02.11.1934
Neðri deild: 26. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2027 í B-deild Alþingistíðinda. (2924)

109. mál, dragnótaveiðar í landhelgi

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Ég verð að segja það, að mér þykir töluvert fyrir, enda þótt svo tækist til á síðasta þingi, að lög þau, sem hér er farið fram á að framlengja, næðu fram að ganga, að nú skuli vera farið að ónáða hið nýkosna þing með að framlengja þau. Hvernig sem menn líta á dragnótaveiðar yfirleitt, þá er það svo eftir gildandi lögum, að þeir sjómenn, sem telja þær hentugar og arðvænlegar, hafa aðstöðu til þess að stunda þær ákveðinn tíma á árinu. En í þeim tilfellum, þar sem þeir telja hana óhentuga og óheppilega, hafa þeir heimild til þess að fá vissum svæðum lokað fyrir þessari veiðiaðferð. Heimild þessa hafa því ýmsir hreppar notað sér. En nú á að taka þennan rétt af nokkrum mönnum, þeim, sem búa á svæðinu frá Hjörleifshöfða að Látrabjargi. Mér finnst því harla nærgöngult og langt gengið, að fara nú fram á það við þetta nýkosna þing, að það lögfesti enn um árabil þennan órétt, sem skerðir réttindi nokkurra manna. Ég vil því fara fram á það við hv. þdm., að þeir láti undan falla að framlengja þessi lög, svo hinn sanni réttur megi gilda fyrir alla landsmenn í þessu efni. Að menn álíta þessa veiðiaðferð skaðlega, sést bezt á því, hversu víða gerðar hafa verið samþykktir til þess að útiloka hana. Hvað menn gera í þessu efni á svæðinu frá Hjörleifshöfða að Látrabjargi, fer að sjálfsögðu eftir því, hvað þeir álíta sér og atvinnurekstri sínum fyrir beztu. Ég vildi því bera fram þá ósk, að þeir sjómenn, sem búa á því svæði, fái að njóta sama réttar og aðrir sjómenn á öðrum stöðum þessa lands, svo að þeir fái að haga atvinnurekstri sínum eftir því, sem þeim bezt hentar.