02.11.1934
Neðri deild: 26. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2029 í B-deild Alþingistíðinda. (2927)

109. mál, dragnótaveiðar í landhelgi

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Ég kem ekki auga á, hvað almennar umr. um dragnótaveiði koma frv. þessu við, þar sem í því felst ekki annað en að beita þá menn ranglæti, sem búa á svæðinu á milli Hjörleifshöfða og Látrabjargs. Annars skil ég ekki afstöðu hv. þm. Ísaf., að hann, sem er búsettur á því svæði, sem menn eru frjálsir í þessum efnum, skuli geta beitt sér fyrir því, að aðrir séu misrétti og rangindum beittir, til þess m. a., að sýslubúar hans geti hagnazt af því. Það er nú sem betur fer sýnilegt, að ýmsir menn, sem búsettir eru kringum þennan hv. þm., líta öðruvísi á þetta mál en hann, því að þar vestra hafa þegar verið gerðar samþykktir um að banna dragnótaveiði á vissu svæði. Ég er því hissa á, að þessi hv. þm., sem virðist telja það réttmætt, að menn búsettir á milli Hjörleifshöfða og Látrabjargs megi ekki hafa ákvörðunarrétt í þessum efnum, skuli ekki hafa borið fram frv. um að meina sýslubúum sínum að fá friðuð svæði hjá sér fyrir hinni illræmdu dragnótaveiði. Ég fyrir mitt leyti lít svo á, að það sé hreinasta gerræði af Alþingi að gera svo mjög upp á milli manna eins og átt hefir sér stað, og á að halda áfram að gera, ef frv. verður samþ., úr því á annað borð sumir eiga að hafa ákvörðunarvald um það, hvort dragnótaveiði skuli leyfð eða ekki. Ég gæti farið út í það við hv. þm. Ísaf. að ræða um kosti og galla á dragnótaveiði í landhelgi og eins hitt, hvað yfirleitt er mikið leggjandi upp úr áliti og umsögn sérfræðinganna í þessu efni, og hinsvegar reynslu sjómannanna, en ég ætla ekki að fara út í þá sálma að þessu sinni, af því þetta frv. getur ekki sérstakt tilefni til þess, að þetta mál sé rætt almennt nú. Hér á aðeins að greiða atkv. um það, hvort á að lofa öllum landsmönnum að hafa sama rétt í þessu máli. Hvort á að lofa mönnum hér sunnan- og vestanlands að ákveða fyrir sig, hvort þeir vilja leyfa þessa veiði, eins og Austfirðingar og Norðlendingar fá að ráða þessu hjá sér. Það er til þess vitnað í grg. frv. og endurtekið af þeim flm., sem talaði, að margar áskoranir hefðu borizt sjútvn. um að leyfa þessa veiði. Ein slík áskorun er prentuð með frv. frá nokkrum mönnum í Reykjavík. Ég hefi gengið eftir form. sjútvn. með að fá að sjá fleiri slíkar áskoranir, sem eiga að hafa borizt úr Keflavík, Vestmannaeyjum og víðar, en hv. form. n. hefir sagzt ekki vita til þess, að neinar slíkar áskoranir væru fyrir hendi frá öðrum en þessum mönnum í Reykjavík. Hitt er alkunnugt, að hér við Faxaflóa er mikil óánægja fyrir hendi með þessa veiði, eins og hv. 3. landsk. hefði átt að geta fundið á fundi þeim, sem við vorum báðir á hér suður með sjó fyrir skömmu síðan. Ég held, að það skiptist nokkuð á um það, hvort menn, sem hlut eiga hér að máli, vilja láta veiða eða ekki veiða, en eins og ég hefi áður sagt, er ekki ástæða til að ræða þá hlið málsins að þessu sinni, heldur hitt, hvort menn eiga að hafa mismunandi rétt í þessum málum í ýmsum landshlutum.