06.12.1934
Efri deild: 54. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2024 í B-deild Alþingistíðinda. (2785)

170. mál, Byggingarfélag Reykjavíkur

Frsm. (Jón Baldvinsson) [óyfirl.]:

Í raun og veru gæti ég látið mér nægja að vísa til grg. frv., því að þar eru þær upplýsingar, sem hægt er að flytja í málinu. Ég vil þó bæta því við, að þegar stofnað var Byggingasamvinnufélag Reykjavíkur, var vöxtur bæjarins einna örastur. Gátu ekki aðrir en þeir, sem voru vel kunnugir í bænum, gert sér grein fyrir þeirri húsnæðisþörf, sem þá var. Félagið fékk upphaflega stuðning bæjarstj. Rvíkur til þess að koma upp húsum, og reisti það 3 timburhús eftir beinni áskorun bæjarstj. Það voru víst hin þyngstu hús, sem félagið hefir reist, og þykir því sanngjarnt, að þessi hús njóti góðs af lánum þeim, sem nú er verið að stofna til úr byggingarsjóði. Lán félagsins hafa yfirleitt verið slæm, mest víxillán með miklum vöxtum. Ef félagið hefði upphaflega verið látið búa við svipuð kjör og verkamannabústaðirnir, hefði ekki þurft að koma til þessa.

Fjhn. þessarar d. hefir stutt frv. Hefir orðið samkomulag um þetta milli mín og borgarstjóra Rvíkur. Myndi félagið komast aftur á réttan kjöl, ef það fengi þá upphæð, sem hér er farið fram á, og með svo vægum kjörum sem frv. gerir ráð fyrir. Vona ég, að málið gangi greiðlega gegnum þingið, því að ég geri ekki ráð fyrir, að það muni mæta verulegri mótspyrnu.