verði felld niður.

Þá er 3. gr. úr gömlu l. um síldarverksmiðjur, og er ekkert við hana að athuga.

4. gr. frv. er þannig orðuð, að okkur minnihl.mönnum fannst ekki mega við það una. Höfum við því orðað hana upp. Þar er í fyrsta lagi farið fram á það, að ríkisstj. skuli skipa alla mennina í verksmiðjustj. Þetta virðist okkur ekki vera heppilegt. Þess vegna leggjum við til, að gr. verði breytt, í fyrsta lagi þannig, að í stj. skuli vera 5 menn, en ekki 3, því að það er vitanlegt, að ef þörf var fyrir þriggja manna stj., meðan ríkið hafði aðeins eina verksmiðju, þá veitir ekki af 5 mönnum, þegar ríkið á 3—4 verksmiðjur, eina á hverju landshorni. Þá sýnist okkur heppilegt, að menn þessir séu kosnir af Alþ., að undanskildum formanni, og kosnir til 3 ára. Það gefur verksmiðjustj. meiri festu, ef hún hefir tækifæri til að starfa í 3 ár í einu. Formaður stj. leggjum við til, að sé stjórnskipaður og aðeins til eins ár í senn. Þar hefir verið gengið inn á þá hugsun, sem virðist vera rétt og er orðin ríkjandi, að sú ríkisstj., sem situr í hvert skipti, eigi að ráða, hverjir eru hennar trúnaðarmenn við stjórn slíkra fyrirtækja sem þessa. Og það er alveg gefinn hlutur, að ef formaður þessarar stj. er skipaður árlega, þá hefir hver stj. þar þann trúnaðarmann, sem hún helzt mundi kjósa.

Um endurskoðendurna þurf ekki að ræða, því að það er enginn ágreiningur um það.

Þá höfum við ekki viljað rígskorða það, hvar þessi stjórnarnefnd skuli hafa aðsetur sitt: Það getur verið, að stj. þurfi að hafa menn á ýmsum stöðum, ef ríkið rekur verksmiðjur á fleiri en einum stað. Það er líklegt, að einn stjórnarnefndarmanna þurfi að vera í Rvík við og við, til þess að greiða fyrir ýmsum peningamálum fyrir fyrirtækin.

Við höfum lagt til, að fella skuli niður síðasta málslið 5. gr., sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ennfremur er það skilyrði fyrir slíkri sölu (þ. e. a. s. ef ríkið ætlar að selja samvinnufélagi verksmiðju), að þátttaka í félaginu sé almenn bæði meðal útgerðarmanna og sjómanna.“

Okkur sýnist, að þetta ákvæði gæti leitt til þess, að ef ríkið vildi selja verksmiðju, þá yrði það naumast hægt vegna þess, að þátttakan yrði ekki nógu almenn, en eftir okkar skilningi fer betur á því, að útgerðarmenn gætu sjálfir átt allar verksmiðjur, sem þeir afla í. Þess vegna viljum við ekki hafa það annmörkum bundið, að þeir geti eignazt slíkar verksmiðjur.

Þá höfum við lagt til, að 8. gr. verði orðuð upp. Eftir þeirri gr. á að fara þannig að með afla þeirra, sem fá hann síldarverksmiðjunum til bræðslu, að seljendur verða að greiða af aflanum allan rekstrarkostnað, þ. á m. vexti af stofnfé því, sem lagt hefir verið til verksmiðjunnar, í öðru lagi afborgun af stofnfé verksmiðjunnar, eftir því sem samningar standa til um þau stofnlán, sem hafa verið tekin til hennar. Í þriðja lagi firningargjald, 2%, og í fjórða lagi á að greiða 5% í varasjóð. Þetta eru fjórir liðir, sem eiga að dragast frá, og í raun og veru eru þeir fimm, því að þarna er slengt saman tveimur liðum, og það er allur rekstrarkostnaður verksmiðjunnar. Það er fyrsta atriðið. Vextir af því fé, sem lagt hefir verið í verksmiðjuna, annar liðurinn. Þriðji liðurinn er afborgun, eftir því, sem stj. hefir samið um. Þá er fyrningargjald og í fimmta lagi varasjóðsgjald.

Það hlýtur að vera hverjum manni ljóst, að þarna er mjög mikið rýrt andvirði síldarinnar, enda hefir það reynzt svo, að ekki hefir verið hægt að skila miklu til þeirra, sem síldina hafa selt. Og það er fjarstæða að ganga svo langt, að láta síldareigendur, sem eiga að fá síldina unna þarna, borga miklu meira fyrir það heldur en þeir hefðu orðið að gera, ef þeir hefðu lagt í það sjálfir að koma sér upp verksmiðjum. Það er vitanlega fjarri öllum sanni, að þetta eigi sér stað, úr því að einstökum útgerðarmönnum er bannað að byggja verksmiðjur. Við leggjum því til, að þessu verði breytt.

Hinsvegar ætlumst við til, að síldareigendur greiði stjórnar- og rekstrarkostnað verksmiðjanna, og afborganir og vexti af stofnkostnaði þeirra, en þó á annan hátt en flm. frv. ætlast til. Það er ekkert vit í því, að hafa það óbundið, eins og er í frv., á hve löngum tíma stofnkostnaðurinn skuli greiðast, e. t. v. á 3—4 árum. Samkv. samningi um dr. Pauls-verksmiðjuna á hún að greiðast á 6 árum. Það nær vitanlega engri átt, að viðskiptamenn greiði stofnkostnað þessarar eða annarra verksmiðja á svo skömmum tíma. Við höfum því flutt um þetta brtt. þess efnis, að stofnkostnaður af byggingu nýrrar verksmiðju ríkisins skuli greiðast með vöxtum á 20 árum, en greiðsla fyrir eldri verksmiðjuna, sem ríkið hefir keypt eða kann að kaupa — en nú virðist sú stefna mjög uppi, að kaupa ýms gömul verksmiðjuskrifli handa ríkinu —, skuli dreifast á sem flest ár og fara eftir endingarmöguleikum verksmiðjunnar.

