30.11.1934
Sameinað þing: 17. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 254 í B-deild Alþingistíðinda. (288)

1. mál, fjárlög 1935

Frsm. minni hl. (Magnús Guðmundsson):

Það er svipað um þennan síðari kafla fjárl. að segja og þann fyrri, að margar af brtt. á þskj. 30A eru sameiginlegar frá báðum hlutum n., og þar sem hv. frsm. meiri hl. talaði fyrir þeim öllum, þarf ég aðeins að minnast á þær, sem ágreiningur var um í n. Skal ég þá fyrst nefna 47. brtt., um að lækka styrkinn til kvennaskólans á Blönduósi. Um þetta var mikill ágreiningur í n. Þótti minni hl. mjög ósanngjarnt að ráðast þannig á næstelzta kvennaskóla landsins. Það kom fram hjá hv. frsm. meiri hl., að Blönduósskólinn hefði haft hlutfallslega meiri styrk en skólarnir á Hallormsstað og Laugum. En þetta er ekki rétt, því að auk hinnar eiginlegu fjárveitingar eru 5000 kr. veittar hvorum þessara síðarnefndu skóla til rafveitu, og til þessa tekur hv. frsm. meiri hl. ekkert tillit. Það er því ekki nema sanngjarnt, þó tekið sé tillit til þess, með dálítið hærri styrk til Blönduósskólans. Þessi till. meiri hl. er því ekki á rökum byggð, og vona ég, að hv. þm. sýni þessum gamla skóla þann sóma að lækka ekki styrkinn til hans úr því, sem hann er í fjárl.frv. stj. Ég skal lýsa því yfir, að ef þessi till. verður tekin aftur af meiri hl.. skulum við minni hl. taka aftur till. okkar um að nema burt 3 þús. kr. styrk að Laugum og Hallormsstað. Ef hv. meiri hl. vill ekki ganga inn á þetta, er bersýnilegt, að hann vill gera Blönduósskólanum rangt til. Það er vitanlegt, að kvennaskólinn á Blönduósi þarf að taka talsvert af sínum styrk til endurbóta á skólahúsinu. T. d. var það upplýst fyrir n., að 1933 hefði þurft að taka um 3 þús. kr. til að gera við efsta loft skólans, svo að það yrði íbúðarfært.

Næst eru 50. og 55. brtt. á þskj. 508 um styrk til að byggja 2 skóla, annan nýjan en hinn gamlan. Minni hl. lítur svo á, að í svona árferði sé ekki hægt að ráðast í miklar framkvæmdir, sem mikið útlent efni þarf til. Hér er ekki aðeins um það fé að ræða, sem nú þarf að leggja fram, heldur er framtíðinni bundinn baggi til næstu ára, því miklu meira mun þurfa síðar til þessara bygginga en frsm. hefir tekið fram, að veita ætti nú. Það hefir oftast farið svo undir handleiðslu þessa hv. þm., að fjárveitingarnar hafa sjaldan nægt, ekki sízt ef um skólabyggingar er að ræða. En það er eins og hv. meiri hl. álíti tímana þannig nú, að hægt sé að leika sér með peningana. Ég neita því ekki, að það væri gott og æskilegt að geta komið upp þessum skólum, en það er margt, sem kallar að og er meiri nauðsyn en að reisa nýja skóla.

Ég skal í eitt skipti fyrir öll taka fram, að ég ætla ekki að ræða nú um persónulega styrki, sem till. fjalla um. Býst ég við, að það sé svo um suma hv. þm. meiri hl., að einhverjir þeirra greiði atkv. móti einstökum persónulegum styrkjum, sem brtt. gera ráð fyrir. Ég get ekki fengið mig til að ræða um þá smámuni nú, því ég vil, að það stóra gangi fyrir. Það hefir ekki mikið að segja, hvort 2—5000 kr. fjárveiting í því skyni er samþ. eða ekki. Það, sem skiptir máli, eru hinar stóru upphæðir, sem jafnvel fæða af sér önnur enn stærri framlög.

