29.11.1934
Sameinað þing: 16. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 225 í B-deild Alþingistíðinda. (277)

1. mál, fjárlög 1935

Frsm. minni hl. (Magnús Guðmundsson):

Ég hafði að sönnu ekki hugsað mér að taka til máls fyrr en allir þeir hefðu talað, sem lagt hafa fram brtt. En mér þykir ekki hlýða að láta slíta umr. nú þegar, og skal ég því að því er mig snertir segja nokkur orð til andsvara framkomnum andmælum.

Hæstv. fjmrh. mælti gegn till. minni hl. og var dálítið reiður við mig, en ég skal ekki fara langt út í það. Ég hefi áður bent á viðvíkjandi símalínunum, að við í minni hl. þóttumst vera að styðja stefnu stj. um að minnka kaup á erlendri framleiðslu. Hæstv. fjmrh. tekur þetta illa upp og segir, að það sé eftir að byggja stórar línur. Ég hefi hér fyrir framan mig till. landssímastjóra um 20 línur, er næst skuli byggja. Ef teknar eru frá þær 4 símalínur, sem minni hl. vill láta byggja, þá eru hinar allar, að undanteknum 3, undir 10 þús. kr. Þetta sýnir, að landssímastjóri leggur ekki til að byggja neinar stórar línur á næsta ári, og sýnir, að það er rétt, sem ég sagði, að bygging símalínanna er komin svo langt, að ekki þarf að byggja stórar línur á næstunni.

Það er rétt, og það skal ég viðurkenna, að víða er mikil þörf fyrir einkasíma í sveitum, og það þarf að leggja fram til þeirra, en það snertir ekki þennan lið fjárl. Um það eru sérstök lög og fjárveiting á öðrum lið. Ég gæti trúað því, að sú fjárveiting, sem til þess er ætluð, mundi reynast heldur lág. Ég skal viðurkenna, að þörf er ýmsra minni símalína, en ég tel, að leggja beri meiri áherzlu á að fjölga línum víða á þeim stauralínum, sem þegar eru reistar. Þess þarf til þess að langlínurnar njóti sín. Hann var ákaflega sár, hæstv. ráðh., út af því, sem ég sagði um áætlað vegafé til Austfjarða, og sagði, að Austfirðingar hefðu verið settir hjá áður. Ég skal minna á það, að 1933 voru lagðar fram 50 þús. kr. til vega á Austfjörðum umfram heimild fjárlaganna, svo ég held, að ekki sé hægt að segja, að það sé vilji minn, að Austfirðingar séu settir hjá, eða ég hafi dregið úr fjárveitingu til þeirra sem ráðh. Ég verð að segja það, að mér finnst rétt að taka tillit til þess, að á veginum norður og austur eru stórir kaflar ógerðir, sem þarf að gera. Má þar nefna Holtavörðuheiði, sem oft er illfær, Vatnsskarð, sem er mjög erfitt, og enginn almennilegur vegur, og svo Öxnadalsheiði, sem er slæmur vegur yfir. Á meðan svo er, að ekki eru komnir góðir vegir alla langleiðina, álít ég, að leggja beri mesta áherzlu á að fullgera þá vegi sem fyrst; þess vegna er ég fjvn. sammála að taka 10 þús. kr. fjárveitingu frá Vatnsskarði, og setja þær heldur í Holtavörðuheiði, af því þar kemur það að meiri notum, en fjárveiting til vegar yfir Vatnsskarð kemur ekki að gagni fyrr en handbærar eru 30 þús. kr., því þá fyrst er hægt að fullgera nýja veginn, svo hann komist á gamla veginn. Ég er þess vegna, eins og ég sagði, nefndinni sammála um þetta, með það fyrir augum, að á næstunni komi hærra framlag til vegar á Vatnsskarð, svo hægt sé að gera langan veg, sem kæmi strax að notum. Ég gekk í n. inn á að flytja þær 10000 kr., sem ætlaðar væru í frv. til Vatnsskarðsvegar, til Holtavörðuheiðarvegar, því að þar koma þær strax að notum. Með þessu hefi ég sýnt, að kjördæmareipdráttur er fjarri mér. Ég skeyti því þess vegna engu, þó hæstv. ráðh. sé reiður við mig og minni hl. fjvn. Við leggjum ekki til, að neinar till. séu strikaðar út, vegna þess að við ætlum stj. að sjá um auknar tekjur, en ef það er ekki gert, þá er óhjákvæmilegt að lækka eitthvað áætlun hæstv. stj. Hæstv. fjmrh. heldur auðvitað, að það sé eingöngu af löngun til að narta í stj., að við flytjum okkar brtt. En það er ekki; mig langar ekkert sérstaklega til þess, þó ég ætli hinsvegar ekki að hæla stj., en ég taldi skylt að benda á það framlag, sem ætlað er í hans kjördæmi. Ef maður ber það saman við Rangárvallasýslu, þá er útkoman sú, að hann hefir margfaldað framlagið til síns kjördæmis með 7, en deilt með 7 í framlagið til Rangárv.s., hvortveggja miðað við tillögur vegamálastjóra. Ég held því fram, og það hefir verið viðurkennt, að till. vegamálastjóra séu ekki byggðar á hlutdrægni. Ástæðunnar til þessa mismunar hjá hv. meiri hl. fjvn. og hæstv. stj. verður því að leita annarsstaðar. Hv. 6. landsk. hafði í n. ýmislegt út á till. hæstv. stj. að setja um vegafjárveitingar á Austurlandi. Hann fékk þetta náttúrlega lagfært, af því hann er í stjórnarflokk. En það var tiltölulega lítið, sem minni hl. n. hefir fengið lagfært. Þó skal geta þess, sem gert er vel, og þakka að verðleikum, að framlag fékkst til vegar í Borgarfirði og í Dalasýslu. Hæstv. fjmrh. sagði, að við vildum taka allar fjárveitingar úr S.-Múlasýslu. Þetta er ekki rétt, það liggja ekki fyrir neinar till. frá minni hl. um að taka vegafé frá S.-Múlasýslu (Fjmrh.: Veit þm. ekki, hvað hann sagði?). Jú, ég man vel, hvað ég sagði, en hæstv. ráðh. veit sjáanlega ekki, hvaða till. liggja hér fyrir. Hitt er annað mál, að ég er frjáls að því að sýna fram á, að ég tel hlutdrægni beitt í útbýtingu vegafjárins.

