29.11.1934
Sameinað þing: 16. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í B-deild Alþingistíðinda. (274)

1. mál, fjárlög 1935

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Ég á eina brtt. á þskj. 602, sem fer fram á það, að 3000 kr. séu veittar til Vesturhópsvegar. Þessi vegur var fyrir nokkru tekinn í þjóðvegatölu. Hreppurinn, sem þessi vegur liggur um, er mjög langur, en þessi vegur, sem er um 70 km. á lengd, hefir verið byggður af einu sýslufélagi, og stendur þarna aðeins eitt hreppsfélag undir öllum kostnaðinum. Það hefir verið notuð til hins ýtrasta heimild í l. fyrir sýslufél. til að leggja á íbúa hreppsins til þess að koma veginum á.

Þessi vegur er nauðsynlegur tengivegur að kauptúninu á Hvammstanga, tengivegur milli sýsluvegarins og þjóðvegarins. Hann er talsvert langur, ég held, að hann sé um 20 km., frá þjóðveginum og á enda út að Vesturhópsvatni. Mikið af veginum má nota í bráð, en það eru ófærir kaflar á milli, en ég býst við, að ef þessi litla fjárhæð væri veitt, þá mætti gera veginn færan, a. m. k. fyrir kerrur, ef til vill líka fyrir bíla. Ég vil vænta þess, að hv. fjvn. athugi þetta vendilega áður en hún leggst á móti því. Ég gerði það af ásettu ráði að skera þessa upphæð svona við neglur, af því ég hafði í huga, að koma mætti í notkun kafla, sem búið er að leggja norður í hreppinn. Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta, en vænti þess, að mér gefist tækifæri til þess að gefa frekari upplýsingar til hv. fjvn. ef hún vildi taka þetta til athugunar.

Ég vildi bæta örfáum orðum við það, sem hv. 2. landsk. sagði um J. brtt. hv. fjvn., en hún er um það, að lækka framlagið til ríkisféhirðis. Ég vil skýra frá því, hvað hefir verið lagt fram til ríkisféhirðis undanfarin 4 ár. Árið 1930 var sú upphæð 32113.32 kr. Árið 1931 var upphæðin 39530.24 kr. og árið 1932 33334.52 kr. og loks árið 1933 33369.51 kr. Það er því víst, að ef þeir starfskraftar, sem eru þar nú, eiga að vera áfram, þá getur kostnaðurinn ekki orðið minni en 33—34 þús. kr. Árið 1931 var kostnaðurinn nokkuð hærri. Ég man ekki, af hverju það stafaði, en ég býst við, að það hafi verið vegna breytingar á bókhaldinu. Ég vil benda á það í þessu sambandi, að það þarf að taka til athugunar um leið og teknar eru ákvarðanir um fjárveitingu til ríkisféhirðis, að með breytingu þeirri, sem orðin er á ríkisbókhaldinu, er það nauðsynlegt, að sem mest samband geti verið milli bókfærslunnar hjá ríkisféhirði annarsvegar og ríkisbókhaldsins hinsvegar, svo að tilgangurinn náist, sem fólginn var í þeirri breytingu, sem gerð var. Ég álít því, að ekki megi skera við neglur sér framlagið til ríkisféhirðis. Ég tek það fram, að eftir kynningu minni af þessum störfum gegnum endurskoðun landsreikninganna, álít ég, að ekki komi til mála að fækka starfsfólki þar, eða minnka launagreiðslur. Ég ætla, að ekki sé ástæða til að taka fleira fram, ef ekki kemur neitt nýtt fram til stuðnings þessari brtt. Það er óhætt að fullyrða, að ríkisféhirði sé það óljúft, að tekinn sé maður frá störfum þar, og ef manni er kippt burt þaðan núna, þá þyrfti fljótt að bæta við aftur, en það er óheppilegt að taka burt starfsmenn þaðan, sem á annað borð eru góðir. Það er því óheppilegt að gera þar breytingu, nema ef einhverjir annmarkar væru á starfsliðinu, en það hygg ég að sé ekki. Það er nauðsynlegt, að starfsfólkið sé sem stöðugast, og að það, sem er búið að kynnast vel starfinu, víki ekki fyrir nýjum mönnum, sem þurfa mikinn tíma til þess að kynnast starfinu. Ríkisféhirðir hefir mikið að sækja til fulltrúa síns, og verður því að geta borið fullt traust til hans. Ég hygg, að núv. fulltrúi hafi áunnið sér gott traust. Ég hygg, að ekki sé hægt að komast hjá

því að hafa þá starfskrafta, sem nú eru hjá ríkisféhirði. Það verður að sýna fram á, að þeir séu óþarfir, annars er ekki gerandi að breyta til. Þó að kostnaður hafi aukizt nokkuð við breytinguna, sem gerð var á bókhaldinu, þá má það ekki standa í vegi fyrir því, sem er ennþá mikilsverðara, en það er, að bókhaldið sé í góðu lagi. Það er afar mikils virði, að ríkisbókhaldið sé í sem beztu lagi. Þó að menn vilji spara á einstökum liðum, þá eiga menn ekki að spara þar, sem það getur orðið til tjóns, þar sem spara á meira en fært er vegna öryggis.

Ég vil svo endurtaka ósk mína til hv. fjvn., að hún athugi, hvort hún sér sér ekki fært að fallast á, að veittar séu 3000 kr. til Vesturhópsvegar, og er ég fús að gefa nánari upplýsingar, ef n. óskar þess.