30.10.1934
Neðri deild: 23. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1886 í B-deild Alþingistíðinda. (2826)

71. mál, fiskimatsstjóri

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Sjútvn. hefir haft þessarar brtt. á þskj. 237 og 240 til athugunar. — Ég skal þá fyrst víkja að brtt. á þskj. 237. Þeir hv. þm., sem bera þær brtt. fram, vilja breyta 1. málsgr. 1. gr. þannig, að á eftir ákvæðinu um skipun matsstjóra komi ákvæði um það, að matsstjóri skuli jafnframt gegna yfirfiskimatsstarfi í einu umdæmi. Þá vilja þeir láta burt falla ferðir hans til neyzlulandanna og lækka laun hans niður í 6000 kr. Og ennfremur að fyrirsögn frv. breytist.

Þó að svo sé að orði kveðið, að allir matsstjórarnir séu jafnir nema að launum, þá hefir í framkvæmdinni verið litið svo á, að yfirfiskimatsmaðurinn hér í Reykjavík væri nokkurskonar yfirfiskimatsmaður alls landsins, þó að hann sé það ekki samkv. l. Vitaskuld er hann það ekki í rauninni, því að hann hefir sama sem engin afskipti af matinu úti um land, en er aftur á móti stundum kvaddur til að vera ráðunautur stj. þegar þessi mál eru uppi.

Það er sýnt, að með því að binda matsstjórann við að vera yfirfiskimatsmaður í einu umdæmi, getur hann ekki annazt það starf, sem honum er ætlað í frv. Honum er í frv. ætlað að hafa á hendi yfirstjórn alls mats hér á landi, en það verður honum vitanlega ómögulegt, ef hann er bundinn við matsstörf í einu umdæmi, sem sennilega er stærsta umdæmi landsins. Tilgangi frv. virtist n. ekki vera náð, ef 1. brtt. á þskj. 237 verður samþ.

Þá vilja þessir hv. þm. láta falla burt ákvæði frv. um það, að matsstjóra sé skylt að ferðast árlega til neyzlulandanna til að kynna sér kröfur neytenda. — N. hefir ekki heldur getað orðið sammála þeim um þetta atriði. Það er heppilegt, að matsstjóri geti kynnzt því af eigin reynd, hvernig er litið á fiskimatið hjá þeim, sem fiskinn kaupa. Það hefir líka verið viðurkennt hér á undanförnum árum, að slíkar kynningarferðir matsmanna væru nauðsynlegar, og þeir hafa stundum verið kostaðir til að fara þessar ferðir. Ef matsstjóri er alltaf hér heima, hefir hann auðvitað betri tíma til að ferðast um landið og líta eftir fiskimati, en þá kemur hann til með að skorta þá reynslu og þekkingu, sem hann fengi af því að koma til sölustaðanna og sjá, hvernig fiskurinn lítur út, og heyra raddir þeirra, sem kaupa fiskinn.

N. virðist líka, að óheppilegt sé að lækka laun þessa matsstjóra. Hér er um það að ræða að stofna til mjög vandasamrar sýslunar, og samkv. frv. þarf að velja til þess starfs mann, sem þarf ekki aðeins að hafa nákvæma þekkingu á fiski, heldur verður hann líka að vera sæmilega að sér í einhverju útlendu tungumáli. Og þó að ef til vill yrðu ekki gerðar þær kröfur, að hann kynni Suðurlandamálin, ítölsku, spönsku og portúgölsku, þá yrði hann þó að vera vel að sér í ensku eða frönsku, og þá helzt í frönsku. Í þessu embætti verður því að vera það vel hæfur maður, að n. áleit það miklum vafa bundið, að hægt væri að fá slíkan mann, ef laun hans væru ekki ákveðin hærri en 6 þús. kr. N. mælir því á móti þessari brtt.

Aftur á móti hefir n. ekkert á móti 3. brtt., um að breyta fyrirsögn frv. Það er ef til vill réttara, að frv. heiti frv. til l. um fiskimatsstjóra. N. vill því fallast á þessa síðustu brtt., en leggur á móti hinum, þar sem hún álítur, að með því sé ekki gerð nein breyt. á núv. ástandi.

