27.10.1934
Efri deild: 23. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1863 í B-deild Alþingistíðinda. (2756)

75. mál, varðskip landsins og skipverja á þeim

Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Hv. l. þm. Skagf. drap á tvö atriði, sem sérstaklega skipta máli. Skal ég víkja nokkrum orðum að hvorutveggja.

Hvað það snertir, að frv. hafi í för með sér launahækkun til handa starfsmönnum varðskipanna, vil ég endurtaka það, sem ég hefi áður sagt um þetta, en aðeins undirstrika það, að ég tel það ekki sæmandi fyrir ríkið að borga lægri laun en einstaklingar gera, fyrir vinnu, sem sízt er betri eða skemmtilegri. Á það er einnig að líta, að um flesta embættismenn, er í landi vinna, er það svo, að þeir hafa allskonar störf með höndum utan hjá og geta með því móti komið launum sínum á það stig, sem hæfilegt má þykja. Hinsvegar hafa sjómennirnir ekkert nema sín föstu laun og eru útilokaðir frá að geta skapað sér slíkar aukagetur. Þetta eitt atriði út af fyrir sig myndi réttlæta það að hafa laun þeirra hærri en annara starfsmanna ríkisins. Ennfremur kemur það til greina, að embættismenn í landi hafa vissu fyrir að halda embættum sínum á meðan þeir hafa heilsu til að gegna því. (MG: Sérstaklega ráðh.). Rétt er það, að þetta nær ekki til þeirra. (JBald: Sem betur fer!). Já, ég get tekið undir það með hv. 4. landsk. þm. — Þá vil ég einnig benda á það, að embættismenn í landi hafa fullt af möguleikum til þess að „hækka í tigninni“ og komast í betri stöður. Héraðsdómarar geta orðið hæstaréttardómarar o. s. frv. En slíkt kemur ekki til greina fyrir sjómennina. Stýrimennirnir á varðskipunum geta engar vonir gert sér um að verða skipstjórar. Þeir verða að sætta sig við að vera stýrimenn alla æfi. Og það er jafnvel ekki svo, að þeim sé tryggt það, því að eins og hv. þm. S.-Þ. drap á, getur að því rekið, að fækka verði skipunum við landhelgisgæzluna — og þá verður að segja nokkrum af þessum mönnum upp atvinnunni og reka þá út á gaddinn.

Að því er skipunarbréfin snertir skal ég ekki deila við hv. 1. þm. Skagf. um þau. Hann er lögfræðingur og ber þar af leiðandi betra skynbragð á þessa hluti. En ég bar þetta atriði einmitt undir lögfræðinga, og þeir sögðu mér, að þar sem hér væri um árslaunamenn að ræða, væri grundvellinum kippt undan stöðum þeirra með nýju launafyrirkomulagi. Till. okkar hv. 4. landsk. þm. er einmitt borin fram til þess að tryggja þessum mönnum áfram vinnu hjá ríkinu, a. m, k. á meðan ríkið ræður yfir þessum skipastól. Ég vil einnig benda á það í þessu sambandi, að á meðan ríkið heldur uppi strandferðum kringum landið, er einmitt gott fyrir það að geta gripið til þessara manna, til þess að leysa þá af hólmi, sem eru í fríum eða frá vinnu af einhverjum öðrum ástæðum. Ella yrði að taka nýja menn, ef ekki er hægt að grípa til þessara.

Að lokum vil ég aðeins skjóta því til hv. 1. þm. Skagf., að þegar launamálið í heild sinni verður hér til umr., mun ég hafa mína skoðun á því, hvar eigi að lækka og hvar ekki að lækka.

Þá vil ég víkja nokkrum orðum að hv. þm. S.-Þ. — Ég lít svo á, að það sé ekki tímabært að fara að ræða hér framtíðarskipulag landhelgisgæslunnar. Sú hugmynd, sem hv. þm. varpaði hér fram, er ekki ný. Ýmsum hefir dottið hún í hug áður. En þótt hér sé um hugsanlega leið að ræða, er þetta þó ekki nægilega athugað, og ýmsir agnúar á framkvæmdinni, eins og þetta er hugsað. Getur þar margt komið í veginn. Eins og björgunarskútan hér við Faxaflóa t. d. hefir verið hugsuð, er ekki hægt að sameina þetta tvennt: landhelgisgæzlu og björgunarstarfsemi. Ef það á að gera, verður að hafa annað form á henni en ráðgert hefir verið. Þá er og annað, sem hér kemur til greina og er það, að ekki er víst, að Slysavarnafélag Íslands, sem þetta mál heyrir undir, vilji afsala sér þannig yfirráðum, yfir björgunarskútunni. Þá kemur og það enn til, að skútan verður ekki byggð fyrr en nægilegt fé hefir safnazt í því skyni, og ennþá vantar töluvert á, að svo sé. Samkv. lauslegri áætlun verður rekstrarkostnaður björgunarskútunnar um 50 þús. kr., og er sú áætlun miðuð við, að skútan verði eingöngu notuð við björgunarstarfsemi. Ef jafnframt á að nota hana til gæzlu, verður kostnaðurinn meiri, það eyðist meira af brennsluefni og ennfremur þarf meiri mannskap. Það er mín skoðun, að erfitt verði og að framkvæma þessa sameiningu. Það verður erfitt að koma því við að láta sama skipið starfa að björgunarstarfsemi við strendur landsins og jafnframt hafa landhelgisgæzluna með höndum. — Ég vildi aðeins drepa á þessi atriði vegna ræðu hv. þm. S.-Þ., en ég sé ekki ástæðu til að fara frekar út í málið á þessu stigi þess. Hér er og um mál að ræða, sem ekki verður ráðið til lykta á þessu þingi, heldur verður athugun á því að fara fram milli þinga. Verður vel að vanda til framtíðarskipulags þessara mála og vandlega að athuga, hvernig þeim verði bezt fyrir komið, svo að almenningur í landinu megi vel við una.