Hæstv. fjmrh. sagði, að ég hlyti að gleðjast yfir því, að engin brtt. kæmi fram frá þm. stjórnarflokkanna. Ég geri hvorki að gleðjast né hryggjast; mér er svo sem alveg sama. Ég hefi bent á, að ástæðurnar fyrir því gætu verið tvær. Önnur sú, að búið væri að fullnægja öllum óskum þeirra, eða þá hin, að þeim hefði verið bægt frá því með flokkssamþykkt. Ég hygg, að ekki geti verið um aðrar ástæður að ræða. Þeir geta sjálfsagt sagt, hvor ástæðan er, en ég get ekki fundið fleiri. Hann segir, hæstv. fjmrh., að hv. fjvn. ráði hér eins og í öðrum fjármálum ríkisins. Það er nú svo. Ég held, að tæpast sé hægt að segja það, þegar tillögurnar eru, áður en þær koma til atkv. í fjvn., komnar undir atkv. í flokkunum. Með þessu móti getur farið svo, að till.samþ. eða felld, sem ekki nema rúmlega ¼ hluti þingsins er með eða móti. Þessari reglu hefir aldrei verið fylgt, svo ég viti, hér á þingi fyrr. Hæstv. ráðh. sagði, að það yrði að vera svo. Ég efa ekki, að búið er að binda þetta fast, en hingað til hefir það ekki verið svo á Alþ. Íslendinga.

