29.11.1934
Sameinað þing: 16. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 231 í B-deild Alþingistíðinda. (280)

1. mál, fjárlög 1935

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það hefir kastazt í kekki með mér og hv. frsm. minni hl. út af því, að hann hélt því fram, að ég hefði sýnt hlutdrægni við samningu fjárlfrv. á þann hátt, að ég hefði otað óhæfilega fram kjördæmi mínu bæði um vegafé og aðrar fjárveitingar. Þótt hv. frsm. minni hl. sé nú í raun og veru búinn að taka þessar aðdróttanir sínar aftur, vil ég ekki liggja undir þeirri ásökun, að ég hafi notað aðstöðu mín sem ráðh. til þess að afla kjördæmi mínu fjár úr ríkissjóði á kostnað annara kjördæma. Ég benti á það, að till. vegamálastjóra hefðu ekki verið sanngjarnar í garð Suður-Múlasýslu. Minni hl. n. hefir aftur á móti aðhyllzt þessar till. í flestum atriðum. Þó sagði hv. frsm. minni hl. áðan, að eftir meðferð meiri hl. fjvn. á till. um vegafé hafi hann ekki séð ástæðu til þess að bera fram brtt. Með því hefir hann viðurkennt, að hann hafi ofmælt allt það, sem hann sagði um hlutdrægni mína. Því að í brtt. meiri hl. er gert ráð fyrir, að af vegafénu, sem eftir þeim verður 380 þús., gangi 35 þús., eða 9,2%, til Suður-Múlasýslu, en eftir fjárlfrv. áttu 20 þús. kr. af 240, eða um 8%, að ganga þangað. Hv. frsm. hefir því játað alveg skýrum stöfum, að árás hans á hendur mér hafi verið gersamlega tilefnislaus.