30.10.1934
Neðri deild: 23. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1884 í B-deild Alþingistíðinda. (2824)

71. mál, fiskimatsstjóri

Jón Ólafsson:

Ég og hv. þm. V.-Ísf. höfum leyft okkur að koma með brtt. við þetta frv. Aðalbreytingin, sem við gerum við frv., felur í sér heimild fyrir atvmrh. að sameina fiskifulltrúastarfið á Spáni matsstjórastarfinu. En það er enganveginn svo að skilja, að við viljum með þessu setja fót fyrir frv., heldur aðeins til þess að sýna fram á, að við teljum þetta ekki eins þýðingarmikið, vandasamt eða umfangsmikið eins og þeir álíta, sem hafa borið frv. fram.

Það, að við viljum veita stj. þessa heimild, kemur af því, að fulltrúastarfið á Spáni er orðið stórum minna virði en það var áður en stofnað var fisksölusamlag hér á landi, sem nú ræður flestum eða öllum þeim ágreiningsmálum, sem koma á milli kaupenda og seljenda. Og að við viljum fara þessa leið, kemur líka til af því, að nú á síðustu árum hefir fiskifulltrúinn á Spáni haft töluvert að gera með matið hér á landi; hann hefir haldið fundi með fiskimatsmönnunum, og eftir þessa fundi liggja leiðbeiningar um verkun og meðferð fiskjar og um mat fiski.

Þá vil ég benda á, að með þessu má koma því svo fyrir, að þetta starf verði framkvæmt eins og verið hefir í nokkur ár, því að Helgi Guðmundsson fyrrv. fiskifulltrúi var búinn að koma því skipulagi á að halda fundi með yfirfiskimatsmönnunum, og þá vantar í raun og veru ekkert annað en að skaffa þessum manni frí og ferða kostnað til þess að hann geti ferðazt um landið meðal fiskimatsmanna og borið sig saman við þá, sem ráða mestu um matið. Ég held, að þó að mönnum finnist einhverjar ástæður mæla á móti því að sameina þessi störf, fiskifulltrúastarfið og matsstjórastarfið, þá sé ómögulegt að neita því, að þegar fiskifulltrúinn á Spáni hefir rúmlega 30 þús. kr. árlega í laun, þá er þarna um fé að ræða, sem ekki er sem bezt varið, ef það er álitið, að hann hafi ekki nægilegt að starfa. Og ég vil halda því fram, að hann hafi ekki nægilegt að starfa, og að hann hafi nógan tíma til að koma heim, ferðast um landsfjórðungana að einhverju leyti og líta þá á fiskinn og halda fundi með matsmönnum og gera kunnar kröfur neytenda til þessarar framleiðslu. Ég er hræddur um, að það sé að bera í bakkafullan lækinn að senda þennan matsstjóra til Spánar til þess að kynna sér kröfur neytenda, eins og gert er ráð fyrir í frv. Mér finnst, að þessar hugmyndir um matsstjóra og fiskifulltrúa á Spáni falli svo vel saman, að það megi sameina þær, og mér er líka kunnugt um, að það hefir staðið nokkuð í vegi fyrir frekari ferðum fiskifulltrúans á Spáni hér um land, að ríkisstj. hefir oft verið treg til þess að greiða ferðakostnað. Og þegar þessir menn eru orðnir tveir, sem inna af hendi sama starf, hvað mundi þá verða um fjárveitingu vegna þeirra ferðalága?

Ég sé ekki neina ástæðu til þess að fara frekar út í þetta mál. Vona ég, að það liggi nokkurnveginn ljóst fyrir hv. þdm., hvað hér er um að vera; það er verið að stofna þarna embætti, sem í sjálfu sér er, að því er mér sýnist, ofaukið. Mér er líka kunnugt um, að það er í samræmi við skoðun landsmanna, að forðast eigi embættaveitingar eins og hægt er og spara launagreiðslur meira en gert hefir verið. Ég hefi bent á leið í þessu máli, sem ég tel sjálfsagt að fara, og ég trúi, að með þeirri leið verði engu síður innt af hendi nytsamt starf en ef ætti að vera sérstakur matsstjóri, eins og gert er ráð fyrir í frv.

Þá er annað atriði í þessari till., að matsstjóra verði falið að skera úr öllum ágreiningi um fiskimat, og að yfirfiskimatsmaðurinn í Suðurlandsumdæmi komi í hans stað, þegar matsstjórinn þarf að vera í sínum embættiserindum suður á Spáni. Við leggjum ennfremur til, að atvmrh. staðfesti reglugerð um fiskimat, því að á því byggist í raun og veru úrskurður þessa manns, að það séu einhverjar reglur að fara eftir, sem hægt er að beita, þegar skera þarf úr um, hvað rétt sé.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þessar till. að svo komnu.