15.12.1934
Neðri deild: 61. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2271 í B-deild Alþingistíðinda. (2911)

106. mál, vélgæsla á mótorskipum

Páll Þorbjörnsson:

Ég sé ekki ástæðu til að svara skætingi þeim, sem hv. 6. þm. Reykv. hreytti hér úr sér. Þetta er svo sterkur vani hjá honum, að hann getur ekki lagt hann af sér, þótt rætt sé um ópólitískt mál.

Hvað snertir það, sem sagt hefir verið hér um hina miklu nauðsyn á smíðakunnáttu mótorvélstjóra, þá skal ég ekkert úr því draga. En það er hinsvegar áreiðanlegt, að smíðakunnátta úr smiðjum getur verið þess eðlis, að hún sé miklu lélegri heldur en reynsla þeirra manna, sem búnir eru að vera mótorvélstjórar í mörg ár. Það er vitanlegt, að maður, sem búinn er að vera mótoristi við 100—150 ha. vél í 36 mánuði, er búinn að fá mikla reynslu í aðgerðum. Vélarnar eru iðulega teknar í sundur og mótoristarnir eru alla jafna við allar aðgerðir, jafnvel þó fengnir séu fagmenn úr landi til þeirra.

Hitt er alkunnugt, að í smiðjum úti um land vinna oft menn, sem ekki hafa aðra smíðaþekkingu en reynslu sína, og eru slíkir menn stundum mjög eftirsóttir til að gera við mótorvélar.

Þar sem fjölyrt hefir verið um þá miklu þekkingu, sem nemendur vélstjóraskóla Íslands fái í mótorvélfræði, vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp þann kafla löggjafarinnar, sem fjallar um, hvers krafizt skuli við vélstjórapróf:

„Þekking á gufuvélum í skipum, einstökum hlutum þeirra og samsetning þeirra, svo og á kötlum og öðrum tækjum, er þeim fylgja, þekking á eldri og yngri tegundum gufuvéla og gufukatla, hirðingu gufuvéla og gufukatla, stjórn þeirra, viðhaldi og eftirliti, vélabilun, ketilsprengingu, aflmælislínum og þeim niðurstöðum, er af þeim má draga; hestafli gufuvéla og kolaeyðslu, stelling skyttunnar, hjálparvélum á skipum (gufustýrivélum, gufuvindum, ljósvélum, kælivélum o. s. frv.), skipting skipa í vatnsþétt hólf, bygging skipa, skipsdælum og slökkviáhöldum, á lagaákvæðum um íslenzk gufuskip. Þekking á hreyfivélum (mótorum).“

Þarna er hvergi tekið fram, að þeir eigi að hafa sérstaka þekkingu á mótorvélum. Þótt eitthvað kunni að vera farið inn á þetta í kennslunni, þá er þess ekki krafizt til prófs, ef farið er eftir þessum l. Ég vænti því, að málið fái sömu lausn í þessari hv. d. og það fékk í Ed.