29.11.1934
Sameinað þing: 16. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 233 í B-deild Alþingistíðinda. (282)

1. mál, fjárlög 1935

Þorsteinn Briem:

Ég á tvær brtt. við þennan kafla fjárlfrv., og eru þær báðar við 13. gr. Sú fyrri er á þá leið, að veittar skuli 10 þús. kr. til Vesturlandsvegar. Þetta er eini þjóðvegurinn, sem hér um bil er afskiptur með öllu í fjárlfrv. og till. meiri hl. fjvn., en vegamálastjóri hafði þó lagt til, að til þessa vegar yrðu veittar 14 þús. kr. Það er ekki eingöngu Dalasýsla, sem hér á hagsmuna að gæta, heldur einnig sýslurnar norður af, Strandasýsla og Barðastrandarsýsla. Eftir þessum vegi eru nú komnar fastar bílferðir, en þær stöðvast þó oftlega haust og vor, vegna þess hve vegurinn er slæmur. Á þessari leið er ógerður kafli, sem oft verður ófær. Þar er auk annara torfærna yfir klif að fara, sem er hættulegt vegna aura á vorum og svella á vetrum. Gamli vegurinn grefur sig víða niður af vatnsrennsli, og verður því að færa hann til, en slíkt gerir viðhald á honum mjög dýrt. Sumstaðar liggur vegurinn á þessum kafla um skriður, sem verður að ryðja árlega. Ennfremur liggur hann tvisvar sinnum yfir á, sem verður oft ófær, jafnvel á sumrum. Sjá allir, hve óheppilegt er, að fastar bifreiðaferðir geti stöðvazt, hve nær sem skúr kemur úr lofti. Mestur hluti vegarins er þegar lagður, en þessi vegarkafli getur þannig stöðvað umferð með öllu, þar til lokið er vegagerð þessari. Vænti ég, að Alþingi líti með velvild á þessa nauðsyn.

Þá flyt ég hér aðra brtt. við 13. gr., ásamt öðrum. Hún er á þá leið, að til akfærra sýsluvega skuli ganga 15%, eða 57 þús. kr., af bifreiðaskattinum. Oss þykir sanngjarnt, að sveitirnar njóti þess tillags að fullu, sem þeim er ætlað samkv. bifreiðaskattslögunum, og virðist það illa viðeigandi, að halda ekki gerða samninga í þessu efni, einkum þar sem framlag til sýsluvega er lækkað um 1/3. Það er heldur engin óhagsýni í því fyrir það opinbera að leggja fram lögboðin gjöld til sýsluveganna, og er það af tveim ástæðum. Vinnan við sýsluvegi er ódýrari en við þjóðvegi, enda oftast unnin af innanhéraðsmönnum, sem leggja meira að sér en aðrir og gefa jafnvel dagsverk. Auk þess verður minni ásókn um að fá sýsluvegi tekna í þjóðvegatölu, ef vel er lagt fram til þeirra. Ég vænti þess því, að Alþingi fallist á þessa brtt., um að framlagið til þessara vega verði eigi minna en lög standa til.