03.11.1934
Neðri deild: 27. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2030 í B-deild Alþingistíðinda. (2932)

109. mál, dragnótaveiðar í landhelgi

Frsm. (Páll Þorbjörnsson):

Hv. þm. Ísaf. hefir að nokkru leyti tekið fram það, sem ég hafði að segja, en í sambandi við það, sem hv. þm. Borgf. var að spyrja um út af þeim áskorunum, er ég gat um í framsöguræðu minni frá öðrum stöðum en héðan úr Reykjavík og Akranesi og prentaðar eru sem fskj. með frv., skal ég geta þess, að þessar áskoranir komu til n. eftir að búið var að prenta frv., og bárust þær beint til mín, af því að ég hafði framsögu í málinu. Eins og sést á grg. frv., fylgir því áskorun frá umboðsmönnum fyrir 21 mótorbát í Reykjavík og Akranesi um að framlengja veiðileyfið. Í Vestmannaeyjum er sagt, að 11 bátar hafi stundað dragnótaveiði síðastl. sumar, með frekar góðum árangri. Á þessum bátum hafa unnið 50 til 60 manns. Þaðan hefir borizt áskorun undirskrifuð af 51 manni og úr Keflavík hefir borizt áskorun frá 81 manni, sem hafa stundað þessa veiði á síðastl. sumri. Ég veit, að í Gerðum í Garði er andstaða gegn þessu máli, en það þorp er rétt hjá Keflavík, og þar sem það er minna, ættu þessi tvö þorp að vega hvort á móti öðru, svo að Keflavík ætti a. m. k. ekki síður að vera tekin til greina.