Þá höfum við borið fram brtt., sem felur í sér nánari ákvæði um það, til hvers fyrningargjaldi skuli varið. Teljum við sjálfsagt, að skýrt sé kveðið á um það, að því skuli varið til viðhalds og endurbóta verksmiðjunum.

Loks flytjum við brtt. um útborgun til síldareigenda. Upphaflega var tilætlunin sú, að verksmiðjan keypti enga síld af síldareigendum, heldur tæki hana í vinnslu af þeim fyrir þeirra reikning og skilaði þeim síðan andvirðinu, að frádregnum rekstrarkostnaði, vöxtum og afborgunum, fyrningar- og vörusjóðsgjaldi.

Í frv. er gert ráð fyrir, að verksmiðjan greiði síldareigendum allt að 70% af áætluðu verði við afhendingu. Þetta sama ákvæði var í síldarlögunum frá 1929, en reyndist óframkvæmanlegt, vegna þess, að sjómönnum og útgerðarmönnum var ókleift að stunda síldveiðar með svo lítilli útborgun, og fá ekki eftirstöðvarnar, ef einhverjar voru, fyrr en eftir áramót. Því tók verksmiðjustjórnin það til bragðs að fá leyfi atvmrh. til að kaupa síldina. En sú aðferð felur í sér áhættu fyrir ríkissjóð og ósanngirni gagnvart sjómönnum og útgerðarmönnum.

Því viljum við, að reynt sé að ná hinum upphaflega tilgangi verkmiðjulaganna, að taka síldina til vinnslu fyrir reikning síldareigenda á þann hátt, að greiða þeim 85% af áætlunarverði síldarinnar nýrrar, og flytjum við um það brtt. við 8. gr.

Við 9. gr. er brtt. þess efnis, að í stað þess, að í frv. er ákveðið, að innlendar pantanir á fóðurmjöli skuli vera komnar fyrir 15. ágúst, skuli þær koma „fyrir ágústlok“. Við teljum ákvæði frv. óheppileg, af því, að um miðjan ágúst er heyskapur sjaldan það langt kominn, að séð sé fyrir fóðurbætisþörf bænda.

Þá leggjum við til, að 10. gr. sé orðuð upp. Efnisbreyt. gerum við ekki miklar, en okkur virðist orðalag greinarinnar geta valdið misskilningi, t. d. um reikningsskilin. Við teljum ennfremur rétt, að síldarverksmiðjur ríkisins birti reikninga sína í landsreikningunum alveg eins og önnur hliðstæð fyrirtæki, t. d. skipaútgerð ríkisins og ríkisprentsmiðjan.

Ég skal geta þess, að í nál. er skakkt ártal. Síldarverksmiðjan tók ekki til starfa fyrr en tveim árum eftir að l. um síldarbræðslur voru sett.

Á bls. 3 í nál. er talað um ákvæði um að greiða fyrningar- og varasjóðsgjald. Þetta er óþarft, ef brtt. okkar um að fella varasjóð niður verður samþ.

Ég skal játa, að í brtt. okkar felst mikil umturnun á frv., einkum vegna þess, að með þeim er raskað meginatriði þess, því, að banna einstökum mönnum að byggja síldarverksmiðjur. Með þessu er frv. í rauninni breytt svo, að lítið er þar eftir, nema það, sem er í gildandi l. Þetta kann nú að þykja nokkuð harðneskjulega að farið hjá okkur, minni hl. sjútvn. En við lítum svo á, að þótt við viðurkennum nauðsyn þess, að koma á einni og samfelldri löggjöf um þetta efni, þá séu viðbætur hv. flm. við gildandi l. ýmist óheppilegar eða óljósar. Þess vegna höfum við neyðzt til að semja frv. um að miklu leyti, en þess er að vænta, þar sem svo fullorðnir menn sem hv. flm. eiga hlut að máli, að þeir taki þetta ekki mjög nærri sér.

Ég vona, að hv. þdm. láti nú svo lítið, þótt þetta sé síldarmál, að kynna sér bæði gildandi löggjöf og frv. flm. og brtt. okkar áður en þeir greiða atkv. um málið, en hafi ekki þann máta, eins og stundum áður, að láta einn eða tvo menn skipa sér fyrir um það, hvernig þeir eiga að greiða atkv. í málinu. Síldarmál eru ekki það ólík öðrum málum, að menn þurfi ekkert um þau að vita áður en teknar eru um þau ákvarðanir. Óhöppin, sem hent hafa ríki og þjóð í síldarmálunum, hafa stafað af því, að þessum málum hefir verið ráðið til lykta af mönnum, sem ekki hafa haft þekkingu eða vilja til að kynna sér þau. Mér lízt svo á, að ef nú verður gengið til atkv. að lítt athuguðu máli, því hinir tómu stólar bera þess vitni, að hv. þdm. vilja ekki hlusta á rökræður um þetta mál, þótt búast megi við, að þeir kæmu hlaupandi út úr öllum hliðarherbergjum, ef hringt væri til atkvgr., verður það að teljast stórum aðfinnsluvert, ef hv. þm. setja sig ekki inn í mál sem þetta áður en þeir taka um það ákvarðanir.