30.10.1934
Neðri deild: 23. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1901 í B-deild Alþingistíðinda. (2835)

71. mál, fiskimatsstjóri

Ásgeir Ásgeirsson [óyfirl.]:

Ég tek nú til máls af hálfum hug, af því að ég get ekki hælt mér af öðru en því, að ég hefi verið á stakkstæði hérna fyrir löngu síðan og handlangari hjá góðum matsmanni áður en matið spilltist.

Í sambandi við brtt. okkar hv. 1. þm. Rang. vil ég segja það, að ég tel vafasamt, að hægt sé að finna mann, sem bæði er ágætlega kunnugur fiskverkun allri frá því að fiskurinn er veiddur úr sjónum og þangað til hann er hæfur til fiskimats, og sem svo í þriðja lagi væri fær um að ferðast um Suðurlönd á ári hverju og hafa samband við neytendur og alla, sem að þessum málum verða að koma og hafa fullt gagn af því ferðalagi. Ég tel vafasamt, að hægt sé að finna þennan mann, og enn vafasamara, að hægt sé að fá hann fyrir 8 þús. kr., svo maður tali nú ekki um 6 þús. kr. En okkur er nú kunnugt um það, að fiskifulltrúinn á Spáni er nú orðinn ágætlega að sér um fiskverkun og fiskimat, og þegar hann fullnægir allra manna bezt því, sem hér hefir verið lögð áherzla á, að aðalmaður matsins þekkti kröfur neytendanna og dóma þeirra um fiskinn á hverju ári, þá vildum við einmitt nota hans þekkingu á þessu sviði og spara þar með ríkissjóði allmikla féfúlgu. Sjálfstæður matsstjóri, sem hefði að launum 10 þús. kr. samtals og ferðaðist um landið allt árið, þegar hann væri ekki í Suðurlöndum, og hefði skrifstofu hér, mundi ekki kosta ríkið minna en 20—24 þús. kr., þegar allt kæmi til alls. Við höfum dýran mann suður á Spáni, og er þá ekki hægt að nota hann til þess að dvelja hér heima 2—3 mánuði á hverju ári? Hér er sennilega enginn maður, sem hefir betri möguleika til þess að kynna sér kröfur neytendanna eða hefir meiri þekkingu á því en einmitt þessi fulltrúi okkar þarna suður frá. Okkar till. er því sannarlega ekki um það, að leggja þetta starf hans niður, heldur eigi hann, auk þess sem hann er fulltrúi suður á Spáni, að koma heim á ári hverju og halda fundi með yfirfiskimatsmönnum og ferðast um kring til þess að ráðgast við matsmenn og leiðbeina þeim. En vitanlega yrði þessi fræðsla aðallega í höndum yfirmatsmannanna. Ég sé ekki ástæðu til að ætla, að yfirmatsmennirnir geti ekki lært af fiskifulltrúanum, ef hann kemur heim árlega, og kennt svo út frá sér sínum starfsmönnum. Ef þeir hafa ekki manndóm til þess að láta framfylgja þeim reglum, sem þeir hafa lært, þá efast maður líka um, þó settur væri einn maður yfir allt landið, sem ætti að ferðast um allt árið nema 2 mánuði, sem hann ætti að vera suður á Spáni, að hann hefði frekar möguleika til þess, þar sem hann ætti að hafa allt landið, en matsmennirnir aðeins lítil svæði hver.

Að þessari till. okkar standa og margir menn utan þings, sem hafa örvað okkur til þess að bera hana fram, og ég hygg, að sjútvn. standi ekki svo langt frá þessari till. eins og haldið hefir verið fram, a. m. k. mátti skilja það á ræðu hv. þm. Vestm. við síðustu umr.