27.10.1934
Neðri deild: 21. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1873 í B-deild Alþingistíðinda. (2815)

71. mál, fiskimatsstjóri

Jón Ólafsson:

Ég kann ekki við að láta þetta mál fara svo frá þessari umr., að ég fari ekki um það nokkrum orðum. — Þetta er gamall kunningi frá 1927, og var þá drepið í þessari hv. deild. Ég hefi nú verið að velta fyrir mér, hver ástæða væri til þess, að nú væri þetta frv. komið fram enn á ný og menn fylgdu því nú af móði, þar sem allar þær ástæður eru óraskaðar, sem voru fyrir hendi 1927, að öðru leyti en því, að nú er komin einkasala á fiski. En það hafa líka komið fram á fisksölunni — eins og allir máttu búast við — allir þeir gallar, sem einkasölu jafnan einkenna. Allir, sem við hana skipta, sérstaklega utanlands, finna að öllu og reyna að gera kröfur frá öllum hliðum. En þegar menn svo ætla að bæta úr, athuga þeir lítið, hvað þeir eru að gera. Mönnum dettur nú í hug að setja á þetta fyrirkomulag einhverja húfu til að punta upp á. En sannleikurinn er sá, að reynslan hefir sýnt okkur svo mikið, að það er sjáanlegt, að þessi matsstjóri getur ekki komið því til leiðar, sem hann á að annast. Það þýðir ekki að ætlast til, að einn matsstjóri fyrir Ísland geri góða vöru og óaðfinnanlega handa viðskiptamönnum. Í mörg ár hefir okkur farið aftur í meðferð á fiski. Við getum ekki boðið eins goða vöru eins og 1911 og áður, þegar við höfðum færafisk nær því eingöngu, og að öðru leyti betri meðhöndlun á fiskinum frá fyrstu hendi. Það ætti að koma fram frv. um að gæta þess, að þeir, sem fyrst meðhöndla fiskinn, komi með góða vöru að landi og yfirleitt spilli fiskinum ekki með illri meðferð. Það er ekki til neins að setja menn til þess að meta vonda vöru, þeir bæta hana ekkert, en vinza venjulega eitthvað úr henni í nr. 1, þó ekki sé efni fyrir hendi til þess um einn einasta fisk.

Mér er ekki fullljóst, hvort það á að sameina þetta matsstjórastarf fiskifulltrúastarfinu á Spáni. Hann hefir á síðari árum komið til Íslands og haldið fundi með matsmönnunum og skýrt þeim frá þeim misfellum, sem fram hafa komið. Nú er þessum nýja matsstjóra ætlað að taka þetta verk af fiskifulltrúanum, sem talið er, að ekki hafi haft of mikið að sýsla þarna suður frá. Ef til vill ætlast hv. flm. til, að þessi störf verði sameinuð. Það mætti a. m. k. ætla, að svo væri, úr því þeir stinga upp á, að matsstjórinn fari suður á Spán og haldi síðan fundi með matsmönnunum hér heima og kenni þeim heppilegustu aðferðir við matið. Ég held, að sameining þessara embætta gæti vel komið til mála. Ég býst við, að þó sendur væri maður út um land til þess að lita eftir matinu, þá hefði það ekkert að þýða upp á matið í sjálfu sér. Það er ekki til í einum manni sú þekking og glöggskyggni og aðrir hæfileikar, sem til þess þyrftu að sjá um a. m. k. fjórar mismunandi fiskverkunaraðferðir úti um allt land svo að hvergi yrðu mistök á. Það má ekki búast við því, að einn maður geti séð um, að þeim reglum, sem hann setur, sé fylgt um allt land, þar sem reynslan hefir sýnt, að yfirumsjónarmenn í hverjum landsfjórðungi hafa ekki getað komið í veg fyrir, að svo og svo mikið kæmi á markaðinn af illa verkuðum fiski í öðrum númerum en hann á að vera. Ég er alveg á sömu skoðun og ég var 1927, að hér sé aðeins að ræða um toppfígúru, sem ekki mundi koma að nokkru minnsta gagni. Það er það eina, ef Spánverjar eru mjög óánægðir með matið, að þá mætti hugsa matsstjóra til að reyna að þóknast þeim, og er ekki óhugsandi, að nýr matsstjóri, eða yfirleitt hvaða hreyfing sem kemst á þetta mál. mundi gefa matinn meira traust, a. m. k. fyrst í stað, heldur en hefir sýnt sig, að það hefir haft síðan við tókum upp fisksölunefnd til þess að hafa yfirráð yfir sölu alls fiskjarins.

Ég vil spyrja hv. flm. og þá, sem með málið hafa farið, hvort það sé meiningin að sameina fiskifulltrúaembættið á Spáni þessu matsstjórastarfi og þar með spara nýtt embætti, eða hvort þessi nýi starfsmaður á að vera bæði suður á Spáni í kringum fiskifulltrúann og svo hér heima að kenna fiskimatsmönnunum og taka þannig af fiskifulltrúanum það, sem verið hefir hans aðalstarf.