19.11.1934
Efri deild: 42. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1911 í B-deild Alþingistíðinda. (2848)

71. mál, fiskimatsstjóri

Frsm. minni hl. (Jón Auðunn Jónsson):

Ég hefi ekki orðið sammála meiri hl. sjútvn. um þetta mál. Ég tel brtt. meiri hl. n. miða til þess að rýra eða jafnvel gera að engu þann tilgang, sem menn hyggjast að ná með því að skipa sérstakan fiskimatsstjóra. Það mundi sýna sig, að ef farið væri eftir þeirra till., þá mundi líkt fara hér eins og í Noregi, þar sem fiskimatsstjóri var skipaður, sem hafði að vísu gott vit á fiskverkun og mati, en hann var aðstoðarmaður fiskimálastjóra, og hafði því engan tíma til að anna starfinu.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að aðalaðfinnslurnar um okkar fiskimat hefðu verið vegna undirvigtar á fiskinum. Þetta er ekki rétt. Ég býst við, að meiri hl. n. sé það kunnugt, að fiskkaupendur í Barcelona sendu hingað kvörtun í fyrra út af því, hve mikið ósamræmi hefði átt sér stað um matið á fiskinum og að fiskurinn hefði ekki verið eftir þeirra kröfum nema að litlu leyti. Þessar aðfinnslur munu þeir hafa sent ríkisstj. aftur, nú ekki fyrir löngu, og ég býst við, að þeim kvörtunum verði haldið áfram, ef ekki verður að gert. Barcelona-markaðurinn er sá markaður á Spáni, sem við megum sízt án vera. Frá því árið 1911 og þangað til 1924 vorum við einráðir um þennan markað, þar til Færeyingar fóru að flytja þangað fisk. Árið 1925 vorum við búnir að útrýma norskum fiski af þeim markaði, en árið 1904 höfðum við aðeins 10% af fisksölunni þar, en Norðmenn þá 90%. Í Barcelona er borgað hæst verð fyrir saltfisk, en einnig gerðar hæstar kröfur um gæði og góða flokkun fiskjarins. Einmitt á þessum vettvangi á fiskimatsstjóri að vinna okkur gagn. Hann á að samræma matið, svo að það verði svipað, miðað við gæði fiskjarins alstaðar á landinu. En undirvigt á fiskinum hefir sennilega komið fram bæði vegna þess, að vigtir hafi verið ónákvæmar, og líka hins, að fiskurinn hafi verið línþurrkaður. Fiskurinn léttist einnig alltaf meira og minna við flutninginn til markaðslandanna, einkum að sumrinu og fram í september. Það er óhætt að fullyrða, að þær skaðabætur, sem við verðum að greiða vegna þess, að matið á fiskinum er ekki nægilega vel framkvæmt, nemi hundruðum þús. kr. árlega. Mér er kunnugt um þetta, af því að ég hefi keypt fisk til útflutnings um nokkuð langan tíma í umboði fyrir aðra. Það félag, sem ég var lengst umboðsmaður fyrir, komst aldrei hjá því að borga 40 þús. til 100 þús. kr. í slíkar skaðabætur árlega, og þó hafði þetta firma stöðugt umboðsmann á Spáni, sem var mjög vel kunnugur fiskverkun, því að hann hafði verið við fiskverkun lengi. Á Spáni greiðum við aldrei slíkar skaðabætur, nema þegar umboðsmenn okkar þar sjá, að ekki er hægt að komast hjá því.

Sá agnúi er á því að skipa fiskifulltrúann á Spáni sem fiskimatsstjóra, að ef hann á að anna starfi því, sem hann hefir á Spáni, þá getur hann ekki með nokkru móti haft tíma til þess að ferðast með yfirmatsmönnum hér um verstöðvarnar til þess að leiðbeina þeim um framkvæmd matsins.

Nú, þegar farið er að þrengja að okkar útflutningi til þessara markaðslanda, er okkur sérstaklega mikil þörf á því að hafa fiskimatið í sem allra beztu lagi, og framkvæmd endurbóta á fiskimati okkar má alls ekki láta stranda á því, að einum manni verði falin svo mikil störf í því sambandi, að hann geti alls ekki leyst þau viðunanlega af hendi.

Viðvíkjandi því, hvort brtt. meiri hl. n. miðar til sparnaðar, vil ég segja það fyrst, að ég álít alls ekki að svo sé, og hinsvegar, að þó að spara mætti nokkrar þús. kr. árlega með einhverju sérstöku fyrirkomulagi á þessum málum, miðað við eitthvað annað, þá er það svo hverfandi aukaatriði, að frámunalegasta vitleysa væri að leggja nokkuð upp úr því. Aðalatriðið er, að árangur slíkra ráðstafa verði sem beztur. Að sjálfsögðu verður fiskimatsstjóri að hafa þá þekkingu á starfi sínu, að yfirmatsmenn efist ekki um það, að hann fari í öllum tilfellum með rétt mál um matið og gefi réttar leiðbeiningar. Hann þarf einnig að vera það myndugur í sínu starfi, og hafa ríka ábyrgðartilfinningu, svo að yfirmatsmenn jafnt og undirmatsmenn beygi sig undir álit hans og fari eftir till. hans í hvívetna. Aðalstarf fiskimatsstjóra á að vera það, að ferðast um hér á landi til þess að leiðbeina yfirmatsmönnum og undirmatsmönnum, því að það er alls ekki nóg, að hann haldi fund aðeins einu sinni á ári með yfirfiskimatsmönnum.

