30.10.1934
Neðri deild: 23. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1895 í B-deild Alþingistíðinda. (2832)

71. mál, fiskimatsstjóri

Gísli Guðmundsson [óyfirl.]:

Ég vil segja það út af ræðu hv. 1. þm. Rang. áðan, að ég ætla, að hann hafi misskilið nokkuð af ræðu minni. Ég hefi náttúrlega ekki aðstöðu til að dæma af eigin reynslu um fiskimatið, en ég hefi getað kynnt mér þau rök, sem fram hafa verið færð fyrir því, að matinu er að hraka, og hefi kynnt mér það, sem komið hefir fram á nýafstöðnu fiskiþingi um það mál, sem hv. þm. er einnig kunnugt, að fiskiþingið hefir litið svo á, að fiskimatinn væri víða mjög ábótavant. Annars er ég sömu skoðunar og hann um það, að meira muni vera gert úr misfellum á matinu en ástæða sé til. Hv. þm. lét svo um mælt, að þeir töluðu hæst í þessu máli, sem minnsta þekkingu hefðu á því. Tók ég það svo, að þar ætti hann við þá, sem fyrst komu með þetta mál inn í hv. d. og hv. þm. er mjög ósammála, og skal ég láta það álit hans óumrætt.

Þá vil ég víkja nokkrum orðum að hv. þm. G.-K. og þeim ummælum, sem hann lét falla út af minni meinlausu ræðu um brtt. okkar hv. 2. þm. Skagf. Hv. þm. gerði mikið úr því, hve hann byggi yfir miklu meiri vizku en ég í þessu máli. Ég skal ekkert deila við hann um það, hvor okkar hefir hér meira til brunns að bera, en ég vil aðeins draga í efa, að þeir, sem hlýddu á ræðu hans, hafi yfirleitt trúað því, að hann hafi frá blautu barnsbeini haft með fisk að gera, eins og hann sagði, enda held ég, að sú frásögn hans sé nokkuð ýkt. Ég held, að hann hafi fengizt við annað meira um æfina en fisk; ég hefi aldrei heyrt, að hann hafi dregið lontu úr sjó, og ég efast um, að hann hafi nokkurntíma þvegið eða flegið fisk. Ég hefi aldrei séð hann fást við fisk eða fara á sjó til að veiða fisk, og ekki heyrt nokkurn mann tala um, að hann hafi gert það. Hv. þm. G.-K. gerði mikið úr því, að í till. okkar 2. þm. Skagf. kæmi fram kali til sjávarútvegsins. Það kom mjög í ljós hjá honum, að honum er í nöp við till. okkar, en það, sem honum fannst bera mestan vott um kala til sjávarútvegsins í till. okkar, var það, að við viljum spara á þessu nýja embætti. Hv. 1. þm. Rang. hefir líka gert till. um sparnað í þessu máli, a. m. k. eins mikinn sparnað og við. Hans till. ættu því eftir röksemdafærslu hv. þm. G.-K. ekki síður en okkar till. að bera vott um kala til sjávarútvegsins. Mér finnst það satt að segja dálítið hart að halda því fram, að hv. 1. þm. Rang. beri sérstakan kala til sjávarútvegsins, en svo framarlega, sem við hv. 2. þm. Skagf. sýnum sjávarútveginum kala með okkar brtt., þá hlýtur hv. 1. þm. Rang. að vera ákaflega kalt til þess atvinnuvegar. Þetta er nú rétt eitt dæmi um rök þessa hv. þm. Hann lætur sig ekki muna um það að rétta annað eins og þetta að flokksbróður sínum, hv. 1. þm. Rang., sem vitað er, að hefir miklu meiri reynslu í þessu máli en hann.

