16.11.1934
Neðri deild: 38. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1849 í B-deild Alþingistíðinda. (2713)

119. mál, tollundanþága fyrir tunnuefni og hamp

Jóhann Jósefsson:

Ég á hér brtt. á þskj. 465 um að kassaefni skuli vera undanþegið tolli. Ég lít svo á, að efni í kassa, sem eru notaðir undir ísfisk, eigi að vera alveg jafnrétthátt og tunnuefni.

Það hefir verið sagt, að erfitt myndi verða að aðgreina kassaefni frá timbri, sem notað er til annars, en ég hygg, að þetta séu veigalitlar mótbárur, þar sem sönnunarskyldan um það, til hvers ætti að nota efnið, myndi jafnan hvíla á þeim, sem vildi fá það tollfrítt. Annars eru flutt inn svo kölluð kassaborð og niðurskorinn viður í kassa, svo það er ekki svo erfitt að ákveða, hvað sé kassaefni eða ekki. Mótbárurnar hafa því ekki við mikil rök að styðjast, þar sem það er oftast ljóst af nafni og meðferð efnisins, til hvers á að nota það. Þótt einhver kaupi efni til kassagerðar af timburverzlunum hér, kemur það ekki þessu máli við.