Það er nú, því miður, svo komið, að okkar fiskur á Barcelona-markaðinum hefir liðið ákaflega mikinn álitshnekki á síðustu árum. Austfirzkur fiskur hefir þangað til í fyrra verið talinn bezti fiskur, sem til Barcelona hefir komið, og borgaður hærra verði en annar fiskur þar. Færeyingar hafa haft lélega flokkun á sínum fiski, en eru nú óðum að nálgast okkur í því efni, og hafa nú haft talsvert mikið af fiski, hæfilegum fyrir þennan markað, svo að margir kaupendur þar hafa tekið færeyska fiskinn fram yfir íslenzkan fisk, vegna þess, að matið á íslenzka fiskinum hefir verið svo illa samræmt. Því miður hefir okkar fiskimat oft verið svo lélegt, að þeir, sem keypt hafa fiskinn, hafa með fullum rétti heimtað miklar skaðabætur fyrir af seljendum.

Það er nauðsynlegt, að greint sé vel á milli þess, þegar um fiskimat er að ræða, hvaða kröfur eru gerðar til fiskjarins á hverjum markaðsstað. Í því sambandi vil ég benda á það, að því miður hefir mikið af fiski verði flutt til Barcelona, sem alls ekki hefði átt þangað að fara, af því að hann átti ekki heima á þeim markaði, heldur miklu fremur á öðrum markaði, einkum á Norður-Spáni, en þá auðvitað með breyttri verkun, meira þurrkaður.

Í sambandi við verkunina þarf þess vel að gæta, á hvaða tíma fiskurinn er fluttur út, því að eftir því, á hvaða tíma fiskurinn er fluttur út, þarf að haga þurrkstiginu, það þarf að vera mismunandi með tilliti til þessa. Þessa og margs annars í verkuninni hefir, því miður, ekki verið gætt sem skyldi. Oft hefir fiskur, sem fluttur hefir verið út framan af vori, verið fljótverkaður. Þeim, sem ekki voru nægilega kunnugir fiskverkun, fannst fiskurinn vera nægilega þurrkaður, en þeir gættu þess ekki, að slíkur fiskur slær sig og reynist of lítið þurrkaður, þegar út kemur. En það er skilyrði til þess, að fiskur geti orðið góður, að hann sé ekki of fljótt þurrkaður, heldur að bann sé í verkun 3 vikur til mánuð.

Allir, sem kunnugir eru fiskimatsmálum Íslendinga, hljóta að viðurkenna, að okkar útgerð verði ekki með öðru meiri greiði gerður heldur en með því, að skipaður sé sérstakur fiskimatsstjóri, sem hæfur sé til þess starfs, hafi fullkomna þekkingu á málinu og einnig næga ábyrgðartilfinningu og myndugleika til þess, að hann láti yfirfiskimatsmenn og undirfiskimatsmenn hlýða sér. Með því að flokka okkar fisk eins og hann þarf að vera flokkaður fyrir hvern markaðsstað, er enginn efi á því, að við styðjum að því, að við getum haldið einhverju af þeim mörkuðum, sem við höfum nú, og kannske komizt svo langt, ef vel tekst, að kaupendurnir heimti, að við fáum meira innflutningsleyfi fyrir okkar fisk vegna þess, að við höfum matið ábyggilegt. Þetta er það eina, eins og nú stendur, sem getur hjálpað okkur til þess að fá rýmkað okkar innflutningsleyfi á fiski í öðrum löndum, einkum á Spáni, þar sem mjög hefir verið að okkur kreppt um innflutningsleyfi á fiski.

Það er engu síður nauðsynlegt, að sá maður, sem á að leysa þetta starf af hendi, hafi þekkingu á fiskverkun frá fyrstu hendi heldur en að hann þekki kröfur neytenda til fiskjarins. Hann þarf einnig að þekkja, hvaða breytingum fiskurinn tekur við flutning í annað loftslag.

Fiskifulltrúinn á Spáni hefir kynnzt kröfum neytenda vel. En ég er hræddur um, að hann hafi ekki — a. m. k. hafði hann ekki, þegar ég þekkti til — nægilega þekkingu á verkun fiskjarins frá fyrstu hendi. Má hv. 2. þm. S.-M. vera þetta kunnugt af reynslu Austfirðinga.

Ég vildi óska, að hæstv. Alþ. fari ekki að gera þetta ábyrgðarmikla starf, fiskimatsstjórastarfið, að neinu hjáverkastarfi eða kákstarfi. Ég veit, að slíkt er ekki tilgangur meiri hl. n., en það yrði þó óhjákvæmileg afleiðing af því, ef samþ. væri brtt. þeirra. Í Nd. kom fram brtt., svipuð þessari, en hún náði ekki samþykki d., sem betur fór.

Ég er samþykkur þeirri till., að fiskimatsstjóri megi ekki reka eða vera hluthafi í neinskonar fiskverzlun, fiskverkun eða útgerð. Þetta áákvæði er trygging fyrir því, að fiskimatsstjóri geti ekki notað sína embættislegu aðstöðu til þess að reka sín eigin erindi, og með því sýnt hlutdrægni í starfinu sér í hag.