29.11.1934
Sameinað þing: 16. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í B-deild Alþingistíðinda. (272)

1. mál, fjárlög 1935

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég stend nú upp aðallega vegna þess, að ég hefi verið sakaður um hlutdrægni í fjárveitingum í fjárlagafrv., og kom sú aðdróttun frá hv. 1. þm. Skagf.

Ég ætla ekki að fjölyrða mjög um einstakar brtt., sem fyrir liggja frá meiri hl. og minni hl. fjvn. Stefnur þeirra hafa nokkuð borizt í tal í eldhúsumr. Geng ég því framhjá þessum brtt. nú. Sama er að segja um brtt. einstakra hv. þm. Ég mun ekki fara út í þær nú.

Hv. 1. þm. Skagf. var að tala um það, að fróðlegt væri að heyra, hvernig það væri rökstutt, að stj. beitir sér á móti því að lækka tillög til símalína, þar sem slík tillög hafa í för með sér vöruinnkaup frá útlöndum. Lækkun sú á þessum lið, sem minni hl. fjvn. leggur til að gerð verði, nemur 35 þús. kr. Getur það varla talizt gera mikið, hvorki til né frá, um verzlunarjöfnuð landsins, hvort vörur eru keyptar inn fyrir 20 þús. kr. meiri eða minni upphæð. En ástæðan til þess, að stj. sér sér ekki fært að leggja til, að lægri upphæð verði veitt til símamála en í frv. er gert ráð fyrir, er sú, að mikið skortir á, að símalínur séu nú þegar lagðar þar, sem þörf er á, og er ég um það á annari skoðun en hv. frsm. minni hl. Hann sagði, að sem betur færi væru komnar símalínur þar, sem brýn þörf væri á. En eftir því, sem ég þekki til, skortir mjög á þetta. Þetta er ástæðan til þess, að stj. getur ekki fallizt á þessa lækkunartill.

Það má lengi um það deila, hve einstakir liðir í fjárl. til verklegra framkvæmda skuli vera háir. Ég hygg þó, að ekki sé vandi að benda á átakanleg dæmi um það, hve símaleysi er tilfinnanlegt sumstaðar á landinu, þó að það sé kannske ekki þar, sem hv. 1. þm. Skagf. er kunnugastur.

Hv. frsm. minni hl. fjvn., 1. þm. Skagf., beindi því til mín, að ég hefði sýnt hlutdrægni við samningu fjárlagafrv. og hefði misnotað aðstöðu mína sem fjmrh. til þess að draga inn í fjárl. óþarflega miklar fjárveitingar fyrir mitt kjördæmi. Þetta er alvarleg ásökun, sem ég vil fara nokkrum orðum um. Þessi hv. þm. benti á það, að í þessu kjördæmi hefði það verið svo, að eftir till. vegamálastjóra hefði átt að eyða þangað í vegafé 5 þús. kr. Þetta er alveg rétt, að þannig átti þetta að vera. Þá fór hv. þm. að bera saman við þetta það, sem vegamálastjóri og stj. höfðu lagt til um framlög til annara héraða til vegagerða. Um þennan samanburð þessa hv. þm. er það að segja, að ef bera á þetta saman í þessum einum fjárl., þá gefur sá samanburður enga rétta hugmynd um það, hvaða skil þessum héruðum eru gerð í þessu efni. Því að ef nokkurt vit á að vera í samanburði á þessu, þá þarf að taka með fullri sanngirni til greina núverandi ástand í þessu efni í hverju héraði og þau fjárframlög, sem veitt hafa verið í fjárl. margra undanfarinna ára til samgöngubóta í hinum ýmsu héruðum landsins. En þessu sleppti hv. þm., og er samanburður hans því einskis virði.