Hv. frsm. meiri hl. n. fór nokkrum orðum um þær till. n., sem ég andmælti. Skal ég þá fyrst nefna lækkunartill. hjá ríkisféhirði. Mér skildist, að meiri hl. hafa byggt sínar till. á því, að launin hafi áður verið of há hjá ríkisféhirði og hærri hjá sumum undirmönnum en hjá ríkisféhirði sjálfum. Þetta er alveg rétt, en hinu má ekki gleyma, að hæstv. ráðh. hækkaði sjálfur launin hjá einum undirmanni, sem þarna vinnur, svo þau eru talsvert hærri en laun ríkisféhirðis. Þess vegna er ekki hægt að nurla með till. á þessum grundvelli, nema um leið að víta hæstv. fjmrh. En ef þeir vilja samræma launin, þá er ég sannfærður um, að enginn sparnaður verður á þessum lið.

Um till. fjvn. um viðbótaraths. viðvíkjandi Reykjahæli er það að segja, að ef meiningin með henni er ekki sú, að fangar frá Litla-Hrauni taki vinnu frá verkamönnum, þá er hún hreinasta vitleysa. Ég sé sem sé ekki, hvað er hægt að láta þá gera án þess að taka einhver verkefni frá öðrum handa þeim. Ég hefi séð það í blöðunum, að kvartanir hafa komið frá verkamönnum á Eyrarbakka um að fangar á Litla-Hrauni hafi tekið af þeim atvinnu þar. Ef svo er, að ekki má láta fangana taka neina vinnu þarna eystra, skil ég ekki, hvað á að gera við þá, nema ef það er meiningin, að þeim sé fengið eitthvert innanhússdútl. Í tíð fyrri stj. hafa fangarnir verið látnir vinna hingað og þangað alla venjulega vinnu, og ekki fundið að fyrr en nú.

Um Nýja-Klepp er það að segja, að mér finnst lækkunartill. ósköp meinlítil. Ég skil, að hún er gerð til að þóknast einum ákveðnum manni, og mun ég ekki fást um það, því að borgað verður til spítalans jafnmikið fyrir því.

Hv. frsm. sagði, að landlæknir hefði ekkert um spítalann að segja. Þetta er náttúrlega ekki rétt, en ég skildi landlækni þannig, að hann hefði ekki búið til áætlunina fyrir spítalann, heldur ráðsmaðurinn, og hann hefir miðað við kostnaðinn, sem varð áður. Það er rétt, að landsspítalinn er stærri og þar liggja fleiri sjúklingar, af því þar skiptir oftar um þá, en ég hygg, að sjúklingafjöldi hafi hlutfallslega hækkað meira á Nýja-Kleppi en landsspítalanum, enda miklu fleiri sjúklingum batnað síðan yfirlæknaskipti urðu.

Ég álít, að fjárframlögin til vega á Austurlandi séu í fullu ósamræmi við fjárframlög til vega í öðrum landshlutum, þó hv. þm. N.-Þ. þætti ég vera of harðorður um það. Ég vil minna á, að vegamálastjóri er allra manna kunnugastur vegunum á landinu, og það er viðurkennt, að hann sé óhlutdrægur. Hví á þá að ganga framhjá tillögum hans? Það getur þá eingöngu verið af hlutdrægni. Þó að bent hafi verið á, að færri akfærir vegir eru á Austurlandi en annarsstaðar, þá sannar það ekkert, og er reyndar ekki heldur rétt, sbr. t. d. Vestfirði, enda eru ófullgerðir vegir um þvert landið. Ég benti á áðan, að Austfirðingar, sem ferðast í bíl hingað, njóta hlunninda af vegunum, sem liggja um aðrar sýslur. Við skulum taka sýslu eins og Húnavatnssýslu. Vegurinn er lagður þar í stórum sveig eftir sýslunni, en hann er ekki lagður þannig vegna sýslunnar eingöngu, heldur aðallega vegna langferðalaga. Af því Austfirðingar eru þannig settir, að þeir eru á leiðarenda, hefir verið lögð meiri áherzla á vegina, sem liggja til þeirra, heldur en vegina, sem eru hjá þeim sjálfum. Það ber líka að líta á það, að haldið er uppi dýrum strandferðum af ríkinu vegna Austfjarða. Ef maður ber þetta saman við t. d. Árnessýslu, Rangárvalla- og Skaftafellssýslur, þá sést strax, að þær njóta ekki góðs af strandferðunum. Ef gengið væri eins hart að af hálfu þeirra, sem búu á Suðurlandsundirlendinu, og nú er gert af Austfjörðum, þá gæti ég trúað, að fjárveiting yrði á fjárl. til nýs vegar yfir Hellisheiði. Það getur farið svo oft, að ómögulegt sé að komast úr þessum sýslum mikinn hluta vetrar, til Rvíkur, og þó er þessi partur landsins einhver beztu landbúnaðarhéruð þess. Það dugir þess vegna ekki eingöngu að leggja vegina í þessu og þessu héraði, án þess að taka tillit til þess, hvernig samgöngur héraðanna eru, hversu fjölfarnir vegirnir eru og hve mikið þarf að flytja á þeim.