Þá er 70. brtt. um, að Búnaðarfél. Íslands greiði laun Einars Helgasonar garðyrkjustjóra. Hv. frsm. meiri hl. mælti svo fyrir till., að Einar Helgason væri fyrrv. starfsmaður Búnaðarfélagsins og því væri eðlilegt, að það greiddi honum eftirlaun. En ég lít ekki þannig á eða minni hl. n. Einar er fyrir löngu farinn frá Búnaðarfél. og ríkið hefir fyrir löngu tekið að sér að greiða honum laun. Og þótt Einar væri búinn að starfa lengi og vel hjá Búnaðarfél., er ekki sannað, að það taki við honum aftur. Og það er einmitt þetta, sem ekki má gleymast í þessu sambandi, að það er ekki víst, að Búnaðarfélagið vilji gera þetta, og skipað getum við ekki. Það gæti því farið svo, að þá fengi hann ekki neitt. Ég veit ekki hvort það er meining hv. meiri hl. að fara þannig að, en ég lít svo á, að þessa till. beri alls ekki að samþ.

Þá er 71. brtt. viðvíkjandi húsameistara Jóh. Fr. Kristjánssyni. Hefir þetta fé verið notað til að borga honum fyrir leiðbeiningar til bænda um byggingar í sveitum. Hv. frsm. meiri hl. mælti svo fyrir þessari till., að það væri ekki meiningin, að sá maður, sem hér á hlut að máli, missti nokkurs í við þessa breytingu. Vitanlega á hann ekki að verða hart úti, en þó er ekki nema eðlilegt, að hann taki þátt í lækkun launa eins og aðrir. Hann hefir nú 9000 kr. laun, og ætti ekki að missa hlutfallslega meira en aðrir. Má segja svipað um þessa till. og um laun Einars Helgasonar, að ekki er víst, að landnámssjóður vilji greiða kostnað af því að gefa bændum upplýsingar og leiðbeiningar um húsabætur í sveitum. Væri þá illa farið, og því vissara áður en till. er samþ., að vita, hvort Búnaðarbankinn vill borga þessum manni og veita leyfi til þess, að hann gefi bændum áfram þær leiðbeiningar, sem hann hefir veitt að undanförnu. Ég skal játa, að ég greiddi atkv. með þessari brtt. í n., en að athuguðu máli held ég, að réttara sé að taka hana aftur til 3. umr. og leita upplýsinga um, hvort Búnaðarbankinn vill taka að sér leiðbeiningastarfið, því það má ekki fella niður.

Þá kemur 78. brtt., um rafmagnseftirlit ríkisins. Ég skal ekki fara langt út í það mál, enda hefir frsm. meiri hl. farið ýtarlega út í það, og mig brestur þekkingu á því sviði til þess að víta, hvort því er jafnáfátt og a

f er látið. En mér þykir rétt að taka fram, að það hafa komið geysimiklar umkvartanir úr mínu kjördæmi, en ég veit ekki, á hve miklum rökum þær eru byggðar. Ég hefi ekki sett mig inn í, hvort rétt er að leggja rafmagnseftirlitið niður sem sérstaka stofnun, en ef það yrði gert, ætti ekki að vera ágreiningur um, að landssíminn tæki þá við því.

85. brtt. er viðvíkjandi Pétri Sigurðssyni, um að liðurinn falli burt, en að stórstúkan greiði honum laun. Kemur hér svipað fram og um 2 till., sem ég hefi talað um hér á undan, að fjvn. eða Alþ. geta ekki skipað fyrir um það. Mun því vera réttara að lofa þessum lið að halda sér, því styrkurinn til stórstúkunnar er ekki svo hár, að það veiti af að lofa honum einnig að halda sér, án þess að hún þurfi að launa þennan mann. Ég hefi líka fyrir satt, að maðurinn sé góður fyrirlesari og bindindisfrömuður, sem hafi mikil áhrif. Ég held því, að þegar verið er að afmá síðustu slitur bannlaganna, sé gott að hafa slíka áhugamenn til þess að starfa í þágu bindindismálsins. Ég er því mótfallinn að fella niður þessa styrkveitingu.

