27.10.1934
Neðri deild: 21. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1874 í B-deild Alþingistíðinda. (2816)

71. mál, fiskimatsstjóri

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Mér kemur ekki á óvart þó hv. 1. þm. Rang. vilji ekki álíta, að hann hafi með öllu himin höndum tekið, þó þetta frv. verði samþ., enda er ég honum sammála um, að margt standi til bóta í fiskimatinu, þrátt fyrir það, þó matsstjóri yrði skipaður. Það er alveg rétt hjá hv. þm., að áreiðanlega ræður það mestu um, hvort við getum gert okkar skyldu í þessu efni, að sjómenn og útgerðarmenn og þeir, sem að fiskinum vinna yfirleitt, geri allir sína skyldu. Það væri því hrein fásinna að ætla sér að kasta allri sinni áhyggju upp á matsstjórann; það mundi sízt verða til að bæta það ástand, sem nú er. En þrátt fyrir það álít ég þetta frv. til þrifa og spor í rétta átt. Það mun vera ástæðulaust fyrir mig að fara að deila við hv. 1. þm. Rang. um þetta; við höfum gert það áður hér í d. Svo fannst mér, þegar við unnum saman að athugun fiskimatslaganna í mþn. 1931, að við vera að færast nær hver öðrum í trúnni á þetta mál. Þó ég viðurkenni, að hann hafi rétt fyrir sér að því er snertir kjarna málsins, þann kjarna, að það eru sjómennirnir og útgerðarmennirnir sjálfir, sem verða að finna til sinnar ábyrgðar í þessu efni, þá virtist hann mér sammála um það, að þetta væri a. m. k. mjög miklum erfiðleikum bundið að tryggja með löggjöf. Við ræddum um það í mþn., hvort tiltækilegt mundi vera að reyna að skapa öryggi með því að láta meta fiskinn upp úr skipunum. En ég held við höfum báðir kiknað undir því að leggja þann aukakostnað á sjávarútveginn, sem slíku mati mundi fylgja, sérstaklega miðað við hið núv. lága verðlag á fiskinum. Urðum við ásáttir um að freista enn að leita öryggis í því, að slæm meðferð á fiskinum á frumstigi, strax þegar hann kemur upp úr sjónum og er blóðgaður, þveginn og saltaður, hún hefndi sín í lægra verðlagi, sem kæmi fram við hið endanlega mat, þannig að illa meðfarinn fiskur lenti í 2. og 3. flokki, í stað 1. flokks. Það er eðlilegt, að þetta geti valdið nokkrum ágreiningi, og mér finnst það mjög að vonum, að hinn reyndi sjávarútvegsmaður, hv. 1. þm. Rang., velti nú þessari spurningu fyrir sér enn á ný, þegar það er að koma æ skýrar í ljós, hversu fiskimatinu er ábótavant hjá okkur og að það er í hnignun, en ekki framför.

Út af fyrirspurn hv. þm. um það, hvort tilgangur flm. sé sá, að sameinað verði þetta fiskimatsstjórastarf og fiskifulltrúastarfið í Suðurlöndum, skal ég upplýsa, að svo er ekki.