Hv. frsm. ræddi um, að brúarféð hefði ekki farið austur. Þar væri hvorki mikið um brúargerðir né heldur vegaviðhald. Það síðara er rétt. Eftir því sem vegirnir eru minni, verður viðhaldið minna.

Um brúarféð er það aftur á móti að segja, að það var notað á síðustu árum í mjög stórum stíl. En það var lagt fram af héruðunum sjálfum. Það er ekki hægt að finna betri mælikvarða á þörfina heldur en þann, að héruðin leggi sjálf fram fé til þessa, því að á öðrum eins krepputímum og við eigum nú við að búa, býst ég ekki við, að héruðin geri það nema full ástæða sé til og bersýnileg þörf fyrir hendi. [Fundarhlé].

Það eru nú svo fáir viðstaddir hér, að það liggur við, að það dragi úr mér allan kjark, og ég verð því stuttorður. — Ég var að svara hv. frsm. meiri hl. og hafði lokið við að tala um vegina. Ég sný mér þá að samgöngunum á sjó, en hv. frsm. meiri hl. taldi, að eigi væri hægt að komast af með þá upphæð, er minni hl. leggur til að veitt verði. Það er þó svo, að árið 1935 er eftir till. okkar minni hl. n. veitt 35 þús. meira í þessu skyni en árið 1933 var notað, og ætla ég, að við það megi una. Það má náttúrlega segja, að það sé gott að auka skipagöngurnar kringum landið, en mér finnst, að nokkuð megi, að skaðlausu, draga úr þeim á sumrin, sökum þess hvað landferðirnar aukast mikið. Mér finnst, að ef það á að spara, þá sé það hægt hér, en það er kannske alls ekki meiningin að spara, og þá verður þessi till. drepin.

Þá er það styrkurinn til sjúkrahússins á Reyðarfirði. Hv. frsm. meiri hl. viðurkenndi, að það væri rétt, að landlæknir hefði sagt, að þessi upphæð yrði ekki notuð á næsta ári. Samt er talað um fjandskap af okkar hálfu til þessa máls, þótt þessir menn viðurkenni um leið, að það komi ekki til þess, að styrkurinn verði greiddur á árinu.

Ég mun eigi fjölyrða um þetta. Það er rétt hjá hv. frsm. meiri hl., að peningarnir étast ekki upp, þótt þeir standi í fjárl., en ég hélt, að meiningin væri sú, að setja ekki önnur gjöld í frv. en þau, sem á að greiða.

Hv. þm. N.-Þ. þótti við naumir í tillögum til samgangna, síma og strandferða. Mér finnst það nú ekkert undarlegt, þótt skera þurfi niður útgjöld í neyðarári eins og nú er. Hér er ekki um neinn atvinnumissi að ræða, heldur tap á skipaferðum, og hvað símann snertir aðallega kaup á efnivörum frá útlöndum. Ég var ekki að telja eftir framlög til Norður-Þingeyinga, það sem ég sagði um N.-Þingeyjarsýslu, átti við frv. eins og það kom frá stj.

Viðvíkjandi öðrum brtt., sem fram hafa komið, lít ég svo á, að sumar þeirra eigi eins mikinn rétt á sér eins og till. hv. fjvn. Ég mun hinsvegar ekki taka þessar till. til athugunar nú; sumar þeirra hafa verið teknar aftur og öðrum hefir ekki enn verið mælt fyrir. Ég skal því ekki tefja meira tímann í bili.