Þá eru hér nokkrar hliðstæðar brtt., nr. 86, 87 og 88, sem minni hl. hefir ekki mælt á móti, en lætur hlutlausar. Var svo fyrir þeim mælt, að það væru kommúnistar, sem að þeim stæðu, en mér er alveg ókunnugt um það og læt því alveg kylfu ráða kasti um, hvernig með þær verður farið.

90. brtt. er um að fella alveg niður styrkinn til elliheimilisins á Grund. Þessu er minni hl. alveg mótfallinn. Ég verð að segja, að mér fannst hv. þm. meiri hl. fatast rökfimin, þegar hann var að mæla fyrir þessari till. Aðalrökin voru þau, að stofnunin væri svo stór og dýr, að þess vegna þyrfti hún ekki styrk. Það er viðurkennt, að stofnunin sé stór og myndarleg og hafi orðið dýr, en ég held, að það sé óhætt að fullyrða, að það sé eins dæmi, að svo dýrri stofnun hafi verið komið upp með jafnlitlum styrk frá því opinbera. Ég tel því ekki rétt að svipta elliheimilið þeim styrk, sem það hefir notið. Það var einnig upplýst í fjvn., að þar væru mörg gamalmenni, sem ekki gætu verið þar áfram, ef þau nytu ekki góðs af þessum styrk, en það virtist engin áhrif hafa á meiri hl. n. og leit út fyrir, að það hefði verið fyrirfram ákveðið að fella styrkinn niður.

Það þarf ekki að draga neina dul á, að það, sem hér ræður, er ekki annað en kali til þess manns, sem mest hefir barizt fyrir að koma þessari stofnun upp. Sú hlutdrægni kemur bersýnilega fram, þegar fella á niður þennan styrk, en halda honum við samkynja stofnanir á Seyðisfirði og Ísafirði. Ef nokkursstaðar er þörf fyrir svona heimili, þá er það vitaskuld hvergi eins og hér í bænum, þar sem flest er af fólki, sem er í þörf fyrir að komast á slíkt heimili.

Það er því gleðilegt til þess að vita, að búið er að koma upp jafnmyndarlegu heimili eins og hér er. En það er hart, ef Alþ. vill ekki sýna því svo litla viðurkenningu, að veita því 4—5000 kr., því það get ég sagt hv. meiri hl., að þó hann vilji þannig hefna sín á þeim gamalmennum, sem þar eru, með því að fella niður styrkinn, þá má hann vita það, að heimilinu verður ekki lokað. Þá ánægju skulu hv. þm. meiri hl. aldrei fá.

Þá skal ég aðeins nefna 97. brtt. Ég held, að hv. frsm. meiri hl. hafi ekki minnzt á, að það er nýr liður til Jósefs J. Björnssonar kennara á Hólum. Er fyrir því gömul þingsamþ. að láta þennan gamla góða kennara fá laun, þegar hann hætti störfum. En það hefir gleymzt hjá hæstv. stj. að taka þennan lið upp í 18. gr. fjárlfrv.

Þá vil ég rétt minnast á 110. brtt., um endurgreiðslu úr lífeyrissjóði embættismanna. Hv. frsm. meiri hl. sagði, að um það færi eftir l., en það er einmitt ekki, og þess vegna þarf stj. að fá sérstaka lagaheimild fyrir greiðslunni. Tilætlun n. var, að stj. fengi tækifæri fyrir næsta þing til þess að endurskoða lögin um lífeyrissjóð embættismanna, í því skyni að rýmka ákvæðin um endurgreiðslur úr sjóðnum. Nú geta embættismenn ekki fengið útborgað úr sjóðnum, nema þeir hafi orðið að láta af embætti sökum elli eða vanheilsu. Það var orðað í n., að þegar menn flytjast milli starfsgreina, t. d. ef fyrrv. kennari verður embættismaður eða öfugt, gæti verið heppilegt að flytja safnaðar tryggingarupphæðir milli sjóða. En það má ekki gleyma því, að þeim sé tryggður sjóðurinn, embættismönnunum, sem eiga hann. — Þá hefi ég drepið nægilega á brtt. á þskj. 508.

