29.11.1934
Sameinað þing: 16. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í B-deild Alþingistíðinda. (278)

1. mál, fjárlög 1935

Garðar Þorsteinsson [óyfirl.]:

Ég ber fram eina brtt. við þennan kafla, viðvíkjandi vegi yfir Siglufjarðarskarð. Siglfirðingar hafa lengi barizt fyrir því að fá samband landveginn við Skagafjörð. Þeir hafa því snúið sér til stj. með málaleitun um fé til vegar yfir Siglufjarðarskarð. Það er nú svo komið, að stj. hefir veitt 5 þús. í atvinnubótafé til þessa vegar, en lofað 10 þús., og þótt enn hafi ekki verið unnið fyrir nema 5 þús. af þessu fé. er heimild til, að það megi vinnast að vori. Undirbúningur er því hafinn og vegamálastjóri hefir gert kostnaðaráætlun; er hún nokkuð há, eða nemur 340 þús. kr. Stj. hefir hinsvegar gengið inn á, að þessi vegur skuli lagður, bæði með þessum 10 þús. kr., er hún þegar hefir lagt til vegarins, og eins með þeim 15 þús. kr., er veittar eru til vegarins í fjárl. fyrir árið 1935. Ég verð hinsvegar að telja þessa upphæð óhæfilega lága, því ef eigi væri veitt meira fé til vegarins árlega, mundi það taka 20 ár að leggja hann.

Til marks um áhuga Siglfirðinga fyrir þessum vegi má geta þess, að þeir hafa gefið til hans 3500 dagsverk, 100 bíladagsverk og lagt til hans um 44 þús. kr. í peningum. Mér finnst það ekki vansalaust fyrir hv. Alþingi, ef það vill ekki styrkja þennan veg nema sem svarar 1/3 þess, sem Siglfirðingar hafa gefið til hans. Það er mikið atriði fyrir Siglfirðinga að komast í samband við Skagafjörð, en það er það ekki síður fyrir sveitir Skagafjarðar, sem á Siglufirði gætu haft markað fyrir vörur sínar, ef vegleysur hömluðu ekki. Þá má geta þess, að Siglufjarðarbær er vaxandi og dafnandi kauptún og því eðlilegra, að hann geri kröfu til ríkisins um hjálp til vegarins.

Ég hefi komið fram með þá till., að veitt verði til vegarins á næsta ári 55 þús. kr. úr ríkissjóði. Mér skilst, að eigi ekki því fleiri ár að fara í það að leggja veginn, þurfi að veita þessa upphæð árlega. Upphæð fjvn. er að vísu þakkarverð, en það er ekki sýnilegt, að af svo litlu fé geti veginum miðað áfram svo nokkru nemi. Það væri því æskilegt, að upphæðin gæti orðið eins há og till. mín fer fram á. Það er ekki deilt um það, að leggja eigi þennan veg, það er þegar búið að ákveða það með framlagi stjórnarinnar. Nú er orðinn verulegur fólksstraumur norður á sumrin. Vegurinn yfir Öxnadalsheiði er bæði langur og leiðinlegur og illa lagður. Það er athugandi, hvort túristarnir mundu ekki, er þessi vegur er kominn, breyta ferð sinni og fara frá Skagafirði til Siglufjarðar, og svo þaðan til Akureyrar. Frá Siglufirði ganga yfir sumartímann daglega skip til Akureyrar, og ef túristarútan lægi yfir Siglufjörð, mundi verða enn meira vandað til þessara ferða en nú er. — Ég skal svo ekki fjölyrða meira um þetta, en ég þykist a. m. k. vita, að hv. þm. Skagf. og hv. þm. Eyf. muni fylgja þessu máli, svo mjög sem það snertir hagsmuni kjördæma þeirra.