27.10.1934
Neðri deild: 21. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1877 í B-deild Alþingistíðinda. (2818)

71. mál, fiskimatsstjóri

Jón Ólafsson:

Það er ekki meining mín að leggjast af kappi á móti þessu máli, þó ég bendi á ýmislegt, sem mér þykir athugavert við það og ég byggi á sömu rökum og 1927. Ég sé ekki, að neitt hafi breytzt síðan að öðru leyti en því, að verzluninni er nú hagað á þann veg, að kaupendurnir geta nú snúið sér til eins aðila, sem þeir vita, að hefir vald yfir allri sölunni og óskorað vald til að bæta þeim upp hvern þann skaða, sem þeir þykjast hafa orðið fyrir vegna óvandaðrar vöru. Ég er viss um, að það ber meira á þessum umkvörtunum vegna þess, að salan er nær öll á einni hendi. Áður gátu seljendurnir sagt: Það erum ekki við, sem svíkjum ykkur; við höfum keypt vöruna í þessu ástandi og verið sviknir. — En nú segja kaupendurnir: Þið hafið ekki verið sviknir af öðrum, en þið svikið okkur, og þið verðið að gera svo vel og bæta okkur upp skaðann, þar sem þið ráðið yfir allri framleiðslunni. — Þetta hefir komið því inn hjá mönnum, að nú þurfi endilega að hefjast handa um að bæta eitthvað úr. En það er ekki hægt að bæta úr með því að bæta einum yfirmatsmanni við. Það sýnir m. a. eitt dæmi frá síðastl. sumri. Einn af okkar beztu fiskimatsmönnum, Jón Magnússon, hefir umsjón með fiskimati hér við Faxaflóa, á Eyrarbakka og Stokkseyri og öðrum sjóþorpum hér í grennd. Hann hefir fengið ágætt orð á sig fyrir sitt starf. En hvað skeður? Úr einu sjóplássinu í hans umdæmi kemur sú vandræðavara, sem var gersvikin að öllu leyti. Þetta er það, sem ég held fram, að sé ekki hægt að fyrirbyggja, að geti komið fyrir. Því þó í frv. standi, að matsstjóri eigi að fylgjast með verkun fiskjarins frá því hann er veiddur og þangað til hann er kominn í skip til útflutnings, þá er það ofætlun hverjum manni að sjá við því, að nokkursstaðar sé óvandvirkni, þar sem verið er að vinna við fiskinn. Það kemur ekki til mála, að einn maður geti litið eftir fiskmatinu um allt landið, þar sem reynslan hefir sýnt, að beztu menn geta ekki litið eftir því svo öruggt sé í tiltölulega litlu umdæmi. Þessi matsstjóri á að halda fundi með matsmönnum landsins. Þetta hefir fiskifulltrúinn á Spáni gert nú undanfarin ár, og frá síðasta fundinum liggja fyrir reglur um það, hvernig eigi að meta fiskinn á hinum ýmsu stöðum á landinu. Þá á matsstjórinn að fara til Spánar og kynna sér kvartanir þeirra, sem við skiptum við, og þær kröfur, sem þeir vilja gera til matsins. Þessu finnst mér nú að verði létt af matsstjóranum með starfi fiskifulltrúans, enda myndi það kosta allt of mikið fé og tíma, ef menn væru á Spáni að kynna sér þessi atriði. Þessum manni, þ. e. matsstjóra, mundi tæplega endast allt árið til að líta á fisk í öllum þeim mörgu húsum, aðeins einu sinni, þótt hann væri hér öllum stundum, hvað þá ef hann ætti að vera með annan fótinn suður á Spáni. Þar að auki sé ég ekki, að þessi fiskifulltrúi á Spáni hafi annað að gera en annast þessa hlið matsins, að koma með þær umkvartanir, sem fram koma, og leiðbeina mönnum í því að fyrirbyggja, að sömu gallar komi fyrir aftur.

Hv. þm. Vestm. benti á það, að ég hefði talið fiskimatsmanninn, sem fór til Vestmannaeyja um árið, hafa gert töluvert gagn, og hygg ég, að hann fari þar rétt með. En það lá nú raunar ekki í öðru en því, að hann kom mönnum þar ofan af þeim leiða sið að brúka rotið salt frá fyrra ári í fiskinn.

Reynslan hefir oft og einatt sýnt, að það er hér um bil sama, þó að maður hafi laklegan fisk, þá fer sá hinn sami ekki að sama skapi mikið í hina lægri flokka. Þetta kemur til af því, að mannlegt auga er ekki svo glöggt, að það sjái hin ýmsu smálýti og litgalla. Reynslan í þessu efni er oftast sú, að sá fiskur, sem fer í aðra flokka en þá, sem hann að réttu lagi ætti að vera í, er látinn í betri tegundir en hann á skilið. Þessum galla er ekki hægt að bæta úr með því að sami maður, sem á að vera umsjónarmaður með fiskverkun innanlands, fari utan til þess að kynna sér kröfur neytenda um verkunina, þegar menn, sem stöðugt hafa verið innan sama umdæmis hér heima, hafa ekki getað komið þar á samræmi í þessu efni.

Hv. þm. Vestm. sagðist ekki vilja taka það til greina, sem ég hefi sagt á móti frv., fyrr en um þetta kæmi brtt. frá mér við frv. Ég vil ekki segja, að ég sé alveg á móti þessu frv. Mér finnst aðeins ekki tekið með því réttum tökum á málinu. Það er sjálfsagt að sýna nokkra viðleitni til að bæta úr þeim göllum, sem á eru um meðferð og mat á fiski, en ég álít, að með frv. þessu náum við ekki þeim tilgangi, og þá m. a. vegna þess, að matsstjóra er með frv. ætlað svo víðtækt verksvið, að óhugsandi er, að hann komist yfir helming þess, þar á meðal að skera úr öllum ágreiningi, sem upp kann að rísa út af mati.

Þær eru langar strendur lands vors og tafsamt ferðalag meðfram þeim. Er því ekki hægt fyrir einn mann að skera alstaðar úr um slíka hluti.

Það hefir verið einróma álit n. að leggja með þessu máli, og það er ekkert út á það að setja, að því sé tryggður framgangur. Má vel vera, að málið sé gott til þess að slá ryki í augu þeirra, sem kaupa fisk af okkur, og að frv. með því móti komi að óbeinu gagni, þ. e. að þeir sjái, að eitthvað er verið að hugsa um málið og reyna að bæta úr, — þó að okkur hinsvegar hafi ekki tekizt að byrja á þeim endanum, sem við áttum að byrja á.