08.12.1934
Neðri deild: 54. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1870 í B-deild Alþingistíðinda. (2804)

75. mál, varðskip landsins og skipverja á þeim

Pétur Ottesen:

Ég skal ekki eyða mörgum orðum í að ræða um þetta mál. Það liggur svo ljóst og opið fyrir, hvort eigi að bíða eða taka þennan flokk út úr. Hv. 3. landsk. sagði, að ég vildi skera niður frv. með hinni rökst. dagskrá. En tilgangur minn með henni er einungis sá, að þessu máli verði frestað til næsta þings, og að þá verði þetta tekið fyrir ásamt öðrum liðum launalaganna. Mþn. í launamálum hefir tekið kjör þessara manna til athugunar eins og annara manna, sem taka laun sín úr ríkissjóði.

Það hefir verið talað um, að það væri ósamræmi milli launa manna á strandferðaskipunum og varðskipunum, og er ekki hægt að mótmæla því. En það er víða í launagreiðslum ríkissjóðs meira ósamræmi, og það var auðvitað einn veigamikill þáttur í því, að skipuð var mþn. til að athuga launamálið. Og mér finnst því eðlilegt, að því sé frestað að taka ákvörðun um kaupgjald til þessara manna, þangað til launalöggjöfin í heild verður tekin til athugunar. Ég hygg, að það sé ekki svo verulegt atriði, að það þurfi að flytja yfirmenn milli skipa, að afgreiðsla málsins geti ekki vel beðið þess vegna. — Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta. En þetta mál er svo vaxið, að ég held því fram, að ákvarðanir um það eigi að taka í sambandi við skipun launalaganna yfirleitt.