Hv. 1. þm. Skagf. er það kunnugt, þótt hann virðist ekki vilja vita það, að það hefir verið svo undanfarin ár, að til Austurlands hafa vegafjárframlög frá ríkinu verið ákaflega lítil. Rök fyrir því hafa verið færð þau, að það væri eðlilegt, að þessi landshluti biði, þangað til búið væri að koma bílfærum þjóðvegi þangað, kringum landið frá Rvík. Því hefir verið haldið fram, að þegar svo væri komið, þá yrði farið að líta til þessa landshluta í þessum málum og bæta úr þörf á vegagerð þar. Nú hefir þessi landshluti sætt sig við að vera afskiptur í þessu efni lengi undanfarið. En hann getur ekki lengur sætt sig við annað en að þessum málum verði nú gerð einhver skil. Það hefði verið undarlegt réttlæti, ef þessi sýsla hefði átt að láta sér nægja 5000 kr. til þessara framkvæmda á árinu 1935. Þetta er engu að síður ranglæti, þó að það fælist í till. vegamálastjóra. Ég er ekki að væna hann um hlutdrægni, en allir ættu að sjá, að engin sanngirni er í því, að sýsla, sem undanfarið hefir ekki fengið vegafé nema af skornum skammti, skuli nú, þegar vegir hennar eru að komast í samband við bílvegakerfið kringum landið, heldur ekki fá nema 5000 kr. til vega. Þetta óréttlæti varð að lagfæra, og þar sem fé það, sem hægt er að veita í þessu skyni, er takmarkað, varð ekki hjá því komizt að minnka jafnframt framlagið til annara sýslna, frá því sem vegamálastjóri hafði gert till. um. — Og það skyldi sýna, eftir að áætlanirnar um framkvæmdir á árinu 1935 eru komnar í verk, að þessi landshluti er langt frá sambærilegur við aðra hvað vegi snertir. Hv. þm. talaði um, að hér væri sýnileg hlutdrægni, að stj. hefði alveg snúið við till. vegamálastjóra hvað snerti Suður-Múlasýslu og Rangárvallasýslu framlagið til Suður-Múlasýslu hefði verið sjöfaldað, en framlagið til Rangárvallasýslu minnkað jafnmikið.

Ég skal benda þessum hv. þm. á það, að nýlega hafa verið framkvæmdar stórkostlegar samgöngubætur í Rangárvallasýslu, og að ástand vega þar er að engu leyti sambærilegt við það, sem er eystra. Ég má segja, að hægt sé að komast með bílum í alla hreppa Rangárvallasýslu, en fyrir austan er það víða svo, að bændur verða að flytja afurðir sínar á klökkum langar leiðir. Þetta er ekki hægt að bera saman. Enda mun hv. þm. hafa skoðað þetta frekar sem tækifæri til þess að narta í stj., og þá sérstaklega í mig, en sem sanngirnismál. — Eða felst einhver sanngirni í till. hv. minni hl. fjvn., þar sem lagt er til, að felldar verði niður allar fjárveitingar í héraðið, nema þessar 5000 kr., sem vegamálastj. leggur til, að veitt verði þangað til vega á fjárl. fyrir 1935. Og svo leyfa þessir menn sér að tala um réttlæti. — Ég held því fram, að það verði að líta á ástandið í hverju héraði fyrir sig, og reyna svo að miðla því fé, sem hægt er að veita til vega, sem allra réttlátast. Það má ekki hengja sig í það, þó að einstöku ár sé dálítill mismunur í framlaginu til sýslnanna. — Það sama, sem ég nú hefi sagt um Suður-Múlasýslu, má einnig segja um Norður-Múlasýslu, sem hv. þm. talaði einnig um, þó að löngunin til þess að narta í mig væri sterkari. Ég get þessa af því að hv. frsm. síðari hluta er hér ekki viðstaddur. Stöðugt er verið að hamra á því, að stjórnarflokkarnir hafi misnotað aðstöðu sína í fjvn. Ég vil benda á í því sambandi, að form. fjvn. á enga till. til hækkunar gjalda. Annars hélt ég, að það gleddi þm. yfirleitt, að þm. stjórnarflokkanna skuli líta svo á, að eftir till. stj. og fjvn. sé ekki á gjöldin bætandi. Það er rétt, að þessir menn, sem sérstaklega hafa verið til þess kjörnir að athuga allar beiðnir og till. um fjárveitingar, hafi mest að segja um afgreiðslu fjárl., að menn snúi sér til fjvn. með óskir sínar og kröfur, og láti sitja við afgreiðslu hennar á þeim. Hin aðferðin, að flytja till., sem full vissa er fyrir, að ekki er hægt að verða við, kann að hafa gefizt vel til kjósendaveiða, en sýnir hinsvegar fullkomið ábyrgðarleysi um afgreiðslu málsins. Við getum hugsað okkur, hver áhrif slík aðferð hefði á stórum þingum, þar sem þm. skipta hundruðum. Nei, þar kemur ekki slíkt til greina, þar eru almennt viðurkenndar þær aðferðir, sem stjórnarflokkarnir hafa haft á þessu þingi, að láta miðla málunum í fjvn. Það er aðeins Sjálfstfl., sem virðist halda enn þá upp á þetta kjósendadekur.