15.12.1934
Neðri deild: 61. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2275 í B-deild Alþingistíðinda. (2926)

106. mál, vélgæsla á mótorskipum

Pétur Ottesen:

Ég vil benda hv. þm. Barð. á að ganga ekki langt í því að átelja sjútvn. Ed. fyrir það, að hún vilji fresta þessu máli. Hún hefir gert það sama og sjútvn. þessarar hv. d., að leggja til, að frv. þetta verði samþ., en jafnframt borið fram þál. um að láta undirbúa breyt. á þessari löggjöf fyrir næsta þing. Ég veit nfl. ekki betur en að sjútvn. þessarar d. tæki það fram, þegar hún gekk inn á frv. þetta, að nauðsynlegt væri að endurskoða þessa löggjöf fyrir næsta þing. Ég held því, að þessi hv. þm. ætti ekki að vera að skjóta neinum stórskotum til sjútvn. Ed. vegna afstöðu hennar til þessa máls. Þetta sýnir aðeins það, að n. vill sníða af mestu agnúana, sem eru á þessari löggjöf. Ég fæ því ekki annað séð en að þetta geti prýðilega farið saman hjá nefndinni.

Þá vil ég skjóta því til hv. 3. þm. Reykv. að gera samanburð á námskeiðum Fiskifél. og menntun þeirri, sem þessir menn fá í vélstjóraskólanum, og benda honum jafnframt á að strika ekki yfir þá 3 ára reynslu, sem mótoristarnir hafa í meðferð mótorvéla. Hann sagði, hv. þm., að bak við þessar kröfur útgerðarmanna lægi það, að þeir vildu fá ódýrari menn. En þetta er ekki rétt. Það, sem fyrir útgerðarmönnunum vakir, er það, að þeir telja sér meira öryggi í því að hafa á bátum sínum menn með fleiri ára æfingu í meðferð mótorvéla en menn með litla æfingu, enda þótt þeir séu útskrifaðir af vélstjóraskólanum. Það sjá líka allir útgerðarmenn, að vélabilun, þó ekki sé nema 1 dag á vertíðinni, getur kostað þá meira en kaupmismuninn.

Þá gerði hv. 3. þm. Reykv. mikið úr smíðakunnáttu hinna lærðu vélstjóra og sagði, að við yrðum að færa sönnur á, að hún væri ekki nauðsynleg á mótorskipum með þeirri stærð, sem frv. ræðir um, ef hún væri nauðsynleg á hinum. Út af þessum ummælum hv. þm. vil ég benda honum á, að fyrstu vélstjórar á hinum stærri vélskipum láta þessa mótorista oft og mörgum sinnum stjórna vélunum um lengri og skemmri tíma, ef á þarf að halda, og það alveg á sína eigin ábyrgð. Þetta ætti að vera sönnun þess, að mótoristunum sé séð fyrir nægilegri smíðakunnáttu til þess að geta farið með þessar vélar.