15.12.1934
Neðri deild: 60. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2264 í B-deild Alþingistíðinda. (2897)

106. mál, vélgæsla á mótorskipum

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Ég held, að hv. 6. þm. Reykv., sem hóf hér andmæli gegn þessu frv., hafi ekki fullkomlega áttað sig á því, hvernig þetta mál liggur nú fyrir og hvað í því felst. Það, sem felst í þessu frv., er ekkert annað en það, að mótoristum, þ. e. a. s. þeim, sem tekið hafa próf og hafa rétt til að fara með vélar allt upp í 150 hestöfl, sé gefinn kostur á að ganga undir próf að nýju til þess að fá viðurkenningu, vitanlega þar til hæfra manna á því, hvort þeir hafi ekki eftir a. m. k. 3 ára starf bætt við sig þeim þekkingarforða, með þeirri reynslu og æfingu, sem þeir hafa haft í sínu starfi á þessum tíma, að það eitt nægi til viðbótar þeirri bóklegu þekkingu, sem þeir hafa öðlazt með mótorprófi, til þess, að öruggt sé að færa út réttindi þeirra eins og hér er gert ráð fyrir í þessu frv. Það er þetta og ekkert annað, sem í frv. felst. Ég er þess vegna alveg undrandi yfir því, þegar verið er að tala um það í þessu sambandi, að hér sé verið að skerða öryggi sjófarenda með því að gefa mótoristum kost á að geta fengið þessi auknu réttindi. Þetta getur ekki byggzt á neinu öðru en vantrausti á þeim mönnum, sem eiga að hafa þessi próf á hendi, því að það kemur vitanlega ekki til mála, að neinir aðrir af mótoristum en þeir, sem að dómi sérfræðinga, sem eiga að hafa prófið á hendi, eru færir í þessari grein, fái þau auknu réttindi, sem hér er um að ræða. Mér þykir það kynlegt, ef þeir menn, sem hafa verið að lýsa yfir trausti sínu á sérfræðingum í þessari grein, skuli nú ekki treysta þessum sömu sérfræðingum til að hafa slíkt sem þetta með höndum. Þessar röksemdir stangast því svo greinilega, að þær verða að engu.

Ég held því, eins og þetta frv. er nú, og svo framarlega sem menn vilja treysta sérfræðingum í hvaða grein sem er, þá ætti að vera óhætt að aðhyllast frv. og fela þar með þessum sérfræðingum, sem eiga að hafa þessi próf með höndum, að gera út um það, hvort þessir menn séu færir til að taka við þessum auknu réttindum á þessu sviði. Það er gersamlega alveg óforsvaranlegt hreint og beint að neita að viðurkenna, að löng æfing og leikni í meðferð véla sé ákaflega mikils virði. En vitanlega kemur leikni og reynsla ekki að fullu liði ein saman. Þar verður vitanlega fræðileg þekking að vera með. Það nær því engri átt að ganga á móti þessu frv. og neita þar með að viðurkenna, að reynsla og æfing sé svo mikils virði, að hún geti gert það forsvaranlegt að veita mönnum rétt til að hafa á hendi gæzlu stærri véla.

Þá er hér um það að ræða, hvort miða skuli þennan rétt við 400 hestöfl eða 300. Nú liggur þetta mál þannig fyrir, að það liggja fyrir atvik, sem sýna, að það er réttmætt að færa þetta einmitt upp í 400 hestöfl. Til þess að ná því, sem er raunhæft í þessu máli, hefði því verið réttast að samþ. frv. í þeirri mynd, sem það hefir nú, en færa hámarkið ekki niður eins og meiri hl. sjútvn. leggur til.

Ég vildi biðja menn mjög að athuga það, áður en gengið er til atkv., að þessir menn, sem hér eiga að fá þennan aukna rétt, þeir eiga, til þess að geta fengið hann, að ganga undir próf og stundast próf, sem sérfræðingar á þessu sviði eiga að halda yfir þeim.

Andmælendur þessa máls hafa í þessu sambandi vitnað í álit vátryggingarfélaganna. Ég vil nú spyrja, hvaða aðstöðu forstjórar þeirra félaga hafa fram yfir hvern þm. að segja til um það, hvort fært sé að veita slík réttindi. Ég veit ekki til, að þessir forstjórar séu neinir sérfræðingar í þessu efni. Þeirra sérfræði liggur á allt öðru sviði, eins og við allir höfum sérstaklega lagt okkur eftir því að kunna skil á þeim hlutum, sem lífið hefir lagt fyrir okkur að leysa alveg sérstaklega.

Hér hefir ennfremur verið vitnað í álit skipaskoðunarstjóra ríkisins. Hann er, eins og kunnugt er, vélfræðingur, þ. e. a. s. gufuvélafræðingur, og er sjálfsagt góður sérfræðingur á sínu sviði. Hitt verð ég líka að benda á, að andmæli hans gegn þessu frv. eru byggð á því, hvernig þetta frv. er upphaflega flutt, sem sé að þessi réttindi ættu að ná til mótora, sem hefðu allt að 500 hestöfl, og auk þess ekki gert ráð fyrir, að þessir menn ættu að ganga undir neitt próf. Hér er því orðin mikil breyt. á, og ég skal fullkomlega viðurkenna, að það felst meira öryggi í því að ganga þannig frá málinu, að menn verði að sanna leikni sína og kunnáttu fyrir sérfræðingum með því að ganga undir próf heldur en að byggja eingöngu á þeirri þekkingu, sem menn hefðu aflað sér um ákveðið árabil, þó að ég fyrir mitt leyti, sem er meðflm. frv., vilji leggja svo mikið upp úr langri og praktískri reynslu, sem aflað er í mörg ár, að forsvaranlegt væri að afgr. frv. á þeim grundvelli. Ég viðurkenni það þó fullkomlega, að í þessum ákvæðum felst miklu meira öryggi fyrir þetta prófskilyrði, sem hér um ræðir. Ég álít því í raun og veru óforsvaranlegt að samþ. ekki frv. í þeirri mynd, sem það hefir nú.

Það má ennfremur benda á, að það getur orðið málinu til falls, ef farið er að breyta því nú, því að þá þarf það að ganga aftur til Ed., en nú er eins og menn vita mjög liðið á þingtímann.

Ég vænti þess vegna, að það geti nú orðið samkomulag um að afgr. frv. óbreytt, því að það er með öllu áreiðanlegt, að það skerðir ekki minnstu vitund öryggi þeirra manna, sem eiga öryggi sitt undir heppilegri og góðri meðferð véla í höndum þeirra manna, sem hér um ræðir.