30.10.1934
Neðri deild: 23. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1903 í B-deild Alþingistíðinda. (2837)

71. mál, fiskimatsstjóri

Gísli Guðmundsson [óyfirl.]:

Það er ekki mikið, sem ég þarf að segja út af síðustu ræðu hv. þm. G.-K., enda er mér ekki leyfð nema stutt athugasemd.

Ég býst við, að hv. þdm. hafi þótt fróðlegt að heyra æfiferilsskýrslu þá, sem hv. þm. gaf hér, eins og til að sýna eða gera sennilegt, að hann myndi hafa eitthvert vit á þessum málum. Það er nfl. svo komið eftir þessar umr., að hv. þm. finnst hann þurfa að leggja fram fyrir því einhver gögn, að hann beri hér eitthvert skyn á. Gögnin voru svo þau, að hann væri fæddur og uppalinn í sjávarþorpi og hefði komið þar, sem fiskur væri verkaður. Ég vil ekki draga í efa, að hv. þm. mun gefast tækifæri til halda áfram með skýrsluna, og mun e. t. v. aukast fróðleikurinn, þegar fram í sækir.

Ég nenni ekki að karpa við hv. þm. um það, hvert álit hv. sjútvn. hafi verið á till. okkar hv. 2. þm. Skagf. annarsvegar og till. hv. þm. V.-Ísf. og hv. 1. þm. Rang. hinsvegar. Ég geri ráð fyrir, að hv. dm. hafi veitt því athygli, hve veik rök hv. þm. G.-K. eru í því máli, þar sem hann taldi það auðvitað, að okkar till. hefðu átt að fá nokkra áheyrn hjá n., vegna þess að í henni væru flokksmenn okkar. En hvernig stendur þá á því, að sú till., sem hv. 1. þm. Rang. studdi, fékk ekki áheyrn hjá n.? Hann á líka flokksbræður í n. Hv. þm. G.-K. kemst ekki hjá því, að ef hv. n. hefir sýnt okkar till. lítilsvirðingu, þá hefir hún engu síður lítilsvirt till. þá, sem hv. 1. þm. Rang. stendur að. Enda er komið svo fyrir hv. þm. G.-K., að hann er farinn að mismæla sig alvarlega í umr. og tala um hv. 1. þm. Árn. í stað 1. þm. Rang. En út af því, sem hv. þm. talaði um síðast í sinni ræðu, þá er auðvitað dálítið erfitt að gera samanburð og segja, hvaða laun þessi og hvaða laun hinn eigi að hafa. Um það ætla ég ekki að rökræða við hv. þm. En ég hygg, að þau laun, sem við ætlum matsstjóranum, 6 þús. kr. á ári, þótt þau séu ekki ýkjamikil, þá séu þau þó allmiklu hærri en laun flestra þeirra, sem hv. þm. G.-K. greiðir laun. Eftir því, sem hann sjálfur segir, þessi hv. þm., hefir hann varið til þess allmiklum hluta sinnar æfi að vinna að því, að þeir menn, sem við fyrirtæki hans vinna, á skipum hans og við verkun fiskjarins, hefðu sem allra bezt laun. Þó eru þessi laun miklum mun lægri en þau, sem við ætlum matsstjóranum. Og ég verð að segja út frá þeim samanburði, sem hv. þm. var að gera, að ef ætti að fara að eins og útvegsmaðurinn í Garðinum, að bera saman laun forstjórans Ólafs Thors og sjómannanna á skipum hans, hygg ég, að um þann samanburð mætti ýmislegt segja, og fróðlegt væri að heyra hv. þm., sem ekki er skinhelgur, ræða um þá hluti. Annars hefir hv. þm. eiginlega sýnt brigðmælgi gagnvart mér, því að hann lofaði að gefa mér einhverja sneið áður en hann lyki ræðu sinni, en þar sem hún kom ekki fram, verð ég að álíta, að hann hafi borðað hana sjálfur. En ég er ekkert að hugleiða að gera úr hv. þm. þorsk eða aula. Ég held, að ekki verði úr honum gerð nein verðmæt vara.