Þá eru brtt. á þskj. 240. Þeir, sem að þeim standa, hv. 1. þm. Rang. og hv. þm. V.-Ísf., vilja gera þetta að heimildarlögum, og ennfremur vilja þeir heimila stj. að fela fiskifulltrúanum á Spáni yfirstjórn fiskimatsins, og ætlast til, að hann dvelji svo lengi hér á landi sem nauðsynlegt þykir til eftirlitsferða og funda með fiskimatsmönnum. Hér virðist helzt vera lagt til, að starf fiskifulltrúans á Spáni verði lagt niður. Þeir vilja a. m. k. heimila stj. að gera þetta. N. lítur svo á, að ekki hafi neitt það legið hér fyrir, sem geti réttlætt það, að þetta starf verði lagt niður eins og nú standa sakir. Það er að vísu rétt, sem hv. 1. þm. Rang. sagði, að fiskifulltrúinn á Spáni er líklegur til að hafa meiri þekkingu en flestir aðrir á kröfum neytenda. En það er ekki nóg, vegna þess að þegar við tölum um fisk, þá er um vöru að ræða, sem er öðruvísi útlítandi, þegar hún er metin hér á landi en þegar hún kemur í pakkhúsin í Bilbao og Barcelona. Fiskifulltrúi sá, er nú er á Spáni, er ekki vanur fiskimati, en sá, sem á að hafa á hendi yfirstjórn fiskimats hér á landi, verður að vera svo kunnugur fiskverkun, að hann viti nokkurnveginn með vissu, í hvaða herzluástandi þessi og þessi fisktegund þarf að vera hér á landi til þess að koma fram í útlöndum í æskilegu ástandi.

Ef fiskifulltrúinn á Spáni ferðast mikið um hér á landi, sem hann þyrfti, ef hann ætti að gegna þessum matsstjórastörfum, þá er enginn vafi, að sama sem enginn tími yrði afgangs hjá honum til að gegna fiskifulltrúastörfum á Spáni. Þetta getur því ekki vel samrýmzt. Það yrði þá frekar í þá átt, að fiskifulltrúaembættið yrði lagt niður og þá ákveðið, að þessi maður yrði skipaður til að vera yfirmatsmaður hér heima, en það vildi n. ekki. Till. hv. 1. þm. Rang. og hv. þm. V.-Ísf. miða því líka til þess, að allt standi í stað í þessum efnum.

Ég tel sjálfsagt, að atvmrh. geti sett reglur um fiskimat án þess að sérstök l. séu sett um það. Ég hefi ekki matslögin hér, en ég geri ráð fyrir, að í þeim felist heimild til að setja reglur um fiskimat.

Það hefir verið minnzt á það, að fiskifulltrúinn hefði skyldur til að koma og halda fundi hér heima, en hann hefði ekki haft tíma til þess. Þetta sýnir, að hann hefir mikið að starfa í þágu íslenzkrar fiskverzlunar á þeim stað, sem hann dvelur nú á, og þær skýrslur, sem berast frá honum hingað til landsins, sýna, að hann hefir lagt mikið verk í að setja sig inn í þessi máli. Ég held því, að það sé frekar spor aftur á bak, ef ætti að fara að fela honum stöðu matsstjóra, en leggja fiskifulltrúaembættið niður, því að samkv. þessu frv. yrði hann að verja öllum sínum tíma til að gegna þessu embætti, og þó að hann gæti kannske einstöku sinnum skroppið til Spánar, þá gæti hann aldrei verið þar langdvölum. N. getur því ekki heldur lagt til, að þessi brtt. á þskj. 240 verði samþ.

Það er í sjálfu sér ákaflega alvarlegt mál, sem hér liggur fyrir, og menn verða að gera sér það ljóst, að það er ekki heppilegt að tala um það í þessu sambandi, að hér sé verið að stofna nýtt embætti. Það, sem hér liggur fyrir, er það, að finna leið til að bæta fiskimatið, finna leið til þess að vörugæði aukist. Og það, sem frv. fer fram á, er að skipa hæfan mann, sem beri siðferðislega ábyrgð á því fyrir öllum landsmönnum, að fiskimatinu verði komið í réttara horf á hinum ýmsu matsstöðum á landi hér. Þetta er ekkert áhlaupaverk, seldur vandasamt og tekur mikinn tíma. Sá, sem þetta verk á að vinna, verður að hafa mikla þekkingu til að bera, fyrst og fremst á saltfisksverkun, og ennfremur verður hann að vera talsvert menntaður maður auk þeirrar verklegu menntunar, svo að hann geti haft gagn af þeim ferðum, sem er ætlazt til, að hann fari til neyzlulandanna.

Sem sagt, sú eina brtt., sem sjútvn. getur fallizt á, eftir að hafa rætt þetta mál, er brtt. 237,3 við fyrirsögn frv. Hinar brtt. leggur n. til, að verði felldar.