27.11.1934
Neðri deild: 46. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2008 í B-deild Alþingistíðinda. (2697)

104. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Frsm. minni hl. (Sigurður Kristjánsson):

Mér finnst hv. frsm. meiri hl. hafa kostað of mörgum orðum til þessa máls, því hans rökræður voru um allt annað en það, sem hér er um deilt. Mér virðist hann vilja sanna, að ekki mundu fara fleiri skip á veiðar en hægt sé að taka við síld frá. Um þetta höfum við ekkert verið að deila. Þvert á móti álítum við, að það muni alltaf fara tiltölulega fátt af skipum til veiða til þess að fiska í bræðslu, a. m. k. ef ríkið á að taka við síldinni, því það hefir sýnt sig, að ekki er hægt að svara mönnum því verði fyrir síldina, að útgerðin beri sig, þegar ríkisverksmiðjurnar eiga í hlut.

Þessi byrjun hv. þm., að við hefðum átt að kynna okkur þetta mál eins og hann hefði gert, hefir því við lítið að styðjast. Hans upplýsingar eru ekki aðrar en þær, að síldarverksmiðjurnar hefðu getað, ef þær hefðu haft nóg verkefni, á 55 dögum brætt síld sem svaraði 630 þús. málum. Það er nú vitanlegt í fyrsta lagi, að það er ekki hægt að láta verksmiðjurnar alltaf hafa nákvæmlega það, sem þær geta brætt á þeim lengsta tíma, sem þær mættu vera við það, svo ekki dugar að miða við það. Það verða að vera bræðslumöguleikar fyrir miklu meiru heldur en því, sem fiskast í lélegu ári og jafnvel í meðalári. En misskilningurinn liggur í því, að hv. frsm. er að tala um þau skip, sem líkleg eru til að fara á veiðar, samkv. því sem skýrslan segir, en ekki þann skipastól, sem kynni að fara á veiðar, ef skilyrðin væru betri. Hér munu vera til 65 togarar og línuveiðagufuskip, og þessi skip geta öll stundað síldveiðar, og mundu flest gera það, ef líkindi væru til þess, að verðið yrði viðunanlegt. Þessi skip afla bara í meðalári 800 þús. mál, eða 12 þús. mál hvert. Það mun hafa verið minna á síðasta sumri, en t. d. 1931 munu togarar hafa aflað um 20 þús. mál. Það er líka vitanlegt, að allir mótorkútterar, sem eru upp undir 30 tonn að stærð og þar yfir, geta mjög vel stundað veiðar til bræðslu.

En hér er alls ekki um að ræða neitt kapphlaup um auknar verksmiðjur, heldur aðeins um það, hvort banna á útgerðarmönnum sjálfum að sinna þeirri þörf, sem kann að kalla um að reisa verksmiðjur. Það er sennilega enginn maður svo skyni skroppinn, að honum detti í hug, að útgerðarmenn hlaupi til þess að byggja verksmiðjur, án þess að hafa þeirra þörf. Heldur hv. frsm. meiri hl., að hann telji nokkrum manni trú um slíkt? Nei, það þýðir ekki neitt að koma með aðra eins fjarstæðu og þetta er. Ef svo yrði, að eftir næsta sumar væru til nægilega margar verksmiðjur til þess að bræða þá síld, sem menn kærðu sig um að gera skip út til þess að veiða, þá er ekki ástæða til að ætla, að útgerðarmenn hlypu til þess að byggja verksmiðjur, án þess að eiga vís skip til þess að veiða í þær.

