15.12.1934
Neðri deild: 61. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2273 í B-deild Alþingistíðinda. (2919)

106. mál, vélgæsla á mótorskipum

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Hv. 6. þm. Reykv. ætlaði að slá slag fyrir vélfræðingana með því að lesa upp ummæli skólastjóra vélstjóraskólans um það, að þeir, sem útskrifuðust úr skólanum, væru jafnfærir að fara með mótora og gufuvélar. Það kemur þó fram í þessu bréfi skólastjórans, að mótorfræði er aðeins kennd 4 stundir í viku, og það er ekki kunnugt í þessu sambandi, að mótorar séu notaðir við kennsluna til þess að æfa nemendur við. Hitt er kunnugt, að á námskeiðum Fiskifél., sem mótoristarnir nema á og gefur þeim rétt til þess að fara með vélar upp í 150 hestöfl, þar eru mótorar notaðir sem einn veigamesti þáttur í fræðslunni, og hygg ég, að það séu þrjár vélategundir, sem menn eru æfðir á. Ég held því, að vélstjóraskólinn hafi ekki hvað kennsluaðferðina við mótorana snertir þá yfirburði, sem ætla mætti eftir því, sem andstæðingar þessa frv. hafa haldið hér fram. Hv. 6. þm. Reykv. talaði um það, að þótt reynslan væri góð, þyrfti bókleg þekking að vera henni samfara. Það er einmitt séð fyrir þessu með námskeiðum Fiskifél., og það er áreiðanlegt, að þegar sú bóklega þekking, er þeir fá þar, leggst við langa reynslu, þá er öruggt að veita þeim aukin réttindi.

Annars á prófið, sem gert er ráð fyrir, að skera úr því, hvort þeir hafi ekki bæði bóklega og verklega þekkingu, er nægi. Þá má benda á það, að mótorar eru ekkert margbreytilegri þótt þeir séu stærri, heldur er auðveldara að gæta stærri mótoranna. Minni mótorunum er hættara við að bila en stærri mótorunum; þeir eru og veikbyggðari og því vandfarnara með þá. Má í þessu sambandi benda á það, að hjá Dönum eru hliðstæð mótornámskeið og hér hjá Fiskifél., og veita þau réttindi til þess að fara með allt upp að 500 hestafla vélar.

Hv. þm. Barð. fékk hér hálmstrá að grípa í, í sambandi við þáltill., sem komið hefir fram í Ed. Það er ekki hægt að hugsa sér meiri hringlanda en verið hefir á hv. sjútvn. í þessu máli; hún hefir bókstaflega leikið á riðli í málinu. Hv. þm. Barð. vildi nú leggja hér smiðshöggið á með því að leggja til, að málinu væri vísað frá. Ástæða hv. þm. Barð. fyrir þessu er sú, að í Ed. hefir komið fram þáltill., þar sem gert er ráð fyrir því, að þetta mál verði tekið til athugunar, og fyrir næsta þing verði lagt frv. um það. Ég skal ekki segja, hvort þetta verður tekið fyrir á næsta þingi, en trúlegt þykir mér, að það muni daga uppi, eins og oft kemur fyrir. Það er og kvartað undan því, að naumur tími sé til undirbúnings mála fyrir næsta þing. Það er því ekki víst, að þetta takist. Ég sé því ekki ástæðu til að fresta málinu. Ég vildi aðeins benda á þetta. Hv. þm. þarf ekki að gera ráð fyrir því, að þótt þetta frv. gangi fram, þá slái í baksegl. Það stefnir að því og mun stefna að því, að reynslan fái sína viðurkenningu.