04.12.1934
Efri deild: 52. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2253 í B-deild Alþingistíðinda. (2878)

106. mál, vélgæsla á mótorskipum

Jón Auðunn Jónsson:

Ég hefi getað fallizt á breyt. þær, sem n. gerir um aukningu hestafla véla, sem þessir umræddu menn mega starfa við. En að sjálfsögðu með því skilyrði, sem þar er selt í viðbótargrein, að þeir skuli ganga undir verklegt og munnlegt próf, skv. reglugerð frá atvmrh. Hæstv. atvmrh. er ekki við nú, en ég vil samt taka það fram, að það er mín meining, að prófreglurnar verði samdar þannig, að ekki sé hætta á öðru en að þeir hafi fullkomna þekkingu í starfinu, sem leyst geta af höndum prófið. Ég býst við, að hæstv. ráðh. muni kveðja sér til aðstoðar Vélstjórafélagið, og Fiskifélag Íslands sérstaklega, sem hefir með höndum öll önnur mál sjávarútvegsins, og þá einnig þetta mál, og verði eftir því litið, að ekki séu gerðar svo léttar og litlar kröfur til vélgæzlu á skipum að mannslífa- eða fjártjón geti af hlotizt. Það er margur vélstjóri, sem stundað hefir vélgæzlu á skipunum með upp í 150 hestafla vél, sem er raunverulega fær um að stjórna miklu stærri vélum. Í því er líka falið mikið öryggi, að sá einn hefir rétt til að vera 1. vélstjóri við stærri vélar, sem stundað hefir vélgæzlu við samskonar vélar a. m. k. 6 mánuði að undangengnu verklegu og munnlegu prófi, sem atvmrh. setur reglugerð um. — Þar sem hæstv. atvmrh. er nú staddur í d., skal ég endurtaka það, sem ég áðan sagði, að ég vænti þess, að um leið og prófreglugerðin er sett, leiti hann umsagnar Fiskifél. Ísl. fyrst og fremst, og svo auðvitað álits fagmanna í þessari grein, t. d. Vélstjórafél. Ísl. og forstjóra skipaskoðunarinnar, sem er vélfróður maður, og að sjálfsögðu heyra álit mótorvélstjóra á málinu. Annars er ég og fleiri þeirrar skoðunar, að skipta þurfi þessari kennslu þannig, að þeir mótorvélstjórar, sem ætla að fá að fara með stærri vélar, eigi kost á t. d. 6—9 mánaða kennslu. Það er dálítið sitt hvað, almennar mótorvélar eða gufuvélar, en vélstjórar, sem taka próf og eru vel færir í sínu starfi, eru auðvitað fljótir að kynnast því. Ég legg áherzlu á, að þetta munnlega og verklega próf verði trygging fyrir því, að menn séu hæfir til starfans, og fái ekki skírteini að öðrum kosti. En standist þeir prófið, og sé vel um það búið, þá tel ég hættulaust, að þeir fái skírteini, er heimili þeim að stjórna slíkum vélum.