Skal ég þá víkja nokkrum orðum að brtt. á þskj. 582. Þar er fyrst brtt. viðvíkjandi Búnaðarfélagi Íslands. Ég ætla að geyma mér að tala um hana, þangað til ég kem að till. minni hl. viðvíkjandi þessu máli. En um 2. brtt. á sama þskj. er það að segja, um a-liðinn, að minni hl. er þeirri till. algerlega samþ., og um b-lið, sem hv. meiri hl. hefir breytt dálítið frá því, sem hv. stj. lagði til, er það að segja, að ég geri ekki ráð fyrir, að hann valdi neinum ágreiningi út af fyrir sig, ef samkomulag verður um c-liðinn, þ. e. laun þeirra manna, sem taka laun utan launalaga. Minni hl. n. er óánægður með þennan lið eins og hann er orðaður hér. Ég tel hann allt of óákveðinn, og álít ég því litla bót að því, að hann sé samþ. eins og hann liggur hér fyrir. Í sambandi við þetta vil ég fyrst spyrja hv. stj. að því, hvort hún hafi gert ráðstafanir til þess að segja upp þeim mönnum, sem hér eiga hlut að máli, og láta þá vita, að þeir verði að búast við launalækkun. Ef þetta hefir ekki verið gert, þá losna margir þeirra við að taka á sig nokkra launalækkun, a. m. k. helming ársins 1935. Þess vegna er mjög áríðandi atriði, hvort hv. stj. hefir gert þetta eða ekki. Ég vona, að hv. frsm. eða hæstv. stj. upplýsi þetta. Ég fyrir mitt leyti geng út frá því, að hæstv. stj. hafi ekki verið svo hirðulaus um þetta mál, að hún hafi látið undir höfuð leggjast að gera þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar eru, til þess að geta einnig sparað í launum þeirra, sem fá laun utan launalaga, því að það er lýðum ljóst, að þau laun eru miklu hærri heldur en laun þeirra, sem taka laun eftir launalögum.

Það er ranglæti, sem hæstv. stj. hefir stungið upp á í þessu máli, að láta lækka öll laun, sem greiðast eftir launalögum, en færa ekkert niður þau laun, sem eru greidd utan launalaga. Þetta hefði hv. stj. átt að sjá, þegar hún var að semja frv., því að það kemur fyrir þar hvað eftir annað, að undirmenn verða betur launaðir en yfirmenn, einmitt fyrir þessa lækkun dýrtíðaruppbótarinnar. Stj. hefir á þennan hátt fengið svo kröftuglega áminningu um, að hér hlyti eitthvað að vera bogið, að ég á bágt með að trúa, að hún hafi ekki gert þær ráðstafanir að láta þessa menn vita, að þeir gætu átt von á launalækkun. Það er ekki hætt við því, að hæstv. fjmrh. hafi ekki vitað um, hversu há þessi laun eru, sem greidd voru mönnum utan launalaganna, því að hann greiddi sjálfur aðstoðarmanni sínum á skattstofunni 11000 kr. síðastl. ár.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að sparnaðurinn við till. meiri hl. næmi ekki meiru en 26000 kr. Mér kemur þetta allundarlega fyrir sjónir, og ég get alls ekki skilið, hvernig þetta er reiknað út. Mér finnst þetta ætti að vera þannig, að engum væri borgað hærra, sem tekur laun utan launalaga, en þeim, sem fá hæstu laun eftir launalögunum. Verði sú regla tekin upp, sparast á þann hátt stórfé. Ég hefi ekki enn haft tíma til þess að reikna þetta út, en ég vona, að ég verði búinn að semja áætlun um þetta atriði fyrir 3. umr.

Það er ekki von, að starfsmenn þess opinbera, sem taka laun eftir launalögum, sætti sig við það, að þeirra laun séu miklu lægri en laun margra, sem fá sín laun greidd utan launalaga, og þó er eins og hæstv. stj. ætli sér ekki að færa þeirra laun neitt niður. Sýslumenn landsins hafa lægri laun eftir þessu heldur en jafnvel skrifarar á skrifstofum þeirra embættismanna hér í bænum, sem fá skrifstofukostnaðinn greiddan eftir reikningi. Þetta er svo mikið ranglæti, að við það er ekki hægt að una.

