27.10.1934
Efri deild: 23. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1865 í B-deild Alþingistíðinda. (2758)

75. mál, varðskip landsins og skipverja á þeim

Jónas Jónsson:

Ég vildi aðeins leiðrétta misskilning, sem fram kom í ræðu hv. 1. þm. Skagf. Hv. þm. taldi, að hann hefði orðið að þola krítík af minni hendi fyrir yfirstjórn landhelgismálanna, og er þetta rétt. En það er misskilningur, að sú krítík hafi staðið í sambandi við þann sparnað, sem hv. þm. neyddist til að framkvæma. Og þó var sá sparnaður, sem hægt er að þakka hv. þm. í þessum efnum, tiltölulega lítill, af því að skipunum var ekki lagt upp. Það kann að mega virða það til betra vegar fyrir hv. þm., að hann gerði þetta ekki út frá því sjónarmiði, að hér hafi verið um dýrtíðarráðstöfun eða atvinnubætur að ræða, og sýnir þetta þá, að hv. þm. hefir gott hjarta, en hitt er annað mál, að þessi ráðstöfun var ekki eins góð fyrir ríkissjóðinn.