15.12.1934
Neðri deild: 60. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2263 í B-deild Alþingistíðinda. (2896)

106. mál, vélgæsla á mótorskipum

Sigurður Kristjánsson [óyfirl.]:

Hv. 3. landsk. fyrirgefur, þó ég segi aðeins hv., en hann nefndi mig hæstv.; það var án tilmæla frá mér. — Hv. þm. sagði, að ekki væri rétt að tala um meira og minna próf. Er það rétt að því leyti, að prófið er dálítið annað. Er vitanlegt, að menn á mótorskipum hafa próf, að vísu ekki mikið, enda ekki mikil réttindi, en menn, sem ganga í vélstjóraskólann, hafa langt og erfitt nám, og þó krafizt sé, að þeir moki kolum, sannar það ekki, að þeir séu óhæfari en aðrir fyrir það. Í vélstjóraskólanum fá menn 4 stunda kennslu á viku í meðferð mótorvéla. Hér er ekki beinlínis um að ræða, hvort þessi próf frá vélstjóraskólanum eru fullkomin eða ófullkomin, heldur er aðeins um það að ræða, hvar eigi að setja réttindamarkið fyrir þá, sem ekki hafa verið í vélstjóraskóla. Skilst mér, að bezt væri, að samin yrði löggjöf um þetta af kunnáttumönnum í þeirri grein. Þó nokkurt kapp sé milli lærðra vélstjóra og ólærðra, mundi það jafnast fljótt, ef þetta væri ákveðið í löggjöf sem samin væri af færum mönnum.

Hv. 3. landsk. var að gefa í skyn eða fullyrti, að beitt hefði verið hlutdrægni um það, hverjir fengu að flytja mál sitt fyrir sjútvn. Nd. Þetta er alls ekki rétt. Ég veit ekki annað en n. hafi tekið á móti öllum, sem við hana vildu ræða, en hitt má vel vera, að menn séu misjafnlega áhugasamir og árvakrir. Enda eiga menn ekki að láta hræra í sér með agitation, að svo miklu leyti sem þeir hafa sannfæringu.

Ég get sagt það, að til mín hefir komið kunningi minn, sem er á móti mér og talaði við mig um málið af stillingu; þó hann fylgdi sínu máli af áhuga, þá færði hann rök fyrir því, á hverju hann byggði sína skoðun, af hyggindum og sanngirni. En það hafði engin minnstu áhrif á mig eða mína skoðun. Það er satt og ómótmælanlegt, að þeir, sem eru á móti frv., hafa lagt fram fyllri gögn. Ég get ekki hugsað mér, að hv. 3. landsk. ætli sér þá dul að sópa burt gögnum, sem byggð eru á umsögn og þekkingu kunnáttumanna, og hrinda með offorsi rökum þeirra manna, sem hafa a. m. k. sömu þekkingu og meiri samvizkusemi; manna eins og skipaskoðunarstjóra, sem engra hagsmuna hefir að gæta í þessu efni.

Að því er snertir tryggingarfélögin, þá þekki ég ýmsa þá menn, sem að þeim standa, að því að vera engir veifiskatar, og treysti þeim miklu betur en hv. 3. landsk. til þess að láta ekki hafa áhrif á sig, og er það heldur óviðeigandi málflutningur, að halda því fram, að þeir hafi skrifað undir þessi skjöl móti betri vitund. Viðvíkjandi því, sem hv. þm. sagði, að álit skipaskoðunarstjóra væri um frv. eins og það var upphaflega, en ekki eins og það kom frá Ed., vil ég benda á, að það er tekið fram í vélstjóravottorðinu, að vélastærð sé allt að 300 hö., sem heimildin nái til, og talið sjálfsagt, að sett verði ný lög, sem afmarki skýrt, hvaða skilyrða verði krafizt, í hlutfalli við stærð véla og ha.tölu.

Vil ég svo endurtaka, að engum er gert rangt til með till. sjútvn., þar sem tekið er jafnt tillit til beggja aðila. En menn geta séð, að þegar tveir aðilar bera fram kröfur, sem langt er á milli, er ekki gott að gera báða ánægða, og er þá helzt að báðir slái nokkuð af. Þó ekki sé útilokað, að annar geti haft rétt fyrir sér, hygg ég, að svo sé ekki í þessu tilfelli, og megi því báðir vel við una. Ég er sjálfur ekki sérfræðingur í þessum efnum, og vil því binda mig meir við álit sérfróðra manna.