Ég tók ekki eftir því, að hv. frsm. meiri hl. ræddi nokkuð um brtt. n. á þskj. 613. Þar eru smábrtt., sem samdar hafa verið eftir að n. skildi að borði og sæng, ef svo mætti að orði kveða. Ég geri ráð fyrir, að það þurfi ekki annað en að upplýsa, í hverju þessar tölubreyt. liggja. Sennilega liggur þetta í því, að einhver nýr embættismaður hefir bætzt við á eftirlaun og einhverjir dáið. En viðkunnanlegra hefði verið að nefna þetta.

En aðalbreyt. á 18. gr. I., sem n. í heild gerði, stafaði af því, að stj. taldi próf. Sæmund Bjarnhéðinsson eiga heimtingu á eftirlaunum lögum samkvæmt. Það er að vísu ekki rétt, en n. er hinsvegar sammála um það, að þessum manni beri að veita sérstök eftirlaun, þar sem hann hefir lengi gegnt vandasömu starfi og leyst það vel af hendi. Það var enginn ágreiningur í n. um fjárveitingu til þessa manns.

Skal ég þá koma að brtt. okkar minni hl. á þskj. 543.

4. brtt. fer fram á það, að styrkgreiðsla til verklegs framhaldsnáms erlendis sé lækkuð úr 10000 kr. niður í 5000 kr. Fyrir n. lá ekki nein skýrsla um, hvernig á slíkri hækkun stæði í frv., og þessi liður hefir aldrei verið hærri en 4000 kr., en nú leggur minni hl. n. til, að upphæðin verði lækkuð úr 10000 niður í 5000 kr., m. a. vegna þess, að allt þetta fé fer út úr landinu. Einmitt á þeim tímum, sem vandræði eru með greiðslu til útlanda, ætti hæstv. stj., svo framarlega sem hún meinar nokkuð með hjali sínu um sparnað á greiðslu til útlanda, að spara einmitt á svona lið. Ef eitthvað sérstakt liggur hér á bak við, þá verður það að koma fram; enn sem komið er hefir ekkert slíkt komið fram í n.

Þá kemur hér næst liður til raflýsingar á Eiðum o. fl. Það er 50 þús. kr. liður, og hlýtur mikill hluti af því fé að fara til útlanda. Ég skil ekki, að það liggi svo mikið á þessu, að það sé nauðsynlegt að velja slæmt ár, eins og nú er, til þessarar framkvæmdar. Ég geri ráð fyrir, að Austfirðingar komi og segi, að þetta sé hlutdrægni, en þetta er svo stór liður, að ég tel, að hann verði að bíða, eins og svo margt annað. Fyrir n. lá engin áætlun um þetta verk, en í aths. hæstv. stj. við frv. stendur, að kostnaðaráætlun verði lögð fyrir n. Hún kom aldrei.

Um næsta lið hefi ég í rauninni áður rætt, er ég talaði um kvennaskólann á Blönduósi, og vísa ég til þess, og sömuleiðis 8. brtt., um rafveitu á Hallormsstað.

Þá er framlag til gagnfræðaskóla Reykjavíkur, til þess að byggja skólahús hér í bænum. Álítur minni hl., að sama regla verði að gilda um þann skóla og aðra skóla og að ekki sé rétt að byggja ný skólahús í árferði eins og nú, en hv. meiri hl. n. vill nú leggja út í að byggja 3 skóla.

9. brtt. fer fram á það, að atvinnubótastyrkurinn sé lækkaður úr 500 þús. niður í 300 þús. kr., eins og hann er áætlaður í fjárl. yfirstandandi árs. Ástæðan til þess, að minni hl. flytur þessa till., er sú, eins og ég tók fram við 1. umr., að næstu 3 ár liggur fyrir framkvæmd langstærsta mannvirkis, sem nokkru sinni hefir komið til mál, að hrinda af stokkunum hér á landi, og á ég þar við Sogsvirkjunina. Verði ekki tekið tillit til þessa, kemur mér það allundarlega fyrir sjónir, því að vitanlega á þessi atvinnubótastyrkur að vera til þess að hjálpa í atvinnuleysi, en því meira sem framkvæmt er, því minna hlýtur atvinnuleysið að verða. Ég sýndi fram á það við 1. umr., að verkalaun fyrir þetta mikla mannvirki geta ekki orðið minni en 600000 kr. á ári hverju næstu 3 ár. Mér kemur það kynlega fyrir sjónir, ef hv. meiri hl. telur alls ekki rétt að taka tillit til þessa atriðis. Ef þessi rök duga ekki, er gagnslaust að rökræða við hv. meiri hl.

