05.12.1934
Efri deild: 53. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1921 í B-deild Alþingistíðinda. (2855)

71. mál, fiskimatsstjóri

Frsm. minni hl. (Jón Auðunn Jónsson):

Ég get látið falla niður talsvert af því, sem ég hafði upphaflega ætlað mér að taka fram í sambandi við frv. það, sem hér liggur fyrir, þar sem hv. meiri hl. n. hefir orðið ásáttur um, að taka aftur a-lið brtt. sinnar á þskj. 476, því að öll deilan við fyrri umr. málsins snerist einmitt um það, hvort heppilegt væri að láta fiskifulltrúann á Spáni annast þetta matsstjórastarf eða ekki. Fyrst hv. meiri hl. hefir fallizt á, að ekki væri hagkvæmt að fela fiskifulltrúanum þetta starf, get ég hlaupið yfir að minnast á ýmislegt til rökstuðnings andstöðu minni gegn brtt. hv. meiri hl. sjútvn.

Út af því, sem hv. 2. þm. S.-M. talaði um þessu máli viðvíkjandi, þarf ég ekki að fjölyrða. Niðurstaða sú, sem hann komst síðast að, studdi þann málstað minn, að ótækt væri með öllu, að fiskifulltrúanum á Spáni yrði falið starf það, sem hér um ræðir. Hann talaði m. a. um merkingar á fiski. Fiskmerkingar, sérstaklega eigendamerkingar, voru framkvæmdar áður en erindrekinn benti á þær. Fisksölusamlagið tók upp þá reglu að láta hvern mann merkja sinn fisk, til þess að hægt væri að fylgjast með gæðum fisks hvers seljanda, eins og nauðsynlegt er, svo framarlega sem gengið er inn á þá braut, að hver fiskseljandi sé látinn bera ábyrgð á sínum fiski, eftir því sem því verður við komið. En það er ekki alltaf hægt. Það er fullkomlega sannanlegt í fjölmörgum tilfellum, að enda þótt fiskur sumra framleiðenda sé verri vara, þótt metinn sé, en vera ætti samningum samkvæmt, þá getur það samt komið fyrir, að hann skemmist á leiðinni landa á milli, og þá er fiskframleiðendum ekki um að kenna.

Annars er það vitanlegt, að starf fiskimatsstjórans hlýtur að mestu leyti að vera framkvæmt innanlands, ef á annað borð á að nást nægilegur árangur af því, sem vonandi er að takist með þessari nýju skipun þessa máls. Þetta starf verður falið í strangara eftirliti með matinu, ekki sízt í því að láta það ekki koma til mála, að sendur verði lélegur fiskur héðan á okkar beztu markaði, jafnvel þótt hann sé verkaður fyrir þann markað, því að ekki er hægt að velja svo úr lélegum fiski, að sæmilegur sé, til Barcelona t. d. Hitt er vandi, eins og hv. frsm. réttilega tók fram, að ráða fram úr því vandamáli, að ef fiskur, sem verkaður er fyrir vissan markað, einkanlega framan af sumri, gengur ekki út á markaðinum, því að markaðurinn annaðhvort getur ekki eða vill ekki taka við fiskinum, þá er við því búið, að léttverkaði fiskurinn breytist svo mikið, að hann verði óhæfur til útflutnings, þegar kemur fram á vetur.

Nú er svo komið, að mikið af Barcelonafiski er eftir bæði á Aust- og Vestfjörðum, en meðan Barcelona vildi kaupa, sem var sérstaklega í maí og júní, þá var enginn fiskur til um þetta leyti árs á Austfjörðum og lítill á Vestfjörðum. Stafaði það af hinu óvenjumikla votviðri.

Þetta stafar af því m. a., að aðrar þjóðir, sem hafa ótakmarkað innflutningsleyfi til Spánar, svo sem Færeyingar, senda mikið af sínum fiski þangað, og sá fiskur líkar yfirleitt vel. Það hefir lítið verið selt héðan á þennan markað frá því í júní í vor. Af þessu stafar það m. a., að nú um mánaðamótin september og október var minna flutt út frá Austfjörðum tiltölulega heldur en frá Sunnlendinga- og Vestfirðingafjórðungi, en nú hygg ég, að svo sé komið, að þeir séu a. m. k. búnir að ná Vestfjörðum. (IngP: Að magni). Það hafa ekki fengizt fluttir út nema 4000 pakkar af fiski til Spánar frá Fisksölusamlagi Vestfirðinga á þessu ári, og 1500 til Bilbao.

Enn hefir ekkert verið hægt að selja á N.-Spánarmarkaðinum, og það stafar m. a. af því, að við höfum takmarkað innflutningsleyfi, svo að nú liggur það mikið af fyrra árs fiski, að vitanlega er ómögulegt að komast hjá því, að hann sitji fyrir framan af árinu, til byrjunar maímánaðar. Fyrst nú er von á því, að innflutningsleyfi fáist í janúar, sem beðið er eftir, til þess að fiskurinn komist á markaðinn í janúar. Því miður hafa kaupendur á Spáni ekki enn fengið þessi innflutningsleyfi, sem þeim voru lofuð fyrir hálfum mánuði síðan. Vonandi rætist samt bráðlega úr þessum örðugleikum, enda þó engu sé reyndar að treysta um þessi viðskipti, eins og nú horfir við um heimsviðskiptin.

Brtt. b. á þskj. 476 er miklu fyllri en síðasta málsgr. frv., eins og það er nú, og ég fyrir mitt leyti get mælt með því, að hún verði samþ.

Um brtt. undir tölul. 2 frá hv. meiri hl. n. er það að segja, að hún er einungis orðabreyt. og á einkanlega við a-lið 1. brtt. á sama þskj.

Ég geri ráð fyrir, að hv. meiri hl. taki hana aftur, því að hún stendur í sambandi við þá brtt., sem búið er að taka aftur.