10.12.1934
Efri deild: 57. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2025 í B-deild Alþingistíðinda. (2800)

170. mál, Byggingarfélag Reykjavíkur

Frsm. (Jón Baldvinsson) [óyfirl.]:

Ég held, að það sé misskilningur hjá hv. 2. þm. Rang., að það sé verið að misnota byggingarsjóðinn, þó þetta frv. sé samþ. Þetta byggingarfélag var stofnað til þess að bæta úr ennþá brýnni húsnæðisþörf heldur en nú á sér stað, og þetta mundi verða til þess að bæta úr húsnæðisvandræðum með því að bæta í húsin ýmsum þeim nýjungum, sem nú þykja nauðsynlegar. Ég get ekki betur séð en að það þjóni fullkomlega þeim tilgangi, sem gert er ráð fyrir með byggingarsjóðunum, og mér skilst, að þetta félag hefði og átt að verða þeirra lánskjara aðnjótandi, sem Byggingarfél. verkamanna hefir nú fengið. Það er langt síðan farið var að tala um, að þetta félag fengi lán úr byggingarsjóði, en stjórn sjóðsins hér í Rvík hefir ekki talið sig hafa heimild til þess í l., nema því aðeins, að sérstök ákvæði væru sett um það, og þess vegna er þetta frv. flutt. Borgarstjórinn í Rvík hefir fyrir nokkru farið fram á það við stjórn sjóðsins, að hann veitti þessu félagi svo hagstæð lán, að það gæti starfað áfram. En fáist ekki slíkt lán sem hér er um að ræða, þá mun þetta félag verða áfram byrði á bænum, en það mundi geta með slíkum lánakjörum bætt hús sín, sem voru byggð á dýrum og erfiðum tímum og að sumu leyti af vanefnum. Væri hægt að laga húsin þannig, að þau gætu staðið undir sér sjálf, mundi vera þjónað tilgangi l. um byggingarsjóð, með því að bæta þau hús, sem reist voru í sama tilgangi og verkamannabústaðirnir, en undir ennþá erfiðari kringumstæðum.