Svo kemur annað atriði til greina í þessu máli, það, að á móti þessum 500000 kr. leggi sveitarfélögin 1 millj. kr. Hvaða líkindi eru til þess, að sveitar- og bæjarfélög geti lagt fram 1 millj. kr. 1935 í þessu skyni? Það er alls enginn möguleiki til þess. Þess vegna skilst mér, að þessi upphæð sé aðeins sett til þess að sýnast, eða að ekki eigi að fara eftir því, sem aths. segir, um að tvöfalt framlag skuli koma frá hlutaðeigandi bæjar- eða sveitarfélögum.

Eitt atriði kemur enn til greina. Hæstv. ríkisstj. hefir breytt þessari aths. þannig, að nú er stj. ekki skylt að hjálpa bæjar- og sveitarfélögum til þess að fá lán í þessu skyni. Hvernig halda menn, að bæjar- og sveitarfélög geti fengið 1 millj. kr. lán í þessu skyni nú á þessu erfiða ári? Ekki er hætt við því, að þau geti tekið þetta af því fé, sem þau hafa handa á milli, svo að það getur ekki verið um annað en lántöku að ræða. Lántaka innanlands er útilokuð, skilst mér. Það er líka útilokað, að lán fáist erlendis, nema með því móti, að ríkissjóður ábyrgist. Engin slík ábyrgðarheimild liggur fyrir. Þessi fjárveiting verður þess vegna að nokkru leyti aðeins pappírsgagn. Ég er sannfærður um það, að bæjar- og sveitarfélögin geta ekki lagt fram á móti meiru en 300 þús. kr., eins og minni hl. leggur til, að veittar verði.

Það er eins og hæstv. stj. og hv. meiri hl. n. sé skilningslaus á það, hvílík fjárhagsvandræði steðja nú að bæjar- og sveitarfélögum. Það er jafnvel svo langt komið í þessu efni, að bæjar- og sveitarfélögin eiga mjög örðugt með að greiða lögboðnar greiðslur. Svo bætist það við, að þeim er sagt að leggja fram 1 millj. kr. til atvinnubóta, og jafnframt er þeim fyrirskipað í aths., að þau skuli halda uppi jafnmiklum öðrum framkvæmdum eins og venja er til. Um leið og hv. Alþ. fyrirskipar þetta hnuplar það frá sveitar- og bæjarfélögunum þeim tekjustofni, sem hingað til hefir verið álitinn þeirra réttmæta eign. Nú er svo langt gengið í þessu efni, að bæjar- og sveitarfélögin eru farin að reyna að ná sér í tolla af algengum vörum. Við minnihl.menn sjáum, að þessi stefna, sem hv. meiri hl. hefir tekið upp gagnvart bæjar- og sveitarfélögunum, verður til þess að leggja efnahag þeirra í rústir, svo framarlega sem ekki er snúið við á þessari braut.

Skal ég þá næst drepa á 11. og 12. till. saman. Þær fjalla um það, að leggja ekki fram 100 þús. kr. til Byggingar- og landnámssjóðs á næsta ári, og ekki heldur sömu upphæð til verkamannabústaða, til þess að forðast erlend kaup sem mest, og ennfremur sökum þess, að fyrirsjáanlegt er, að það verður miklu meira um atvinnu á næsta ári en venja er til.

