29.11.1934
Sameinað þing: 16. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í B-deild Alþingistíðinda. (279)

1. mál, fjárlög 1935

Ásgeir Ásgeirsson [óyfirl.]:

Ég flyt hér tvær brtt. Önnur er um framlag til hafnarbóta á Suðureyri við Súgandafjörð. Hafnleysur eru þarna miklar í norðvestanátt og höfnin hefir grynnzt, svo að bátum er ekki óhætt þar í vondum veðrum. Þarna er eitt hið bezta fiskipláss á landinu og ekki nema stundarfjórðungs róður á miðin. Í heilan róður fara ekki nema 10—12 tímar, enda er afli á bát, eftir stærð, mestur í Súgandafirði. Það er því nauðsyn að bæta höfnina, svo að bátum sé þar óhætt. Súgfirðingar eiga nú um 12 þús. kr. í hafnarsjóði og geta bætt við þá upphæð einhverju. Er það till. mín, að ríkið leggi jafnt til móts við þá til hafnarbótanna. Súgfirðingar telja framtíð sína mjög undir þessu komna, og verður ekki annað séð en þeir hafi hér líkan rétt og t. d. Bolvíkingar.

Hin till. mín er um framlag til Breiðadalsheiðarvegar. Svo sérstaklega stendur á, að vegamálastjóri hefir ekki lagt fram neinar till. um fjárveitingar til Vestur-Ísafjarðarsýslu, og eru þær því ekki teknar upp í frv. Það sjá allir, hve ósanngjarnt þetta er, þegar þess er gætt, að Vestfirðingar hafa jafnan verið afskiptir af öllu vegafé. Ég játa, að þetta hefir viljað bregða við hvað snertir Austfirðinga líka, en þegar Múlasýslunum hefir verið bætt upp þessi vanræksla, þá hvílir sú sama skylda á um Ísafjarðarsýslur. Till. mín er sízt of há, en þó skal ég geta þess, að ég væri tilleiðanlegur að lækka þessa fjárhæð, ef þetta fengist frekar samþ. með því. Þessi vegur kemur báðum sýslunum að gagni, og sömuleiðis Ísafjarðarkaupstað. Báta- og skipaferðir þarna hrökkva ekki til mannflutninga, og afurðaflutningar á sumrin geta ekki átt sér stað fyrr en vegurinn er kominn. Þessi vegur verður mikil samgöngubót, er hann er kominn á, og kemur til með að kosta a. m. k. 60 þús. kr. Ég vil vænta hins bezta um þessa till. mína, en er hinsvegar fús til samninga um niðurfærslu, ef frekar má vænta samþ. með því.

Ég vil minnast nokkuð á brtt. frá meiri hl. fjvn. um niðurfærslu á fjárframlagi ríkisins til ríkisféhirðis. Ég þykist ekki geta látið þá brtt. afskiptalausa, þar sem ég réð núv. féhirði og fulltrúa hans. Ég rannsakaði þá, hvort nokkur leið væri til að spara kostnað við þetta embætti, og sá ekki, að svo væri. Ríkisféhirðisembættið var veitt ungfrú Ástu Magnúsdóttur, sem lengi hafði verið fulltrúi hjá fyrrv. ríkisféhirði, en Sigurður Ólason lögfr. var ráðinn fulltrúi í hennar stað. Það var ekki rétt með farið, að sá fulltrúi hefði hærri laun en ríkisféhirðir. Í þessari stofnun er aðeins einn fulltrúi, í ríkisbókhaldinu, sem hefir hærri laun en ríkisféhirðir. Ríkisféhirðir hefir auk launa sinna mistalningarfé, sem líklegt er, að eitthvað gangi af. Laun Sigurðar Ólasonar fulltrúa urðu að vera í samræmi við laun fyrir sama starf annarsstaðar. Endurskoðandinn, Jón Guðmundsson, telur, að alls ekki sé hægt að fækka starfsfólki hjá ríkisféhirði. Ég þykist þess fullviss, að hæstv. stj. fari ekki að víkja fulltrúanum frá, til að taka annan í stað hans. Till. ætti því að falla, til þess að í fjárl. sé sem réttust mynd af kostnaði við þessa stofnun.