Ég held, að það sé ekki vert fyrir hv. frsm. að vera að hlaupa í kringum þetta heita soð, sem hann er að hringsnúast kringum. Hann brennir sig hvort sem er, því að tilgangurinn með þessu frv. er aðeins tvennur, en þó aðallega einn, sem sé sá, að banna einstaklingum að reka frjálsa atvinnu, og svo ennfremur að koma burt þeirri verksmiðjustj., sem nú er. Ég skil ekki í því, að nokkur maður skuli hafa þá einurð, og ég vil næstum segja skort á blygðunarsemi, að koma hér og brýna sjálfstæðismenn með því að segja, að ráðh. úr þeirra flokki hafi verið hlutdrægur við skipun verksmiðjustj., og að mótstaðan gegn frv. muni vera vegna þess, að þeim sé annt um að hafa þá verksmiðjustj. áfram, sem nú er, eða a. m. k. af sínum flokki, og að þeir vilji láta kjósa stjórnina á Alþ., af löngun til þess að öðlast rétt — sem mér skilst, að hv. frsm. áliti, að þeir hafi ekki — til þess að eiga hlutdeild í verksmiðjustj. Hann veit sjálfur, að hann stendur þarna með þá mórauðustu samvizku, sem hugsazt getur í nokkru máli, vegna þess, að þetta frv. er borið fram til þess fyrst og fremst, að geta skipað pólitískt einlita verksmiðjustj. Um leið og ég segi þetta, vil ég sýna fram á það, hvernig sjálfstæðismenn hafa hagað sér í svona málum, og þá um leið, að þeir hafa ekki sýnt hlutdrægni í þeim. Þegar það varð hlutskipti eins ráðh. sjálfstæðismanna að skipa verksmiðjustj., þá verð ég að segja, að pólitískt séð var ég ekki hrifinn af hans aðgerðum. Hann skipaði 2 menn í stj. úr flokki andstæðinga sinna og 1 samflokksmann sinn. Og ég gat ekki séð annað en að valið á öðrum manninum úr andstöðuflokknum væri vítavert, af því að sá maður var háttsettur embættismaður hér í Rvík. En ég geri ráð fyrir, að ráðh. hafi verið sannfærður um, að þetta væru mjög heppilegir menn til þess að gegna þessu starfi, og þess vegna hafi hann ekki hirt um flokkslit þeirra. Þessi ráðh. fór nú svona að, en ég held, að mér sé óhætt að segja það, að ef hv. frsm. meiri hl. hefði átt að ráða skipun þessarar stj., — sem ég vænti, að aldrei komi fyrir — þá hefði hann farið öðruvísi að. Í annað sinn átti þessi ráðh. að skipa verksmiðjustj., — ég held, að ég muni það rétt —, og þá skipaði hann 2 menn, sem eru sjálfstæðismenn, a. m. k. er það vist um annan þeirra, en einn úr hópi framsóknarmanna. Á þessum skipunum ráðh. í verksmiðjustj. held ég, að sé þess vegna ekki hægt að sjá það, að sjálfstæðismenn hafi sett sína flokksmenn með ofbeldi í þessar stjórnir. Og þetta stingur ákaflega í stúf við þá reglu, sem höfð er, þegar andstöðumenn sjálfstæðismanna eru að skipa stjórnir fyrir ríkisfyrirtæki eða aðrar stjórnarnefndir. Þá má það heita svo, að ekki sé svo auðvirðileg staða veitt, að ekki sé leitað að sterklituðum flokksmanni, helzt allt að því kommúnista, í hana. Svo leyfir hv. frsm. meiri hl. sér að koma hér fram og gefa sjálfstæðismönnum ávítur fyrir hlutdrægni í þessum sökum, en sjálfur er maðurinn að burðast með frv., sem á að gera hans flokki það hægt, að beita hlutdrægni og rangsleitni við skipun stjórna yfir þessar verksmiðjur. Það þýðir ekki nokkurn skapaðan hlut fyrir þennan hv. þm. að þræta fyrir þetta, því að frv. hans sýnir sig, og þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Jafnframt fellur niður umboð núverandi verksmiðjustjórnar“. Það má ekki bíða eftir því, að tími þeirra sé útrunninn, sem nú skipa stj., vegna þess, að græðgin er svo mikil í að komast þar að. Það verður að sparka þeim strax.

Ég þarf ekki að hafa þessi orð öllu fleiri. Það, sem við minnihl.menn höfum sagt, stendur alveg óhaggað. Verksmiðjur ríkisins voru alls ekki stofnaðar upphaflega sem nein spekúlation, heldur voru þær stofnaðar til þess að hjálpa útgerðinni, og áttu þess vegna aldrei að verða neinn sérstakur gróðavegur fyrir ríkið á kostnað útgerðarmanna og sjómanna. Þær áttu aðeins að vera gróðavegur fyrir ríkið, ef gróði beggja aðila gæti farið saman. Þessu hefir nú verið snúið þannig við, að þær eiga nú að verða nokkurs konar píslartól á útgerðarmenn. Þær eiga að binda í sér bann við því, að útgerðin sjálf megi uppfylla þá þörf, sem hún kann að fá fyrir auknar síldarverksmiðjur. Það á að geyma það allt einokunarhafa, og þá á náttúrlega fyrst og fremst að bera mesta umhyggju fyrir ríkinu sjálfu. Þá eiga hagsmunir þeirra, sem síldina afla, að víkja fyrir hagsmunum ríkisins. Þetta er gersamlega öfugt við þann tilgang, sem olli því, að ríkið fór að byggja síldarverksmiðjur.

Ég hefi fengið þær upplýsingar, og vil láta þær koma fram, vegna þess, að hv. frsm. meiri hl. vildi láta skína í hlutdrægni hjá sjálfstæðismönnum um yfirráð yfir þessum síldarverksmiðjum, að sami ráðh. sjálfstæðismanna, sem verksmiðjustjórnirnar skipaði, hafi skipað 2 endurskoðendur við þessi fyrirtæki, og báða úr andstöðuflokki. Mér er ekki vel kunnugt um þetta, en ef þetta er rétt, þá álít ég það hreint ekki hrósvert, því að það er alveg vitanlegt, að þó að það kunni að vera til hæfir menn til þess arna í andstöðuflokkum sjálfstæðismanna, þá eru þeir vafalaust miklu fleiri í flokki sjálfstæðismanna, og a. m. k. má búast við meiri ráðvendni hjá sjálfstæðismönnum en andstæðingum þeirra. Það var farið dálítið á annan veg að, þegar síldareinkasalan sál. var á ferðinni, sællar minningar. Þá var það ekki ráðh. úr hópi sjálfstæðismanna, sem skipaði endurskoðendur. En til þess að endurskoða þau mál voru skipaðir 2 bændur, sem ég efast um, að hafi nokkurn tíma séð síld, nema þá fóðursíld, en þeir voru af réttum flokkslit. Ég býst við, að það eina, sem þeir hafi haft til að bera til þess að endurskoða þetta stóra fyrirtæki, hafi verið það, að þeir hafa verið sómasamlegir menn í sinni stétt, og svo fylgismenn þeirrar stj., sem skipaði þá. Þekkingu á þessum málum gátu þeir alls ekki haft.

Ég vil svo enda mál mitt með þeim tilmælum til forseta, að hann láti atkvgr. um þetta mál fara fram, þegar þm. eru sem flestir við, því að þetta er að sjálfsögðu ekki lítilsvert mál, og mjög æskilegt, að allir þm. d. taki þátt í afgreiðslu um það.