Ég á þá ekki eftir aðrar till. en 10. brtt. á þskj. 543, viðvíkjandi Búnaðarfélagi Íslands. Þar hefir hæstv. stj. ætlað með aths. í fjárl. að setja í raun og veru heilan lagabálk um Búnaðarfélagið, og leggur minni hl. til, að þessi aths. verði felld burt. Það lítur út fyrir, að hv. meiri hl. n. hafi fengið einhverja eftirþanka um, að þessi aths. væri ekki eins vænleg til framgangs og ætlazt var til, og þess vegna hefir hv. meiri hl. komið með nýja orðun á þessari aths. Ég verð að segja það f. h. minni hl. n., að okkur furðar stórlega á því, að hæstv. stj. skuli ætla að taka Búnaðarfélagið slíkum tökum. Okkur er ekki ljóst, að þetta félag hafi svo til saka unnið, að það verðskuldi þá meðferð, að vera tekið með valdi og breytt þvert ofan í þess eigin vilja. Það er kunnugt, að Búnaðarfélag Íslands er þannig upp byggt, að í því eru allir bændur, sem eru í búnaðarfélögum landsins. Í Búnaðarfélaginu eru því allir bændur, sem jarðabætur vinna og styrk fá.

Ég tók eftir því í gær hjá hv. frsm. meiri hl., að hann breiddi sig mjög yfir það, að búnaðarmálastjórarnir hefðu verið og væru tveir, og þessi ráðstöfun hefði verið gerð þvert ofan í vilja búnaðarþingsins. Ég held, að hér sé ekki um neina gífurlega sök að ræða, en væri svo, þá bitnaði þetta eingöngu á búnaðarfélagsstjórninni sjálfri. Þetta er aðeins kostnaðaratriði. Það er ekki um annað að ræða en mismun á launum ráðunauta og búnaðarmálastjóra. Ég get fallizt á það með hv. frsm. meiri hl., að óþarft sé að hafa tvo búnaðarmálastjóra, en ég hélt ekki, að hv. frsm. meiri hl. ætlaði að kasta þungum steini á form. Búnaðarfélagsins, og það hefði hann ekki átt að gera. A. m. k. hefir hann stundum viljað verja hann fyrir grjótkasti, en það hefir ef til vill eitthvað breytzt upp á síðkastið í þessu efni. Það er mín skoðun, og ég hygg, að það sé skoðun alls minni hl., að engin ástæða sé til þess að áfella stjórn búnaðarfélaganna fyrir það, að hafa látið Sigurð Sigurðsson halda búnaðarmálastjórastöðunni. Ég get ekki talið eftir þau laun, sem hann hefir fengið, því að ég hygg, að vandfundinn muni vera sá Íslendingur nú á dögum, sem þarfari hefir verið íslenzkum landbúnaði.

Það getur ekki verið meining hv. meiri hl., að það sé einhver glæpur að hafa Sig. Sigurðsson búnaðarmálastjóra áfram. Almenningur í landinu lítur ekki þeim augum á þetta mál. Þetta er ekki heldur hin raunverulega ástæða fyrir herferðinni á hendur Búnaðarfélaginu. Hv. frsm. meiri hl. talaði um smíðagalla á Búnaðarfélaginu. Ég vildi helzt, að hv. meiri hl. leyfði bændum landsins að smíða sitt eigin félag, án þess að hann væri að sletta sér fram í það. Það er ekki víst, að bændur álíti þetta smíðisgalla, þótt hv. meiri hl. álíti það.

Hv. frsm. sagði, að Búnaðarfélagið hefði verið kúgað hér á hv. Alþ. 1923. Ég hygg, að það hafi ekki verið. Þá var aðeins gerð breyt. viðvíkjandi skipun stj. Búnaðarfél., og var það með góðu samþ. fél. sjálfs. Búnaðarfél. er félagsskapur einstakra manna, það er hægt að svipta það styrk hér, en það er ekki hægt að leggja það niður. En að svipta það styrknum væri ósæmileg kúgun. Ef maður ber saman þessa till. meiri hl. og till. stj., fæ ég ekki séð, að mikill munur sé á. Till. frá meiri hl. er styttri, en segir það sama, a. m. k. má ná sama marki með henni og með till. stj.

Ég ætla ekki að lengja mál mitt meira; sennilega hefi ég gleymt einhverju, en gefst þá vonandi tækifæri síðar til þess að ræða um það.