Þessi sami hv. þm. sagði, að auðséð væri, að till. okkar hv. 2. þm. Skagf. væru gersamlega einkis nýtar og óframbærilegar, þar sem sjútvn. hefði ekki viljað líta við þeim. Eina af þessum brtt. hefir n. þó tekið til greina. En hv. sjútvn. hefir ekki heldur séð sér fært að taka til greina brtt. hv. 1. þm. Rang. og hv. þm. V.-Ísf. Ég held, að mörgum finnist hv. þm. G.-K. ekki vera nógu mikil stærð til þess að dæma álit og till. hv. 1. þm. Rang. í þessu máli einkis verðar og óframbærilegar. Með þessum rökum hugsar hv. þm. G.-K. sér að ná sér niðri á okkur hv. 2. þm. Skagf., en um leið reisir hann sér þann hurðarás um öxl að deila harðvítuglega á þann mann, sem allir eru sammála um, að hefir langtum meira vit á þessu máli en hv. þm. G.-K.

Hv. þm. taldi okkur sýna málinu óvild með því að vilja lækka laun matsstjóra úr 8 þús. kr. í 6 þús. á ári. Ég skal fúslega viðurkenna, að þetta er ekki stórt atriði í þessu máli, en okkur fannst, að borið saman við launakjör yfirfiskimatsmanna væri 6 þús. kr. nægileg laun. Yfirfiskimatsmaðurinn hér í Rvík hefir ekki nema 4700 kr. laun, og ég verð að segja það, að þó hv. þm. G.-K. segi, að þessi till. um lækkun á laununum beri vott um sérstakan fjandskap til viðkomandi atvinnuvegar, þá álít ég nú, að þennan atvinnuveg skorti eitthvað fremur en há laun handa sínum æðstu mönnum, og ég álít, að um það séu fleiri mér sammála, þó hv. þm. G.-K. sé máske ekki á þeirri skoðun. Ég minnist þess, að á fundi einum, sem við vorum háðir á í einni af verstöðvunum í hans kjördæmi nú fyrir skömmu, hafði einn af flokksmönnum hv. þm. orð á því, að þm. hefði of há laun, hann hefði 12 til 14 þús. kr. á ári samtímis því, sem þeir útvegsmennirnir þar suður með sjónum bæru nauðalítið úr býtum. Ekki var þetta af því, að þeir þar suður með sjónum hafi mikla löngun til að setja sig á móti hv. þm., en þeir hafa þó ekki verið sammála honum í því efni, að sjávarútveginum væri það mesta lífsspursmálið að hafa há laun handa yfirmönnunum.

Hv. þm. G.-R. talaði um það af miklu yfirlæti, að ég færi með tómar staðleysur um það, af því ég skildi ekki frv., að matsstjóra væri ekki gefið neitt vald með frv. eins og það var upphaflega flutt. Hann vitnaði í það, að matsstjóri hefði átt að setja reglur um fiskimatið, og væri það hliðstætt því, þegar Alþingi setti reglur. Þess vegna hefði ekki þurft að taka það fram, að skylt væri að hlýða matsstjóra. En ég vil segja honum það, að enginn er skyldur til að hlýða hv. þm. G.-K. sem þm., þó hann setji einhverjar reglur. Þess vegna sá hv. sjútvn. sér ekki annað fært en að bæta því inn í frv., að hlutaðeigendur ættu að hlýða matsstjóra, af því hún sá, að annars hafði það ekkert að segja, þó hann setti reglur. Þetta sýnir það, að hv. þm. G.-K. hefir sjálfur ekki skilið frv. eins og æskilegt hefði verið. Annars nenni ég ekki að fara í mannjöfnuð við hv. þm. út af því, hvor okkar hafi meira vit á fiski. En það var dálítið „kúnstugt“, þegar hann taldi það bera sérstaklega vott um litla þekkingu hjá mér, að ég héldi, að fiskimatsmenn mettu fisk á þann hátt að tína upp einn og einn fisk. Ég skal segja það, að ég álít, að fiskimat fari fram á ýmsan hátt, og að ég hefi einmitt séð fisk metinn þannig, að tíndur var einn og einn fiskur. Má vera, að þar hafi verið sérstök hætta á því, að sá fiskur væri skemmdur.