27.10.1934
Efri deild: 23. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1863 í B-deild Alþingistíðinda. (2755)

75. mál, varðskip landsins og skipverja á þeim

Magnús Guðmundsson:

Mér þykir gott að heyra, að hv. þm. S.-Þ. er kominn á þá skoðun, að þörf hafi verið á vegna fjárhags ríkissjóðs að draga úr landhelgisgæzlunni. Batnandi manni er bezt að lifa, en margar eru skammagreinarnar, sem hann hefir skrifað um mig af því að ég dró úr gæzlunni. Nú mælir hann sjálfur með þessari ráðstöfun minni.

Till., sem hv. þm. sagði að lægi fyrir fjvn., get ég ekki séð, að komi neitt þessu máli við. Það er auðvitað, að héruðin, sem að byggingu björgunarskútnanna standa, hafa talið þörf fyrir þær, hvert á sínu svæði og munu þau því áreiðanlega vilja hafa íhlutun um rekstur þeirra. Annars býst ég ekki við, að ríkið geti í náinni framtíð haldið úti þremur varðskipum. — Ég vil svo aðeins endurtaka það, sem ég hefi áður sagt um þetta frv., að mér finnst vera farið þar of hátt í launagreiðslum. Ég ætla að sjá samkvæmnina í þessu launamáli hjá stjórnarfl., og mun því ekki greiða atkv.